17.10.1934
Neðri deild: 12. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 790 í B-deild Alþingistíðinda. (974)

22. mál, verkamannabústaðir

Frsm. (Héðinn Valdimarsson):

Út af því sem hv. 3. landsk. sagði, vil ég aðeins geta þess, að þetta félag, sem hann er að bera fyrir brjósti, er ekki búið að koma sér meir niður en svo, að það hefir enn ekki sótt um lán til byggingarsjóðs, a. m. k. var það ekki búið að gera það núna fyrir nokkrum dögum. - Þá hefir verið talað um það, að stofnkostnaður hafi orðið verulegur við þetta félag. Ég skil ekki í því, að stofnkostnaðurinn geti verið sem nokkru nemur. Við stofnun hins félagsins var svo að segja enginn stofnkostnaður. Forgöngumenn félagsins og stjórn þess hafa aldrei fengið nein laun, enda ekki óskað þeirra. Það kann eitthvað að hafa farið í uppdrætti að húsum félagsins, en eftir l. um verkamannabústaði er ætlazt til þess, að þeir séu látnir ókeypis af hendi húsameistara ríkisins. Svo að sá hluti stofnkostnaðar mundi hafa verið óþarfur.

Annars er það svo, að ef þetta stjfrv. verður samþ., þá geta þeir menn, sem í þessu félagi hafa verið - ef þeir falla undir ramma l. -gengið inn í byggingarfélag verkamanna og notið þeirra réttinda, sem sá félagsskapur hefir að bjóða, því það er tilhæfulaust, að í þann félagsskap fái ekki aðrir inngöngu en sósíalistískir verkamenn, eins og hv. 5. þm. Reykv. hélt fram, enda er félagið ekki stofnað í þeim tilgangi sérstaklega að útbreiða jafnaðarmennsku, heldur til þess að útvega verkamönnum bættar og góðar íbúðir. En að vísu er það svo, að aðrir flokkar en Alþfl. hafa ekki haft áhuga fyrir bættu og ódýrara húsnæði fyrir alþýðu manna.

Þá hélt hv. 5. þm. Reykv. því fram, að þar sem ég hefði sagt, að lánin endurgreiddust með 5% af lánsupphæðinni, þá væru húsin gefin, þar sem lántakendur greiddu aðeins vexti. En hv. þm. gleymir því fyrst og fremst, að vextirnir hafa verið hærri, þeir hafa verið lækkaðir úr 6% niður í 5%, og jafnvel eftir það, að vextirnir voru hækkaðir er ekki hægt að tala um tap, vegna þess að sjóðurinn hefir auk lánsfjárins allmikið eigið fjármagn og vaxandi, sem myndast við framlag úr ríkis- og bæjarsjóði. Lántakendur hafa fyllilega borgað vexti og afborganir af lánum sínum, og jafnvel þó þetta væri styrkur til þessara húsabygginga, þá væri það ekki nema sjálfsagt og eðlilegt, og mun ég reyna að stuðla að því, að vextir af þessum hinum verði enn þá lækkaðir síðar. Í nágrannalöndum vorum eru vextir og afborganir af þessum lánum ekki nema 3-3½%.

Þá áleit hv. þm., að það drægi ekki neitt úr lánsmöguleikum sjóðsins þó önnur félög bættust við. Ég ætla aðeins að tala um þá reynslu, sem hér er fengin. Byggingarfélag verkamanna hefir fyrir löngu sótt um meiri lán, en það hefir ekki fengizt. Og hvernig getur hv. 5. þm. Reykv. búizt við, að lánsmöguleikar sjóðsins vaxi við það, að fleiri félög sæki um lán? Atriðum, sem fram komu í ræðu hv. 5. þm. Reykv.

Ég þykist þá hafa hnekkt þessum þrem atr., og sé því ekki ástæðu til að fjölyrða um málið frekar að sinni.