10.11.1934
Efri deild: 35. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 764 í B-deild Alþingistíðinda. (900)

16. mál, eldspýtur og vindlingapappír

Frsm. meiri hl. (Jón Baldvinsson) [óyfirl.]:

Þó að ákveðið sé hámarksverð á eldspýtum eins og gert er ráð fyrir í 8. gr. frv., þá þarf það ekki að vera útilokað, að menn geti keppt um söluna með verði á þeim. Ég býst við, að ákveðin verði ómakslaun til smásalanna, og munu þeir af þeim, sem duglegir eru að selja, treysta sér til að hafa verðið eitthvað fyrir neðan það mark, sem það ákvæði setti. (MJ: Hver er tilgangurinn með hámarksákvæðinu?). Tilgangurinn er auðsær, að ekki geti átt sér stað óhæfileg álagning hjá smásölum þannig, að samtök smásala kæmu sér saman um að selja þetta háu verði. Yfirleitt þarf að hafa hönd í bagga með sölu á þeim vörum, sem þannig eru innfluttar.

Hv. frsm. minni hl. hélt, að vandræði gætu orðið úr því að letra á alla eldspýtustokka samkv. 9. gr. frv. En þetta er ákaflega einfalt mál og auðvelt að koma þessu fyrir. Það var talað um það hér á Alþ. 1928, þegar kom til tals einkasala á eldspýtum, að komið gæti til greina sem einkatekjugrein fyrir ríkissjóð að selja auglýsingar, sem á þeim stæðu. Það væri mjög auðvelt að koma því fyrir að setja slíkar auglýsingar á stokkana, með því að semja um það við verksmiðjurnar. Á sama hátt er mjög auðvelt og þarf ekki að kosta neitt verulegt að fá verksmiðjurnar til að letra á eldspýtustokkana, að þeir séu frá tóbakseinkasölunni. Hér eru t. d. heildsalar, sem selja eldspýtur, sem þeir hafa látið letra á á íslenzku.

Í sambandi við þessa áletrun má það segja um vindlingapappírinn, að það kemur kannske ekki til greina að áletra nema umbúðirnar utan um hann, og ekki hvert einstakt blað. Þó veit ég ekki nema letra megi á hvert blað, því að ég vil ekki segja, að mikið þurfi að standa á hverjum miða. Það verða engin vandkvæði með framkvæmd á þessu.

Hið þriðja, sem hv. 1. þm. Reykv. hafði við frv. að athuga, var þetta um kveikjarana. Hann sagði, að af þeim væru fluttar margar breytilegar tegundir. Ég býst við, að það sé rétt hjá honum. En ég vil taka það fram, að það er ekki meiningin, að með þessu eigi að setja upp skrautgripaverzlun með kveikjara búna gulli og dýrum steinum. En það getur vel verið, ef efni leyfa og nægur erlendur gjaldeyrir verður fyrir hendi, að það yrði kannske gert, að panta þessa hluti fyrir einstaka menn gegnum einkasöluna, úr gulli eða silfri og setta dýrum steinum, ef vinir einhvers reykingamanns vildu sæma hann við hátíðleg tækifæri. Að öðru leyti álít ég, að á lager ætti tóbakseinkasalan að hafa eingöngu fremur einfaldar gerðir af kveikjurum. - Fleiri aths. voru víst ekki gerðar við frv.