14.11.1934
Neðri deild: 36. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 769 í B-deild Alþingistíðinda. (926)

112. mál, útflutningur á síldarmjöli

Páll Zóphóníasson:

Eins og þessi bráðabirgðal. liggja fyrir, getur ekki verið meiningin að samþ. þau nema með einhverjum breyt. Hv. þm. Snæf. er óánægður með þá breyt., sem n. hefir lagt til. Ekki er hann líklega ánægðari með l. gr. frv. eins og hún liggur fyrir. Hún hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: „Útflutningur á síldarmjöli úr landinu er bannaður, nema leyfi landbúnaðarráðherra komi til“.

Þetta eru l., sem ekki eru bundin neinu tímatakmarki, og hv. þm. hefir enga till. gert um að fella þau úr gildi. Svo þegar n. leggur til að milda þetta þannig, að ekki skuli alltaf vera bannað að flytja út síldarmjöl nema með leyfi ráðh., heldur sé ráðh. aðeins heimilt að banna útflutning þegar sérstök nauðsyn krefur, þá finnst hv. þm. það ómöguleg till.

Nú verðum við að gæta að því, að hér á þingi er búið að samþ. frv., sem orðið er þegar að lögum, um breyt. á forðagæzlulögunum. Með þeirri breyt. er ráðh. gert mögulegt að fylgjast miklu betur með ástandinu að því er fóðurbirgðir í landinu snertir heldur en áður var. Þess vegna er nú engin hætta á, að nokkur ráðh. geri ráðstafanir til að banna útflutning síldarmjöls að óþörfu, þegar hann getur fengið skýrslur frá forðagæzlumönnum hvenær sem hann óskar um fóðurbirgðirnar í landinu. Þessi lög gera því engum tjón venjulega, en tryggja á hinn bóginn, að ráðh. geti, án þess að gefa út bráðabirgðalög - en við bráðabirgðalög er nú sumum hv. þm. ekki vel - tryggt nægilegan fóðurbæti í landinu þegar nauðsyn krefur.