17.10.1934
Neðri deild: 12. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 793 í B-deild Alþingistíðinda. (977)

22. mál, verkamannabústaðir

Frsm. (Héðinn Valdimarsson):

Það er alveg rétt hjá hv. 5. þm. Reykv., að við Alþýðuflokksmenn viljum breyta til um þá aðstöðu, sem nú er í þjóðfélaginu. Við viljum jafna hana, hjálpa hinum veikari gegn hinum sterkari, og einn liðurinn í þeirri pólitík er þetta frv. um verkamannabústaði. Það er gert til þess að hjálpa þeim til að eignast húsnæði, sem ekki hefðu annars tök á því, en hinsvegar ekki ætlað þeim, sem ekki þurfa þess með. Við þetta munum við kannast hvar sem er, en hinsvegar á þessi aðstoð jafnt að ná til manna, hvaða pólitíska skoðun sem þeir hafa, ef þeir tilheyra hinum efnaminni stéttum. (PHalld: Útúrsnúningur). En viðvíkjandi því, hve mikið fari af styrknum árlega í vaxtamismun, þá hefi ég þegar svarað því. Það fer ekkert af styrknum til þeirra hluta. En það kann að vera, að ekki fáist 5% aftur inn í byggingarsjóðinn af öllu lánsfénu, vextirnir verði lítilsháttar lægri af eigin fé byggingarsjóðsins. Það stendur svo á, að það er ekkert annað fé til í sjóðnum en það, sem fer í þá verkamannabústaði, sem nú er verið að reisa, svo að til nýrra bygginga verður þá að taka ný lán. Annars er hv. þm. næst að snúa sér til Jóns Þorlákssonar borgarstjóra, sem er endurskoðandi byggingarsjóðsins og getur gefið honum þær upplýsingar, sem hann þarfnast og hv. 3. þm. Reykv. (JakM), sem á sæti í stjórn sjóðsins.

Hv. þm. Snæf. kom með aths. um það, að hann myndi ganga inn á þá braut að binda réttindin við þau félög, sem þegar eru stofnuð, og sýnir það greinilega viðhorf íhaldsins í þessu máli, þar sem úti um land, þar sem ekkert hefir enn verið byggt eftir þessum lögum, er alstaðar eitt byggingarfélag, að ég hygg. Þar hafa fleiri félög ekkert að gera. En hér í Rvík og Hafnarfirði, þar sem hafa verið og eru starfandi félög fyrir, þar vilja þeir endilega fyrirskipa tvö félög, sprengifélög.