17.10.1934
Neðri deild: 12. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 794 í B-deild Alþingistíðinda. (978)

22. mál, verkamannabústaðir

Jakob Möller [óyfirl.]:

Þetta byggingarfélag í Hafnarfirði er nýtt af nálinni. Það er upplýst, að það, sem greitt hefir verið til byggingarsjóðs í Hafnarfirði, hefir eyðzt ár eftir ár til daglegra þarfa bæjarins og ekkert orðið eftir í sjóðnum. Ég er ekki kunnugur því, hvað nú, rétt fyrir þing, kann að hafa verið gert í þessu máli, hvort einhver útvegur hefir verið hafður til þess að koma af stað einhverri hreyfingu í þessu efni, en mér er sagt, að svona hafi það gengið ár eftir ár, og svona hefði það gengið hér í Rvík líka, eins og á Ísafirði, að peningunum hefði verið eytt jafnóðum, ef Alþfl. hefði stjórnað. Þótt þessu fé hafi verið jafnað niður í því skyni eða undir því yfirskini, að það ætti að fara í verkamannabústaði. Um þann frámunalega dugnað jafnaðarmanna hér í Rvík í að koma upp húsunum er það að segja, að það liðu ár áður en nokkur hreyfing komst á málið. Féð safnaðist í sjóðinn og lá þar. Og þegar loks var hafizt handa, þá var fyrst byggt fyrir það fé, er saman hafði safnazt í sjóðinn, þveröfugt við tilgang löggjafarinnar. Tilgangurinn var sá, að þetta tillag gengi til að greiða vaxtamismuninn, en dugnaðurinn hjá hv. 2. þm. Reykv. - hann er sjálfsagt ánægður með, að honum sé eignuð öll forstaðan þar - var nú ekki meira en þetta. (HV: Hvernig er dugnaðurinn hjá þessum hv. þm. með útvegun fjárins? Hann er í sjóðstjórninni). Það eru fleiri í sjóðstj. en ég, þar á meðal hv. 1. landsk., og ég leit ekki svo á, þegar ég var í sjóðstj., að ég hefði meirihl.aðstöðu þar. Þetta er sannleikurinn um dugnaðinn. En hér við get ég bætt, að frumkvæðið að þeirri aðalbreyt., sem í frv. þessu felst, nefnilega sameiginlegum byggingarsjóði fyrir allt landið, átti maður innan Sjálfstfl. (HV: Uss!). Það þýðir ekki að segja „uss“ við því. Það var sjálfstæðismaður utan af landi, sem kom þessari hreyfingu á og þar með því til leiðar, að hér liggur nú fyrir frv. um breyt. á l. Hitt er skiljanlegt, að jafnaðarmenn hafi gripið tækifærið og bannað fleiri en eitt byggingarfélag í hverjum kaupstað. Það er sem sagt þetta, sem hv. 1. landsk. vék að, að þeir vildu koma í veg fyrir kapphlaup. Hann er oft heppinn í orðum, eða svo að andstæðingunum fellur það vel, og honum tókst það núna, þegar ræðuhöld hans og félaga hans hafa snúizt um að sýna fram á, að það væri engin pólitík í þessu máli, að það skyldi skjótast upp úr honum, að þegar sjálfstæðismenn ætluðu að fara að taka þátt í þessum hlunnindum, þá væri það kapphlaup. En kapphlaup getur ekki átt sér stað nema tveir eða fleiri hlaupi, svo að einhver hefir nú verið hlaupinn á stað áður en sjálfstæðismenn byrjuðu. Hæstv. fjmrh. var heppinn á svipaðan hátt. Það var svo innileg gremja í þeim orðum hans, að sjálfstæðismenn hefðu nú orðið fegnir að njóta þessara hlunninda líka. Það var auðheyrt, að hlunnindi samvinnubyggingarfélagsins væru aðeins eign viss flokks, en svo hefði komið á daginn, að fleiri hefðu viljað njóta góðs af. Mér er það fullljóst, að þessum herrum er það mótstætt, að sjálfstæðismenn eigi þarna nokkurn þátt í. En þó er það hið eina, sem gæti réttlætt þetta, að það væri öllum jafnfrjálst. Þó er fjarlægur hugsunarhætti sjálfstæðismanna sá sníkjudýrsháttur, sem liggur til grundvallar fyrir upptöku þessa máls, þ. e. a. s. að veita einum á kostnað annars. Ég kalla það svo, þótt það kunni að falla einhverjum illa í geð. Það er réttnefni hvað snertir hv. 2. þm. Reykv. og hæstv. fjmrh. og þeirra nóta. Slíkur hugsunarháttur er sjálfstæðismönnum fjarlægur. En þegar búið er að viðurkenna í l., að það eigi að veita mönnum, sem svo og svo er ástatt um efnalega, styrk til að eignast hús, þá eiga allir jafnt að geta gert kröfu til slíks. Þetta liggur í hlutarins eðli, og það væri heimska, ef einn flokkur tæki sig út úr og segði: „Ég vil ekki vera með í þessu“. Mönnum getur gramizt, að fleiri skyldu nú vilja setjast að kjötkötlunum, en það er þó sjálfsagður hlutur. Hér er aðalumræðuefnið, hvort fleiri en eitt byggingarfélag eigi að vera á hverjum stað. Jafnaðarmenn og framsóknarmenn berjast eindregið á móti því, vegna þess að það sé óhagkvæmt. En ég er sannfærður um, að hver maður, sem vill hugsa um þetta hlutdrægnislaust, hlýtur að sannfærast um, að það er óhagkvæmt, að félagið sé ekki nema eitt, við það, að fleiri eru félögin, eru líkindi til meiri áhuga og meiri tilbreytni. Eins og við vitum, er alltaf verið að finna ný og ný byggingarform, og því fleiri sem fást við sömu framkvæmdir, því meiri líkindi eru til, að fjölbreytnin fái notið sín. Nú er svo ástatt um þennan félagsskap, sem hafizt hefir handa hér í bænum, að hann er bundinn við sambyggingar. Þess vegna hefir hann ekki náð hylli nærri allra, sem annars hefðu kosið að taka þátt í þessu - ekki einu sinni allra þeirra, sem fylgja forsprökkunum í pólitík, af því að þeim líkar ekki byggingarlagið. - Það er nú svo með jafnaðarmenn, eins og aðra menn, að þeir hafa vissar tilhneigingar til að vera sjálfstæðir persónulega, og það er fjöldi þeirra, sem ekki vill byggja með því móti að þurfa að vera í einni kös. En nú beitir þetta byggingarfélag verkamanna sér á móti því, að byggt sé sjálfstætt. (HV: Hvernig?) Með því að hleypa þeim mönnum ekki að. (Hv: Hvaða vitleysa). Ég bendi á verkin, sem sýna merkin. (Hv: Það eru þeir, sem hafa byggt).

Það eru til verkamenn, sem vilja byggja öðruvísi - vilja byggja sjálfstætt. Það hefðu sjálfsagt miklu fleiri komið í þetta félag hv. 2. þm. Reykv., ef sú byggingaraðferð hefði verið leyfð. Ég held, að hv. þm. þýði ekki að bera á móti þessu. Þetta er svo augljós staðreynd, að um hana þýðir ekki að deila, þótt hv. þm. slái á þann streng, þegar hann vill drepa félag sjálfstæðra verkamanna, að þeir geti fengið að byggja sérstæð hús. En þegar hann er búinn að drepa þetta félag, með aðstoð bandamanna sinna innan þings, þá heldur hann áfram eins og hann hefir byrjað. Það stendur við það, sem hann hefir sagt, að þetta er talið hagkvæmt fyrirkomulag.

Það er þessi einstrengingsháttur, sem stendur því fyrir þrifum, að ný tilraun verði gerð og menn fái að reyna annað en forsprakkarnir vilja eða þeim er viðfeldnast. Af þessari ástæðu er það augljóst, að eitt er sjálfsagt, og það er, að byggingarfélögin séu fleiri. Það er ekki annað en vitleysa, að það, hvort byggingarfélögin eru fleiri en eitt eða fleiri en tvö á hverjum stað. hafi áhrif á verðlagið, því að hvert svona lagað byggingarfélag er eitt út af fyrir sig nógu stórt til að fá beztu kjör á öllu, sem kaupa þarf. Þetta vita allir, og er því þessi viðbára einskisverð. Það er auðvitað, að tillag úr opinberum sjóðum, bæjarsjóðum og ríkissjóði, er takmarkað, en hitt, hvort hægt er að fá lán, vil ég ekki dæma um, en þykist vita, að nokkur andstaða sé gegn því, að sjóðstjórnirnar taki mjög mikil erlend lán. Innanlands eru sennilega ekki miklir möguleikar til þess að fá lán. Ég sé ekki, að það skipti miklu máli, hvort það fé, sem fáanlegt er, er veitt til þessa félags eða hins, ef bara er byggt fyrir það. Og öll skynsemi mælir með, að réttara sé, hagkvæmara og á allan hátt æskilegra, að félögin séu tvö.

Nei, það er vitanlega ekki nokkur minnsti vafi á því, að þessi breyt. á þessari löggjöf er upp tekin af pólitískum ástæðum, og þegar hv. 2. þm. Reykv. og hv. 1. landsk. eru að segja, að engin pólitík komist þarna að, ja, þá verður maður undrandi, og það því fremur, þegar maður líka veit, að jafnvel innan þessa félagsskapar er svo römm pólitík, svo mögnuð innanflokkapólitík, að menn eru jafnvel eltir á röndum, eftir því hvar þeir standa innan flokksins, og reynt er til að flæma þá úr atvinnu, sem þeir hafa, af þeim ástæðum, en það veit ég, að átt hefir sér stað um einn af andstæðingum hv. 2. þm. Reykv., sem hafði lítilsháttar stöðu í sambandi við byggingarnar.