19.10.1934
Neðri deild: 14. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 755 í B-deild Alþingistíðinda. (882)

16. mál, eldspýtur og vindlingapappír

Sigurður Kristjánsson:

Ég ætlaði aðallega að segja nokkur orð út af þingsköpum, þótt hv. 3. þm. Reykv. hafi að mestu tekið af mér ómakið.

Ég firtist ekki við það, að hæstv. forseti gerði aths., við ræðu mína. Það var rétt, sem hann sagði. Ég hafði sem sé litið svo á, sem þetta væri 1. umr., en hún fór fram umræðulaust að mér fjarverandi. En ég hefði samt hagað orðum alveg eins, þó að ég hefði athugað, að þetta væri 2. umr. Ég var á móti frv. í heild, stefnu þess, og var því eðlilegt, að ég ræddi um það almennt, en ekki í einstökum atriðum.

Mín skoðun er sú, að 22. gr. þingskapa banni ekki, að frv. séu rædd almennt við 2. umr. Þar er aðeins sagt, að frv. skuli rædd í einstökum gr., en ekkert bann er við því lagt, að þau séu einnig rædd almennt, enda er, eins og vitanlegt er ekki hægt að komast hjá því.

Hv. þm. V.-Ísf. sagði, að einokunarmál væru ekki einkenni á sósíalistum sérstaklega. Það er nú vitanlega erfitt að koma með hreint eyrnamark á þeim, svo margt sem einkennir þá flekkóttu hjörð. En oftast er fjárbragðið það sama. Kemur það bezt fram í þessum einokunartilhneigingum, sem vilja binda hendur borgaranna, banna þeim að sitja og standa eins og eðli þeirra vísar þeim til og hefta þá í því að lifa lífi sínu eins og frjálsbornir menn.

Einokun á vörum hefir verið komið á fyrir tilstilli fleiri en sósíalista. Verður oftast að grípa til slíkra hluta þegar komið er út í mikil vandræði. Ég hefi t. d. heyrt og lesið, að í sumum löndum hafi verið lögleidd einokun með eldspýtur, af því að það hafi verið leið til að útvega þessum löndum lán. Þetta var, þegar Kreuger var upp á sitt bezta, sá, sem íslenzka stj. hafði miklar mætur á. Þá gat það tekizt, með því að veita þessari leiðarstjörnu ísl. stjórnmálamanna einokun á eldspýtum, að herja út lán af hans vel fengna fé. En eldspýtnanotkun var þá ekki svo mikil hér á landi, að þessi mikilláti maður gæti látið mikið fé fyrir íslenzka einkasölu. Sést af þessu, að það þarf ekki að vera, að menn hafi einokun á stefnuskrá sinni, þótt þeir fari inn á þvílíkar brautir. Ég segi ekkert um það, hverjir hafi yfirleitt komið á einokun í öðrum löndum, en svo mikið er víst, að neyðin getur oft rekið menn út á brautir, sem þeim eru ekki geðfelldar, eins í þessum efnum sem öðrum.

Það er ekkert undarlegt, þótt hægt sé að afla tekna af vörum, sem ekki er hægt að neita sér um, ef ekki hafa aðrir þessar vörur til sölu en ríkissjóður. En hv. frsm. meiri hl. sagði, að þessar tekjur myndu nema 40 þús. kr. Þykir mér það mikið af ekki stærra vöruflokki en þetta er. Sýnir þetta, að ekki er verið að hlífa notendum, og gerir það ekki frv. aðgengilegra í mínum augum.