19.10.1934
Neðri deild: 14. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 758 í B-deild Alþingistíðinda. (885)

16. mál, eldspýtur og vindlingapappír

Frsm. meiri hl. (Ásgeir Ásgeirsson) [óyfirl.]:

Það, sem ég sagði um hækkun verðlagsins í smásölu á síðustu árum, hafði ég eftir verðlagsskýrslum, sem Þjóðabandalagið hefir gefið út. Ég spurðist fyrir hjá kaupmanni hér, hvort eins væri ástatt hvað Ísland snerti, og var hann ekki í neinum vafa um, að það væri hér eins og annarsstaðar, enda liggja til þess sömu rök. Ég sé ekki, að einkasala á eldspýtum komi sérstaklega þungt niður á smásölunum. Þeirra álagning mun verða lík og er, en náttúrlega kemur hún niður á heildsölunum.

Hv. þm. var að tala um, að við létum berast blindandi með straumnum. Ég hygg, að það þurfi fulla sjón og gagnrýni til að geta fylgzt með, þurfi að vera sjáandi til að vita, hvað er að gerast. Hitt er blinda, að loka augunum fyrir því, sem er að gerast, streitast á móti, reyna að standa kyrr og vilja ekkert sjá. Ef það er satt, sem hv. þm. sagði, að sósíalistar séu að fjarlægjast stefnu sína, þá mun bráðum draga úr því drasli, sem þeim fylgir!! En ég hygg, að þetta sé ekki rétt hjá hv. þm., því einmitt nú leggja sósíalistar, og raunar allir vinstri flokkar, sterka áherzlu á að auka afskipti ríkisins af verzlunarmálum, ekki til að draga úr einstaklingsframtakinu, heldur til að skapa því þau skilyrði, að það fái notið sín sem bezt.

Ég hygg það sé auðséð, hvert straumur tímans stefnir, þegar Bandaríki N.-Ameríku, þetta volduga heimsveldi og höfuðvígi einstaklingsframtaksins, eru nú farin að hafa svo rík afskipti af atvinnu- og verzlunarháttum, að lögboðið er, hvaða kaup skuli greiða og hve mikið það skuli lækka, hvað langur vinnutíminn skuli vera o. s. frv. Og þetta er gert með þeim árangri, að meiri hl. þjóðarinnar snýst með forsetanum. (PHalld: Já, og snýst með honum). Já, hefir snúizt með honum, vegna þess að það sá, hvert straumur tímans stefndi. Og þegar brezki íhaldsflokkurinn setur lög um einkasölu á mjólk, er þá ekki auðséð, hvert straumur tímans liggur, nefnil. í þá átt, að það færast allir flokkar nær sósíalismanum, líka sósíalistaflokkarnir sjálfir.