19.10.1934
Neðri deild: 14. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 760 í B-deild Alþingistíðinda. (888)

16. mál, eldspýtur og vindlingapappír

Sigurður Kristjánsson:

Ég tek til máls bara af því, að hv. þm. V.-Ísf. var að spá illa fyrir mér og hv. 3. þm. Reykv. Hann hélt, að svo gæti farið fyrir okkur, að fastheldni okkar gæti leitt okkur til dauða. Ég veit, að þetta er rétt, fastheldni við skoðanir getur leitt til pólitísks dauða. En það getur líka verið hættulegt að fela sig straum tímans og of mikið í sölur lagt til þess að fljóta. Það eru til hringiður í straum tímans, sem fært geta í kaf jafnvel þá, sem mestu fórna til þess að geta flotið ofan á. -

En þótt menn bíði pólítískan bana af því, að þeir eru fastheldnir við skoðanir, er það engin sönnun fyrir því, að þeir hafi haft rangt fyrir sér. Hvort þetta leiði mig til dauða, skal ég ekkert um segja. Ég sé ekkert við það að athuga að deyja heiðarlegum dauða, ef lifað er með sæmd og dauðanum tekið með karlmennsku. En hitt er verra, að lifa með lítilli sæmd, eins og sumra virðist háttur, og vilja allt til vinna að lifa pólitískt.

Ég vil segja það, að þó breyttir tímar og erfiðir geri það að verkum, að eitthvað þurfi að gera í þá átt að hefta einstaklingsframtakið, kollvarpar það ekki því lögmáli, sem allt félagslíf byggist á, og þó einstaklingsframtakið hafi í höndum ósvífinna manna gengið í einstaka tilfellum lengra en almennt velsæmi leyfir, þá raskar það ekki grundvallarlögmáli allrar heilbrigði í verzlun og viðskiptum. Skoðun mín er sú, að hvorki hér á landi né annarsstaðar muni neitt annað leiða til meiri farsældar fyrir heildina. Það er því óhætt fyrir mig og aðra, sem trúa á einstaklingsframtakið, að halda fast við þá trú, og bíða dauða síns með karlmennsku. En ég skildi dauðaspá hv. þm. í sambandi við það, að hann lýsti því yfir, að hann hefði smitazt af rauðum hundum, sem hann nefndi svo, og skyldi þá hans hlutskipti vera betra en okkar? En það eru til margar straumlínur, og sá, sem hugsar mest um að lenda í þeirri straumlínu, sem ber hann helzt að þessa heims gæðum, hann getur lent í hringiðu og orðið utan strauma, þ. e. a. s. utan flokka.

Menn verða því að reyna að sjá svo um, að þeir lendi ekki í hringiðu og sogist niður af þeim straumi, sem menn hafa helzt kosið sér að berast með.