19.10.1934
Neðri deild: 14. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 759 í B-deild Alþingistíðinda. (886)

16. mál, eldspýtur og vindlingapappír

Frsm. minni hl. (Jakob Möller) [óyfirl.]:

Ég er alveg undrandi yfir hv. þm. V.-Ísf. Hann talar um straum tímans eins og maður, sem enga hugmynd hefir um það, hvað straumur er. Hann segir, að maður þurfi að vera sjáandi til að láta berast með straumnum. Þetta minnir á þau frægu orð þm. um vindinn, sem enginn vissi hvaðan kæmi eða hvert færi. Ég hygg, að það verði eins hjá hv. þm. er hann gerði grein fyrir því, sem hann hafði séð í einhverju riti, útgefnu af Þjóðabandalaginu, eins muni verða með orðin frægu, að hann hafi þau úr einhverju góðu riti. Það þarf sannarlega ekki sjón til að láta berast með straumi tímans, enda lætur þm. sig berast blindur á báðum augum. Hann heldur, að það sé straumur tímans, að ýmsar þjóðir hafa orðið að grípa til neyðarúrræða, t. d. tekið upp haftastefnu. Af því gripið hefir verið til óyndisúrræða í mörgum löndum til að reyna eitthvað, og menn vita ekki, hvað gera skal, heldur þessi hv. þm. að þetta stafi af því, að menn séu að gerast sósíalistar. En það er alveg áreiðanlegt, að allur heimurinn þráir að komast út úr þessu stríði, þráir að geta fellt niður þær ráðstafanir, sem gerðar hafa verið í ýmsum löndum á þessum vandræðatímum, og þetta er áreiðanlega straumur tímans, að allir leita eftir því, hvað sé bezt til að losna við það þvingunarástand, sem ríkir í heiminum, og fá aftur sitt fulla frelsi. En þessar ráðstafanir eru gerðar af því menn halda, að svona verði þetta í rauninni að vera á þessum tímum. - Ég vil að lokum spyrja hv. þm., hvernig hann skilur orð Staunings um að hann vilji ekki skerða einstaklingsframtakið, heldur efla það.