14.11.1934
Neðri deild: 36. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 767 í B-deild Alþingistíðinda. (921)

112. mál, útflutningur á síldarmjöli

Thor Thors:

Ég verð að telja það varhugavert, að setja slíkt ákvæði sem þetta í almenn l., að hæstv. ráðh. geti hvenær sem honum sýnist bannað útflutning á þessari vöru. Slíkt bann í l. gerir verzlun með þessa vöru óvissari en ella. Ég get ekki betur séð en að hægt sé hvenær sem er að banna útflutning á síldarmjöli með bráðabirgðalögum, ef brýn nauðsyn ber til. Það er mjög óþægilegt fyrir þá, sem framleiða og verzla með þessa vöru, að hafa slíkt bann stöðugt yfir höfði sér. Að það er í almennum lögum, getur orðið til þess, að banninu verði frekar beitt en ella og frekar en ástæða væri til. Ég tel því, að nægja muni sú almenna heimild, sem felst í stjskr. fyrir ráðh. að gefa út bráðabirgðalög, ef honum sýnist ástæða fyrir hendi.