17.10.1934
Neðri deild: 12. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 789 í B-deild Alþingistíðinda. (973)

22. mál, verkamannabústaðir

Garðar Þorsteinsson:

Ég ætla ekki að fara að karpa við hv. þm. sósíalista um þetta mál. Ég veit, að hv. þm. Snæf. mun svara þeim, og kannske fleiri sjálfstæðismenn. En ég vona, að þeir þm. séu til hér í d., sem ekki séu svo flokkslega bundnir, að þeir vilji ekki athuga þetta mál með allri sanngirni, og í sambandi við það vil ég taka fram, að það hefir alltaf verið álitin sjálfsögð skylda löggjafans að byggja löggjöfina þannig upp, að hún raski ekki þeim réttindum, sem borgararnir þegar hafa öðlazt. Lög eiga ekki - ef hægt er hjá að komast - að gilda aftur fyrir sig, á þann veg, að þau svipti þegnana þeim rétti, er þeir áður með beinni stoð í l. hafa öðlazt. - Ef þetta væri ekki aðalreglan, myndu menn ekki - af pólitískum ástæðum - þora að haga framkvæmdum sínum í samræmi við gildandi 1., af ótta við það, að pólitískir andstæðingar kynnu að nota meirihlutavald sitt til þess að útiloka viðkomandi borgara frá þeim réttindum, sem þeir áður hefðu.

Ef Alþingi ætlar nú að ganga inn á þessa hættulegu braut, þá veit enginn, hvernig áframhaldið verður. Byggingarfélag sjálfstæðra verkamanna hefir nú stofnað sinn félagsskap með hliðsjón af þeim l., er þá giltu. Þeir hafa hafið undirbúning undir sína starfsemi í fullu trausti þess, að l., sem giltu, vernduðu þá jafnt og aðra borgara. Það, sem nú á að gera, er að útiloka af pólitískum ástæðum byggingarfélag sjálfstæðra verkamanna, og setja l., er gilda aftur fyrir sig og mundu gera að engu þann rétt, er þeir skv. gildandi l. hafa.

Þetta vil ég taka fram til þeirra, sem nú greiða atkv. um þetta mál, því þeir, sem greiða atkv. gegn brtt. okkar hv. þm. Snæf., ganga inn á pólitískt ofbeldismál, sem hv. 2. þm. Reykv. stendur fremstur í flokki fyrir.