19.11.1934
Efri deild: 42. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 773 í B-deild Alþingistíðinda. (948)

17. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús

Frsm. minni hl. (Magnús Jónsson) [óyfirl.]:

Þótt ég hafi ekki viljað mæla með frv., vil ég taka það fram, að ég legg ekki mikla áherzlu á þetta. Þetta er svo sem eins eðlilegt og hvað annað í því skattamoldviðri, sem nú gengur yfir. En ég var á móti þessum lögum í upphafi og sé ekki ástæðu til að vera með framlengingunni.

Þessi skattur lendir fyrst og fremst á kvikmyndahúsunum. Mér finnst, að þegar herðir að mönnum, þá veiti eiginlega ekki af því að halda uppi einhverjum góðum og ekki óhollum, en ódýrum skemmtunum, sem almenningur getur helzt veitt sér, og ætti ekki fyrr en í síðustu lög að veitast að þessum tekjustofni.

Ég vil segja í sambandi við það mál, sem var afgr. hér rétt á undan, um lækkun á kaffi- og sykurtolli, að mér finnst það alveg eins hægt að hlaða tollum á þá almennu skemmtun, sem er af því að neyta kaffis, eins og að hækka tolla og skatta á þessari ódýru skemmtun almennings.

Ég skal ekki fara neitt út í að rifja upp þau rök, sem ég hefi fært fram gegn hækkun skemmtanaskatts. Aðalatriðið var, að það ætti að halda þessari skemmtun heldur ódýrri, því að ekki er víst, að fólk breyti um til hins betra, þó að því með of háu gjaldi verði varnað að sækja kvikmyndahús, sem þessi skattur lendir aðallega á. Ég var því á móti því, að þessi skatthækkun var lögleidd, og mæli einnig á móti því nú, að þessi skattur verði framlengdur.