17.10.1934
Neðri deild: 12. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 797 í B-deild Alþingistíðinda. (980)

22. mál, verkamannabústaðir

Emil Jónsson:

Mig langar til þess að segja nokkur orð um það, sem verið hefir aðaldeiluefni í frv. og þeim brtt., sem komið hafa fram, nefnilega það, hvort lán skuli veitt einu eða fleiri byggingarfélögum á hverjum stað. Það hafa verið færð fyrir því, að því er mér hefir virzt gild rök, að það sé að sumu leyti betra að hafa aðeins eitt félag á hverjum stað, en aðrir hafa aftur á móti fært rök fyrir því, að betra sé að hafa þau tvö eða jafnvel fleiri. Það, sem mælir með því að hafa félagið eitt, er aðallega það, að menn byggi þá í nokkuð stærri stíl og með því geti framkvæmdirnar orðið ódýrari að öllu leyti. Það er fullyrt af hv. 3. þm. Reykv., að ekki muni verða ódýrara að byggja með þessu lagi, vegna þess, að ekki yrði stofnað svo lítið byggingarfélag, að það gæti ekki notið beztu kjara. Ég leyfi mér að efast um, að þetta sé rétt, a. m. k. um marga kaupstaði úti á landi, því að, ef þeim litlu möguleikum, sem þar eru fyrir hendi um byggingar er skipt og bútað í sundur í tvö eða fleiri félög, þá verður ekki mikill hlutur hvers einstaks, og vafamál að þau gætu notið beztu kjara. Ég leyfi mér að fullyrða, að þau geri það ekki. Þetta er aðalatriði málsins, og þeir þm., sem um það hafa talað og eru fulltrúar Reykjavíkur, hafa aðallega augun föst hér, og það er ekki nema eðlilegt. En þeir verða líka að vita það, að þeim, sem búa úti um landið, er engu minna áhugamál og engu minni þörf á að geta notið hlunninda þessara l. Ég skal geta þess, að byggingartilraun í Hafnarfirði var gerð með því að byggja 16 íbúðir. Ef þessu hefði verið skipt í tvennt, þá hefði ekki verið hægt að hafa fyrirkomulagið eins hagkvæmt og ella.

En þó að þessi hv. þm. hugsaði aðallega um Rvík, gat hann ekki stillt sig um að hugsa lítilsháttar um Hafnarfjörð, og beindi þar til mín nokkrum orðum, sem ég vil ekki láta ómótmælt. Hann sagði, að það, sem safnazt hefði í byggingarsjóð verkamanna í Hafnarfirði, hefði orðið eyðslueyrir fyrir bæjarsjóðinn. Þetta er rangt, því að byggingarsjóðurinn í Hafnarfirði tók ekki til starfa fyrr en byggingarfélagið var tekið til starfa. Eftir að þörf var fyrir að nota sjóðinn til byggingaframkvæmda, hefir verið gerð ráðstöfun til þess að sjóðurinn geti unnið sitt hlutverk.

Annars er ýmislegt í þessum umr., sem getur verið nógu gaman að tala um, eins og t. d. það, hverjum sé mismunað með þessum l. Ef nokkrum er mismunað, þá segja l. sjálf skýrt og greinilega til um það. Þeim er mismunað, sem hafa laun undir ákveðinni lágmarksupphæð. Þeir einir koma til greina, sem hafa laun undir 3-4 þús. kr. á ári, og ef á að tala um, að einhverjum sé mismunað, þá eru það þessir menn. Eins og allir vita, er það stefnumál okkar sósíalista, að einmitt þessum mönnum sé mismunað á þann hátt, að gera minni þann mismun, sem er milli þessarar stéttar þjóðfélagsins og annara, sem við betri kjör búa. Þetta er dálítið sérstakur máti á að mismuna fólki. Að mönnum sé mismunað eftir pólitík, kemur ekki til greina, þar sem hverjum manni er opin leið til og heimilt að ganga í þessi byggingarfélög, hér og annarsstaðar.

Úr því að mitt kjördæmi var innleitt í þessar umr., skal ég gjarnan geta um það, hver tildrögin voru til þess, að tvö byggingarfélög voru stofnuð í Hafnarfirði. Forgöngumenn Alþfl. í Hafnarfirði hófu undirbúning um stofnun byggingafélags, og þegar sá undirbúningur var kominn það langt, að búast mátti við, að bráðlega yrði hægt að byrja á framkvæmdum, hlupu til nokkrir menn úr Sjálfstfl. - eins og hér - og stofnuðu sitt félag, og í það voru eingöngu teknir sjálfstæðismenn. Fyrst vildu þeir ekki vera með um stofnun byggingarfélags, og síðan vildu þeir ekki þrátt fyrir ítrekuð tilboð, hafa neina samvinnu við það. Af hvaða ástæðu það er, veit ég ekki nema ef það skyldi vera vegna þess, að þeir treysti sér ekki til að eiga ítök í nema fáum verkamönnum, og vilji því safna þeim saman og hafa þá út af fyrir sig, til þess að geta þar komið fram sem fulltrúar þeirra.

Um það, að það sé fjarri hugsunarhætti sjálfstæðismanna að lifa eins og sníkjudýr á kostnað annara, þá getur verið, að svo sé, en það eru bæði ég og aðrir, sem efast um, að svo sé. Það eru ýmsir, sem fylla þann flokk, sem - mér liggur við að segja - hafa lifað eins og sníkjudýr á annara kostnað.

Ég skal svo ekki lengja umr. um þetta. Ég tel, að mönnum ætti nú, eftir þær umr., sem hafa verið hér um málið, að vera orðið fyllilega ljóst, hvaða afstöðu þeir geti tekið í því. Ég vil undirstrika það, að þegar menn taka afstöðu til málsins, verða þeir að hafa fleira í huganum en Rvík. Ég tel illa farið, ef byggingarfélög í kaupstöðum úti um land verða bútuð í sundur og með því gerð óhæfari til þess að koma að góðu gagni.