17.10.1934
Neðri deild: 12. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 781 í B-deild Alþingistíðinda. (967)

22. mál, verkamannabústaðir

Frsm. (Héðinn Valdimarsson):

Meiri hl. allshn. er á móti brtt. á þskj. 82, sem sjálfstæðismennirnir í n. bera fram. Þegar Byggingarfél. verkamanna var fyrst stofnað, gengu allir út frá því, að aðeins yrði um eitt félag að ræða á hverjum stað, enda ekki þörf á þeim fleirum, þar sem allir hafa sama rétt til þess að ganga í félagið, sem að öðru leyti uppfylla þau skilyrði, sem lögin setja um hámark tekna og eigna. Um pólitískar skoðanir er aldrei spurt. Hitt mun aftur víst, að félag hinna „sjálfstæðu verkamanna“ er beinlínis stofnað í pólitískum tilgangi.

Að menn hafi ekki getað fellt sig við þann byggingarmáta, sem byggt var eftir, er bara sagt út í loftið. Það er ekkert fyrirskipað í lögum félagsins hvernig skuli byggja, öðruvísi en að það skuli gert í samræmi við lögin um verkamannabústaði. Það hafa verið gerðar teikningar og áætlanir um húsin, sem þeir, er íbúðirnar keyptu, hafa valið sjálfir um, og þeir hafa því valið þann byggingarmáta, sem þeir felldu sig bezt við, töldu sér ódýrastan og hagkvæmastan. Óski meðlimir byggingarfélagsins eftir að byggja öðruvísi, er hægt að verða við óskum þeirra, ef að öðru leyti er í samræmi við lögin um verkamannabústaði. Aftur er það ofurvel skiljanlegt, að það yrði á engan hátt hagkvæmara, þó að byggingarfélögin væru fleiri en eitt, þar sem fyrst og fremst það féð er takmarkað, sem byggt er fyrir, og í öðru lagi myndu öll innkaup á efni verða mun dýrari að gera þau í mörgu lagi heldur en einu. En ef þessu á að breyta þannig, að minnka veltu byggingarfélagsins um helming, eða kannske að skipta því milli fjögra eða fimm félaga að byggja fyrir sama fólkið, þá er áreiðanlega bætt aðstaða þeirra, sem selja efni til bygginganna, um leið og afstaða þeirra, sem láta byggja, gagnvart þeim, er efnið selja, breytist stórum til hins lakara. Ég vil algerlega mótmæla því, að það sé af pólitískum ástæðum, að meiri hl. allshn. vill ekki hafa nema eitt byggingarfélag í hverjum kaupstað, heldur er það af þeim ástæðum, sem ég hefi nú gert grein fyrir.