20.10.1934
Neðri deild: 15. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 808 í B-deild Alþingistíðinda. (994)

22. mál, verkamannabústaðir

Ásgeir Ásgeirsson [óyfirl.]:

Ég á hér 3 brtt. á þskj. 164. Önnur brtt. felur í sér fyrirmæli um, að stjórn byggingarsjóðs setji hámark fyrir því, hvað hver íbúð má kosta. Ég tel rétt að hafa slíkt hámark, þó vitanlega sé ekki gengið út frá því, að byggingarsjóður veiti lán að því hámarki. Þriðja brtt. mín er sama efnis og 2. brtt. á þskj. 147, frá hv. þm. Vestm., þar sem byggingarfélaginu er heimilað að nota uppdrætti að húsum frá öðrum sérfróðum mönnum en húsameistara, og greiðist þeir uppdrættir úr ríkissjóði, eftir úrskurði ráðh. - En fyrsta till. mín er aðaltill. Ég hefi nú hlustað gaumgæfilega á þau rök, sem fram hafa verið borin gegn 4. gr. frv., um það, að eitt byggingarfélag skuli vera á hverjum stað. Mér sem þm. stendur vitanlega ekki á sama um það, ef með lögum á að fara að svipta borgarana einhverjum rétti, sem þeir hingað til hafa haft. 1ú er það svo, að í gildandi l. er heimild fyrir því, að vera megi fleiri félög á hverjum stað. Þetta hefir þannig ekki verið bannað, þó gert hafi verið ráð fyrir því, að þeir, sem byggðu sér ódýrar íbúðar, gætu verið í einu byggingarfélagi. Nú er farið að brydda á þessari skiptingu manna í fleiri félög jafnvel á minni stöðum, eins og t. d. í Hafnarfirði. Þessi tvískipting er að töluverðu leyti af pólitískum toga spunnin. Ég skal lýsa því þegar yfir, að ég er algerlega mótfallinn því að gera lögin svo úr garði, að mögulegt sé að gera byggingarnar að pólitísku deilu- eða kappsmáli milli flokka. Hér er um byggingarstarfsemi að ræða, sem á ekkert skylt við pólitík. Takmarkið fyrir öllum er hið sama, og það er að eignast húsnæði. Pólitískir flokkadrættir í sambandi við það mál valda bara truflun. Ég tel það jafnvel hættulegt, ef pólitík verður hleypt í spilið, því líklega er þó ekki meiningin að fara að byggja pólitísk hverfi, sem verði einskonar kastalar eða vígstöðvar fyrir stjórnmálaflokkana. Í slíku efni sem þessu, þar sem ríki og bæjarfélag leggja fram allmikil tillög í þeim tilgangi, að fátækir verkamenn geti byggt sér húsnæði og búið við lága rentu, er það mikilsvert, að allir starfskraftar séu notaðir á sama stað, en að þeim sé ekki dreift eða þeir jafnvel notaðir til baráttu innbyrðis. Ef byggingarfélagið yrði aðeins eitt á hverjum stað, yrðu vitanlega að gilda ákveðnar reglur um röð þá, sem byggt yrði eftir. Ég hefi nú hlýtt gaumgæfilega á þær ástæður, sem færðar hafa verið fram fyrir því, að hér í Rvík þyrftu að vera fleiri en eitt byggingarfélag, og ég hefi ekki orðið var við önnur rök en þau, að sumir vildu byggja einstæðar sérbyggingar, en aðrir vildu byggja sambyggingar. En ég vil benda á, að núgildandi löggjöf felur í sér möguleika fyrir einstaklinga til að velja um þessa kosti. Til þess nú að tryggja betur þennan rétt, þó ég telji hann raunar fullkomlega tryggðan með lögunum eins og þau eru, flyt ég þá brtt. við 4. gr. frv., að heimilt sé að stofna deildir innan byggingarfélagsins með sérsamþykktum, ef 50 menn óska þess. Þessar deildir séu sem óháður félagsskapur að öðru leyti en því, að þær heyra undir yfirstjórn félagsins og samþykktir þeirra þarf félagsstjórn að staðfesta.

Þetta er ein af þeim ástæðum, sem fluttar hafa verið fram, að sumir vilja byggja sérstæð hús. Önnur ástæðan, sem ég einnig tel rétt að taka tillit til, er sú, að sumir vilja ekki vera í annari samábyrgð heldur en sem nemur verði þeirra eigin húseignar, sem þeir eiga í félaginu. Hvorum tveggja er hægt að fullnægja með núgildandi löggjöf, og er þó ennþá tryggara, að þeim verði fullnægt, ef ákveðið er, að stofna megi deildir innan félagsins. Þá geta 50 menn einir sér ákveðið að koma upp einbýlishúsum og taka ekki á sig aðra ábyrgð heldur en sem svarar fyrir húseign hvers um sig. Ég get ekki hugsað mér neinar þær ástæður, sem gera nauðsynlegt að hafa fleiri en eitt félag á hverjum stað, ef fallizt er á þetta, að skipta megi félögunum í deildir. Það er nú svo, að menn eru mjög misjafnlega gerðir; sumir vilja búa út af fyrir sig sem mest í einbýlishúsum, aðrir vilja búa í sambýlishúsum, og e. t. v. eru einhverjir, sem vildu helzt, að félögin sjálf ættu húsin og stjórnuðu þeim, eða þá bæjarfélögin eða ríkið. Auðvitað hefði mátt skapa þann möguleika líka. Þar sem húsunum er komið upp með hjálp bæjarfélaganna og ríkisins þá er einmitt rétt að gera það í öllum þeim formum, sem einstaklingseðlið krefst. Í þá átt stefna till. mínar um deildarskiptingu félaganna, og með þeim ætti að vera tryggt, að hægt sé að fullnægja öllum hinum margvíslegu þörfum og kröfum einstaklingseðlisins. Að ekki hafa enn verið byggð nein sérstæð hús, stafar ekki af því, að fyrsta byggingarfélagið, sem starfandi er hér nú, sé því á nokkurn hátt sérstaklega mótfallið, að slík hús séu byggð. Heldur stafar það af hinu, að það hefir ekki haft umráð yfir meiru fé heldur en þurft hefir til þeirra sambýlishúsa, sem félagsmenn hafa sjálfir óskað eftir að komið væri upp.

Hv. þm. Snæf. taldi brtt. mínar ekki til bóta, og má það ef til vill til sanns vegar færa, en þá frá því sjónarmiði einu, að frv. sé alveg fullnægjandi eins og það liggur fyrir. Þeir einir, sem halda því fram, að frv. óbreytt fullnægi öllum réttmætum kröfum þeirra manna, sem vilja vera í byggingarfélagi, geta haldið því fram, að mínar till. séu ekki til bóta. Ef frv. fullnægir ekki öllum réttmætum kröfum, þá eru mínar brtt. til bóta, því þær miða að því, að fleiri geti fengið tekið tillit til sinna sérstöku óska.

Hv. þm. spyr, hvers þeir menn eigi að gjalda, sem gengið hafa í byggingarfélagið, sem síðar var stofnað og enn er ekki tekið til starfa. Þeir eiga einskis að gjalda, og gjalda heldur ekki neins. Það er enginn réttur af þeim tekinn, annar en sá, að vera í sérstöku félagi. Allan þann rétt, sem þeir eiga að hafa, réttinn til þess að hafa sömu aðstöðu og aðrir til þess að koma sér upp íbúðum, sem þeim getur liðið vel í, fá þeir samkv. frv., sérstaklega þó ef mínar brtt. eru samþ. Þeim þarf því ekki að vorkenna. Hinu er ég gersamlega mótfallinn, að hinir pólitísku flokkar, trúmálaflokkar eða hvaða flokkar sem það nú væru, tækju í sínar hendur að skipta fólkinu upp í fastaðgreinda dilka eða hverfi. Þá mundi vera til óheilla stefnt þessu þjóðfélagi. Því fylgi ég frv. í aðaldráttum eins og það liggur fyrir.

Hitt, að formaður eldra byggingarfélagsins hér hefir verið hv. 2. þm. Reykv., ætti ekki að þurfa að fæla neinn frá því, því þar er hann ekki sem stjórnmálamaður, og enginn innan félagsins hefir neinna sérhagsmuna að gæta, sem á nokkurn hátt eiga skylt við pólitík. Og það er ekkert óeðlilegt við það, að einmitt þessi maður er formaður félagsins nú, m. a. vegna þess, að hann hefir verið einn af brautryðjendum þessa máls og er þannig vel að formennskunni kominn. Hinsvegar hefir hann enga tryggingu fyrir, að hann skipi þetta sæti alla æfi. Við skulum segja, að þeir 350 menn, sem nú eru í hinu félaginu, gengju allir í þetta félag; þá geta þeir ráðið þar öllu, sem þeim sýnist, sem þó ekki yrði þeim mikils virði, þar sem hugsmunir félagsmannanna eiga að svo miklu leyti samleið, að persónur eða pólitískar ástæður þurfa ekki að koma til greina. Þar sem flokkur hv. 2. þm. Reykv. hefir einkum haft forgöngu í þessu máli, er það ekki nema eðlileg þróun, að stjórn félagsins er í byrjun skipuð eins og hún nú er. Hitt hefi ég aldrei heyrt, að stjórnmálaskoðanir hafi komið til óþæginda í þessu félagi, og ég sé engar líkur til, að slíkt geti orðið, því öllum er fullnægt eftir því sem ástæður leyfa. Og þá þróun er manni skylt að hindra, að hér komist inn flokkapólitík á þann hátt, að farið sé að skipta fólkinu niður í hverfi í bænum, eftir því hvaða pólitískar skoðanir það hefir. Hér er um að ræða eitt af höfuðviðfangsefnum þjóðfélagsins. Það er eitt ef þeim beztu störfum, sem hægt er að vinna að í nokkru þjóðfélagi, að sjá þeim, sem litlar tekjur hafa og litlar eignir, fyrir bústöðum og heimilum við þeirra hæfi, og það á að vinna að því á þann hátt, að allir, sem hafa þessar sömu þarfir, geti staðið saman í einu félagi. Það félag, sem starfar hér í Rvík, getur aldrei orðið nema örlítið brot af hliðstæðum félögum í öðrum löndum, t. d. félögunum í Kaupmannahöfn, Oslo og Stokkhólmi, svo ekki sé lengra leitað, svo ekki er hægt að bera því við, að það geti orðið erfitt í meðförum á nokkurn hátt.