14.11.1934
Neðri deild: 36. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 768 í B-deild Alþingistíðinda. (924)

112. mál, útflutningur á síldarmjöli

Frsm. (Bergur Jónsson):

Ég skil ekki, að hv. þm. Snæf. þurfi að misskilja þetta frumvarp. Hér er ekki verið að tala um neitt almennt bann, heldur heimild fyrir ráðherra til að nota, ef nauðsyn krefur vegna fóðurskorts. Það er í raun og veru sama skilyrði og stjskr. setur fyrir setningu bráðabirgðalaga. í 23. gr. stjskr. segir, að ráðh. sé heimilt að setja bráðabirgðalög, þegar brýn nauðsyn sé fyrir hendi. Enginn annar en viðkomandi ráðh. á að dæma um það, hvort þörfin sé nógu brýn. Þess vegna er aldrei hægt að hindra ráðh. í því að setja bráðabirgðalög. Ráðh. á sjálfur að dæma í báðum tilfellunum; hér er aðeins um að ræða mismunandi aðferðir. Ég veit, að hv. þm. hlýtur að skilja þetta. Þessi lög eiga aðeins að koma í veg fyrir það, að ráðh. þurfi að vera að burðast með bráðabirgðalög í hvert skipti. Ég veit, að hv. þm. skilur það líka, að það þarf alls ekki að búast við því, að nokkur landbrh. fari að banna útflutning á verðmætum vörum, ef ekki er alveg sérstök brýn þörf fyrir hendi.

Ég hefi ekki heyrt hv. þm. Snæf. kvarta um það, að ekki hafi verið þörf á því að setja bráðabirgðalög um bann við útflutningi á síldarmjöli í haust. En ég hefi bent á það áður, að sjálfstæðismenn hafa í blöðum sínum, og stundum hér á þingi líka, a. m. k. skopast að því, hvað stj. setti mikið af bráðabirgðalögum. Þeir hafa talað um, að hún notaði þessa heimild stjskr. alltof mikið, þó þeir hafi ekki sérstaklega kvartað undan þeim bráðabirgðalögum, sem hér er um að ræða. En úr því að hv. þm. Snæf. hefir ekkert á móti setningu bráðabirgðalaganna, þá getur hann ekki út frá réttum hugsanagangi verið óánægður með það, að veitt sé heimild til að setja samskonar ákvæði, þegar nauðsyn ber til. Annars er það ákaflega lítið atriði, sem við deilum um, aðeins hvort kosta skuli meiri eða minni skriffinnsku að gera ráðstafanir, sem við erum sammála um, að gera verði undir sérstökum kringumstæðum.