19.11.1934
Efri deild: 42. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 773 í B-deild Alþingistíðinda. (947)

17. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús

Frsm. meiri hl. (Bernharð Stefánsson):

Eins og sést á þskj. 485 og 486, hefir n. ekki orðið sammála um frv. Meiri hl. telur, að ríkissjóður megi ekki missa tekjur sínar af skemmtanaskatti og því 80% álagi á hann, er gilt hefir um skeið, og leggur því til, að frv. verði samþ.

Það má ef til vill segja, að þetta frv. sé nokkuð snemma á ferðinni, því að það byggist á frv. um bráðabirgðabreyting nokkurra laga, og er gagnslaust fyrir ríkissjóð nema það frv. verði samþ., því að þar er ákveðið, að skemmtanaskatturinn skuli renna í ríkissjóð. Samt er ekkert á móti því, að málið gangi til 3. umr. nú, ef deildin tekur næst fyrir afgreiðslu hins frv., þótt það hefði fremur átt að koma fyrir áður.