20.10.1934
Neðri deild: 15. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 806 í B-deild Alþingistíðinda. (993)

22. mál, verkamannabústaðir

Thor Thors:

Hv. 8. landsk. og ég flytjum brtt. við þetta frv. á þskj. 163, og er það viðbót við 4. gr., þess efnis, að þar, sem eru fleiri en 10000 íbúar í einum kaupstað, megi vera tvö byggingarfélög.

Við fyrri umr. þessa máls hafa komið fram mótmæli gegn því að hafa víðtæka heimild um stofnun og starfrækslu byggingarfélaga, og hafa mótmælin aðallega grundvallazt á því, að framkvæmdin yrði dýrari hjá mörgum félögum heldur en einu. Nú skal því ekki neitað, að svo geti ef til vill verið í smærri kaupstöðum, en á því eru engin tvímæli, að hér í Rvík er fullkomið verkefni og starfssvið fyrir fleiri en eitt félag, og þess vegna er engin ástæða fyrir löggjafann að hafa áhyggjur af því, þó að þessi tvö félög starfi innan bæjarfélagsins. Það eru ýmsar orsakir fyrir því, eins og vikið hefir verið að áður við umr., að menn vilja heldur starfa í tveimur félögum en einu.

Minni hl. allshn. leit svo á, að það væri bæði rétt og skylt að leita umsagnar bæjarstj. Rvíkur um þetta frumvarp meðan þingið hefði það til meðferðar. Reykjavíkurbær er svo stór aðili í þessu máli, þar sem hann leggur í byggingarsjóð árlega 2 kr. á hvern íbúa, að minni hl. n. áleit, að annað kæmi ekki til mála en að Alþingi fengi að heyra álit bæjarráðs Rvíkur um þær breyt., sem gera á á lögunum um verkamannabústaði með þessu frv. Umsögn bæjarráðs Rvíkur hefir mér nú borizt í hendur fyrir nokkru. Hún fjallar aðallega um þrjú atriði í frv. Tvö atriðin ætla ég ekki að minnast á að svo stöddu. Þau fjalla ekki um það, sem brtt. okkar við 4. gr. fjallar um, en þriðji liður athugasemdanna er um þá grein, og vil ég, með leyfi hæstv. forseta, lofa hv. þdm. að heyra álit bæjarráðs Rvíkur um þetta deiluefni. (StJSf: Já, meiri hlutans). Það er alveg rétt. Það er álit meiri hl., það er samþ. með þremur atkv. af fimm. Auðvitað ber meiri hl. á þingi, sem er 26 á móti 23, að taka mikið tillit til þess, sem meiri hl. bæjarráðs leggur til. Sá liður, sem ég ætla þá að lesa nú, er á þessa leið:

„Bæjarráðið er eindregið mótfallið ákv. í 1. mgr. 4. gr. frv. um að einungis skuli veitt lán til eins byggingarfélags í hverjum kaupstað eða kauptúni. Með þessu ákvæði er gerð mjög róttæk breyting frá því, sem ákveðið er í l. 71/1931 um verkamannabústaði, því að skv. þeim lögum er gert ráð fyrir fleiri en einu byggingarfélagi í hverju umdæmi, sbr. 3. og 5. gr. Skv. 5. gr., upphafinu, eiga meira að segja byggingarfélög, er uppfylla skilyrði laganna, rétt á að fá lán úr sjóðnum, og er sjóðstjórn þar af leiðandi skylt að veita öllum lögfullum félögum innan umdæmisins lán. Þessi ákvæði, sem einnig voru í upphaflegu lögunum, nr. 45 1929, sbr. 3. og 5. gr. þeirra, hafa við mjög góð rök að styðjast. Hvert félag verður mun viðráðanlegra og mun hægara verður að fylgjast með fjárreiðum þess, ef það er ekki allt of stórt. Þótt ekki sé það skilyrði fyrir starfsemi slíkra félaga, að í þeim sé ótakmörkuð samábyrgð, þá mun einhver samábyrgð tíðast verða í þeim, og er auðsætt, að slík samábyrgð er því varhugaverðari sem félagið er stærra, starfsemi þess margþættari og erfiðari til yfirlits. Á hinn bóginn er fullkomlega rétt að veita mönnum sem víðast starfsvið innan takmarka þeirra, sem lögin sjálf setja, en hefta þá ekki alla í eina kró með því að skylda alla, sem hlunninda laganna vilja verða aðnjótandi, til að vera í sama félaginu. Hefir það þannig þegar komið fram í þeim tveim félögum, sem eru hér í Reykjavík, að formi félaganna og starfi má koma fyrir á ólíkan hátt. Í því eldra, Byggingarfélagi verkamanna í Reykjavík, bera t. d. allir félagsmenn fulla og ótakmarkaða sjálfskuldarábyrgð á öllum fjárreiðum félagsins, sbr. 4. gr. samþykktar félagsins frá 16. maí 1930. Í hinu, Byggingarfélagi sjálfstæðra verkamanna í Reykjavík, er ábyrgð félagsmanna hinsvegar takmörkuð svo, að þeir ábyrgjast einungis með húseignum þeim, sem þeir hafa keypt hjá félaginu, sameiginlega allar fjárreiður þess sem sjálfskuldarábyrgðarmenn einn fyrir alla og allir fyrir einn. Húsin mega þeir svo hvorki selja né veðsetja nema með samþykki félagsstjórnar, sbr. 9. og 11. gr. samþykkta félagsins frá 4. júní 1934. Báðar þessar aðferðir eru lögum samkvæmar, sbr. 2. mgr. 3. gr., sbr. 3. tölulið 2. gr. l. nr. 36 1921, um samvinnufélög, og virðist ástæðulaust að neyða menn til að hafa einungis aðra aðferðina, ef þeir vilja fá lán úr byggingarsjóði. Þá er það og kunnugt, að annað þessara félaga leggur megináherzlu á að koma upp stórum sambyggingum, en hitt félagið að koma upp smáum sérhúsum, og er mjög eðlilegt, að menn eigi kost á að velja um, hvort byggingarfyrirkomulagið menn vilji heldur, með því að ganga í það félagið af tveimur, er þeim líkar betur við. Með því móti fæst einnig reynsla um, hvort fyrirkomulagið reynist betur, og eðlilegt kapp myndast milli félaganna.

En hvað sem þeim ástæðum líður, er liggja til grundvallar núverandi ákv., þá er það bráðnauðsynlegt, að í frv. verði sett einhver ákvæði um það, hvernig fari þar, sem fleiri en eitt byggingarfélag eru starfandi, þegar frv. öðlast lagagildi. Eðlilegast er, að þau, sem fyrir eru, fái að halda rétti sínum til lána úr byggingarsjóði, og leggur bæjarráðið til vara eindregið til, að ákv. í þá átt verði sett inn í frv., ef takmörkunin við eitt félag verður ekki alveg felld niður. Vilji menn heldur ekki verða við þessu, er þó alveg óhjákvæmilegt, að inn í frv. verði sett ákv., er tryggi með öðru móti félagsmönnum í þeim félögum, sem nú eru starfandi, fullkomna og réttláta hlutdeild í þeim hlunnindum, sem fást með lánum úr byggingarsjóði, því að ella væru beinlínis brotin lög á þeim, sem í góðri trú hafa gengið í félag, sem samkv. gildandi lögum á rétt á lánum, en yrði svipt þeim rétti með samþykkt frumvarpsins“.

Þannig hljóðar nú umsögn bæjarráðs Rvíkur um deiluatriðin, og ég hygg, að í þeirri umsögn séu svo skýr rök fyrir því, að það sé bæði nauðsynlegt og réttmætt, að í Rvík séu tvö byggingarfélög, að hv. þdm. ættu alvarlega að íhuga það.

Um aðrar brtt., sem liggja fyrir við þessa umr., vildi ég segja það, að brtt. hv. þm. Vestm. á þskj. 147 er bæði réttmæt og getur varla valdið ágreiningi, en um brtt. 164, frá hv. þm. V.-Ísf. verð ég að segja það, að mér finnst hún ganga of skammt til þess að tryggja þeim mönnum, sem hafa viljað njóta hlunninda laganna, þá aðstöðu, sem þeim er æskileg, þar sem samþykktir deilda falla undir úrskurð félagsstjórnar. Hinar tvær fyrri greinar brtt. tel ég því lítið til bóta. 3. gr. í brtt. hv. þm. V.-Ísf. skilst mér vera sama efnis og brtt. hv. þm. Vestm. á öðru þskj.

Að lokum vil ég aðeins minna á það vegna andstöðu hv. jafnaðarmanna í d. gegn Byggingarfélagi sjálfstæðra verkamanna, að eins og ég hefi áður upplýst, eru nú í því félagi 350 meðlimir, sem allir, að 8 mönnum undanteknum, falla undir ákvæði laganna og eiga rétt samkv. gildandi lögum til að njóta fullkominna hlunninda. Þessir menn hafa stofnað sér félag í góðri trú, meira að segja eftir tilboði frá hendi löggjafans. Þeir hafa lagt fram fé í sjóð félagsins, sem er nú 2700 kr. Ég verð að spyrja: Hvers eiga þessir menn að gjalda, ef félag þeirra verður lagt í rústir með lögum? Ég fæ ekki skilið, að hv. þdm. hafi ekki svo mikið tillit til verkamannastéttarinnar, að þeir beiti hana slíkum hörkutökum.