10.11.1934
Efri deild: 35. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 762 í B-deild Alþingistíðinda. (899)

16. mál, eldspýtur og vindlingapappír

Frsm. minni hl. (Magnús Jónason) [óyfirl.]:

Það var aðeins af því, að ég gat ekki orðið sammála hv. meðnm. mínum, að ég gaf út sérstakt nál., og þá þykir mér viðkunnanlegra að standa upp til þess að fylgja fram þeim málstað. En ég stend ekki upp af því, að mér finnist ástæða til að vekja miklar umr. um málið. Mér finnst það fremur ómerkilegt. Þetta er lítil vörutegund, sem farið er fram á að taka einkasölu á, og varla nokkur maður á landinu, sem brúkar svo mikið af þessari vöru, að það geri til, þó að verzlunin með hana sé óhagstæð. Þess vegna þarf ekki að fara út í stórar deilur um ríkisverzlun í sambandi við þetta. En hitt er annað mál, að eins og frv. var upphaflega, þá var stefnt út í það, að eldspýtur flyttust ekki, ef verzlunin yrði óhentug með þær. Menn mundu þá heldur hafa notað eitthvað annað, ýmiskonar kveikjara og eilífðareldspýtur, eða hvað það nú heitir allt saman. En hv. meiri hl. n. hefir nú reynt að setja undir þennan leka, með því að heimila einkasölu á öllu slíku. Það getur því farið út í það að menn taki upp þá gömlu aðferð að sækja köggul í hlóðin þegar þeir þurfa á eldi að halda. Ég veit ekki, hvort hv. meiri hl. n. treystir sér til að setja heimild í lögin til þess að varna því, að menn geri það.

Þá hefi ég reynt að leita að vindlingapappírnum á innflutningsskýrslum, en hvergi getað fundið hans getið. Ekki hefir hann komizt á verzlunarskýrslur, og er hans hvergi getið þar, sem um innheimtu tolla er að ræða. Ég hygg því, að það sé hverfandi lítið, sem inn flyzt af þessari vörutegund, enda getur einn maður smyglað í vestisvasa sínum því, sem af þessari vöru er notað í landinu á einu ári. En þetta horfir öðruvísi við annarsstaðar, þar sem mikil framleiðsla er af vindlingum og pappírinn er fluttur inn, en sú framleiðsla er nú ekki fyrir hendi hér. En reynslan er alstaðar sú, að erfitt er að varna því, að þessari vöru sé smyglað. Það er hægt að ímynda sér, hvað auðvelt er að smygla vindlingapappír, þegar hægt er að fela mörg þúsund í lófa sínum. En það mundi hinsvegar ekki gera svo mikið til, þó að einkasalan missti þessa litlu verzlun með vindlingapappír; það munu aldrei verða svo miklar tekjur af því, að það muni.

Ég sé, að í 8. gr. frv. er það tekið fram, að ríkisstj. ákveði hámarksverð á eldspýtum og vindlingapappír í smásölu. Ég sé enga ástæðu til þessa. Einkasalan ákveður sitt verð á þessari vöru, og ég sé ekki, hvers vegna þarf að binda smásöluna nokkrum böndum út af fyrir sig. Hvers vegna mega smásalarnir ekki keppa hver við annan eins og þeim sýnist, alveg eins og þegar verzlunin er frjáls?

Ég skil ekki, hver er tilgangurinn með 9. gr. frv., sem svo segir, með leyfi hæstv. forseta,: „Á umbúðir allra tegunda af eldspýtum og vindlingapappír, sem einkasalan flytur inn, skal letrað „Tóbakseinkasala ríkisins“.“

Ég býst við, að það sé meiningin, að þetta verði nokkurskonar tryggingarráðstöfun, líkt eins og nú, að tóbakseinkasalan límir miða á hvern kassa, til þess að það verði meira áberandi ef menn eru með smyglaða vöru. En ég sé ekki, hvernig á að koma þessu fyrir, svo öruggt sé, nema líma eigi miða á hvern eldspýtnastokk! Slík áprentun mundi kosta meira en sem nema mundi ágóðanum af einkasölunni með vöruna. Það er annað mál að prenta merki á miða, sem límdir eru á stóra pakka. Ég skil ekki, hvað það á að þýða að baka verzluninni kostnað með þessari sérvizku.

Annars á það ekki við, að ég sé að fetta fingur út í einstök atriði frv., því að ég legg til, að það verði fellt. Ég álít, að þó að það verði samþ., gefi það ríkissjóði svo sem engar tekjur.

En ef hinsvegar tekin er í einkasölu verzlunin með kveikjara, þá kemur þar vara, sem talsvert vandasamt er að verzla með. Ef á að taka kveikjara í einkasölu, því þá ekki að fara eins með allar vörur, sem eitthvað koma tóbaksnautn við? Kveikjarar eru með margvíslegu móti. Þeir eru stundum úr dýrum málmum og notaðir til gjafa, og ef á að fullnægja eftirspurn eftir þeim, þá þarf að hafa þá á boðstólum í fjölbreyttu úrvali, og gæti þá nokkurt fé legið í því, þó ekki þyrfti það að vera mjög mikið. Verzlun með kveikjara er því annars eðlis heldur en verzlun með eldspýtur, sem er miklu einfaldari.

Ég held, að til þess að ráða bót á þeim annmörkum, sem fylgja mundu verzluninni með vörur frv. í einkasölu, væri langheppilegast að fella frv., því að sýnilega græðir ríkissjóður ekkert á þessu brölti.