30.10.1935
Neðri deild: 60. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2413 í B-deild Alþingistíðinda. (101)

Afgreiðsla þingmála

Hannes Jónsson:

Á þinginu í fyrra flutti ég ásamt hv. 2. landsk. frv. til l. um breyt. á fasteignaskatti og frv. til l. um nýbýli. Þessi frv. fengu ekki afgreiðslu á því þingi, og þess vegna voru þau endurflutt af okkur sömu flm. snemma á þessu þingi. Frv. um fasteignaskatt var vísað til nefndar 25. febr. síðastl. Lá það því hjá þeirri nefnd í 11/2 mán. fyrri hluta þingsins. Nú eru liðnar 3 vikur af þessum síðari hluta þingsins, og ekki hefir heyrzt, að n. hafi tekið frv. til athugunar. Þykir mér sú meðferð allsendis óviðurkvæmileg, þar sem vitað er, að málið hefir fengið mikinn stuðning um allt land. Skal ég t. d. nefna, að þetta frv. var tekið til umr. á sýslufundi Skagafjarðarsýslu, og raunar miklu víðar, en ég vil ekki tefja fundinn á að lesa það allt upp, en aðeins leyfa mér að lesa ályktun þá, sem gerð var á sýslunefndarfundi Skagfirðinga:

„Sýslunefnd Skagafjarðarsýslu lýsir ánægju sinni yfir frv. til laga um breyting á og viðauka við lög nr. 66 27. júní 1921, um fasteignaskatt, sem flutt er á þskj. 18 á Alþingi því, er nú situr. Álítur sýslunefndin, að í frv. þessu felist mikil og aðkallandi réttarbót fyrir sýslufélögin í landinu.

Eins og skýrt er fram tekið í grg. fyrir frv. á þskj. nr. 322 1934, er sjálfstjórn héraðanna stefnt í voða, þar sem skattstofnar þeirra hafa stórrýrnað á síðustu árum og verið á þá gengið af ríkisvaldinu. Sé ekki að gert í tæka tíð og sýslusjóðunum veittir nýir tekjustofnar, lenda héraðsstjórnirnar í fjárþroti og geta ekki stutt athafna- og menningarlíf héraðanna eins og þeim ber og brýn nauðsyn er á að þær geri. Stöðugt vaxandi fjárhagsörðugleikar sveitarstjórnanna, sem stafa af óbærilegum sveitarþyngslum, ónógum gjaldstofnum og litlu gjaldþoli almennings, orsakar meiri og meiri kröfur um stuðning héraðsstjórnanna til handa sveitunum, - og vaxandi vanskil hreppanna á sýslugjöldum. Má löggjöfin ekki loka augunum fyrir þeirri nauðsyn, sem á því er, að sýslusjóðunum séu tryggðar tekjur, svo þeir verði færir um að bera þær byrðar, er þeir óhjákvæmilega verða að standa undir. Um nauðsyn þessa máls vísast að öðru leyti í áðurnefnda grg. fyrir frv., sem sýslunefndin vill taka undir.

Sýslunefnd Skagafjarðarsýslu leyfir sér því að óska þess eindregið, að hið háa Alþingi samþ. frv. þetta sem lög“.

Þessi ályktun var samþ. með 14 shlj. atkv. að viðhöfðu nafnakalli. Mjög í sömu átt eru ályktanir annara sýslufunda um þetta efni; m. a. má nefna ályktun sýsluf. Mýra- og Borgarfjarðarsýslu, Dalasýslu, Barðastrandarsýslu og Vestur- og Norður-Ísafjarðrsýslna. Svipað má segja um ályktanir, er gerðar voru á sýslufundum Suður-Múlasýslu og Skaftafellssýslu, auk þess sem á fjöldamörgum þingmálafundum um allt land hafa verið samþ. áskoranir á Alþ. um að gera frv. það að lögum, sem hér um ræðir. Hér er því mál, sem að dómi almennings á rétt á sér, og er nauðsynjamál í þeim örðugleikum, er nú steðja að einstökum sýslufélögum. Vil ég því mælast eindregið til við hæstv. forseta, að hann mæli með því við n., að hún skili áliti sem fyrst.

Sömu meðferð hefir frv. um nýbýli sætt hjá hv. landbn, er fékk það 22. marz síðastl. Komu fram 2 frv. í þessu efni, og var annað þeirra, að, ég hygg, undirbúið af svokallaðri skipulagsnefnd. Í því var gert lítið úr okkar frv., en ég vildi þó ekki amast við því og bjóst við, að það gæti batnað. En síðan hefir það sofið í landbn. og ekki verið við því hreyft. Ég hefi heyrt, að maður hafi komið til nefndarinnar, sem hafi verið falið að gera enn aths. við frv. og að hann hafi lýst því yfir, að frv. væri svo óhöndulega samið, að það væri líkara ræðu en frv. og væri ekki hægt að breyta því, heldur yrði að semja nýtt frv. Svo veit ég ekki, hvað getur lengi gengið, að vísað sé til einstakra nefnda, en síðan til eins manns, er ekki telur viðlit að breyta því, eða unnt að ganga frá því eins og það liggur fyrir, heldur verði að semja upp að nýju. Get ég ekki annað séð en svona geti liðið þing af þingi án þess nokkuð gangi kjörtímabilið út. Vildi ég því mælast til þess, að n. haldi þessu ekki lengur hjá sér, eða láti frv. veltast hjá einum manni utan þingsins og svokallaðri skipulagsnefnd, er telja hvor annan vitlausan, en láti frv. koma undir úrskurð þm. sjálfra.

Þá vil ég benda á, að ég flutti frv. til breyt. á l. um gjaldeyrisskráningu og gengisbreytingu. Var því vísa til n. 12. marz síðastl., og er á því legið svo ekkert hefir um það heyrzt. Þrátt fyrir það þó vitað sé, að skilningur alþjóðar er vaxandi fyrir því, að hjá því verður ekki komizt að gera róttækar breytingar á núv. gengi. Í fyrradag barst hingað ritlingur eftir góðan og gegnan mann, sem reynt hefir að brjóta til mergjar þessi mál, hvað sem um skoðun hans má segja. Hér er um það mál að ræða, sem kannske mest veltur á um fjárhagslega afkomu þjóðarinnar.

Loks vil ég benda á smáfrv., er ég flutti í lok fyrra hluta þessa þings, og má því e. t. v. segja, að ekki væri von til, að fengi afgreiðslu þá. Þetta er að vísu ekki eins stórt mál og hin önnur; það var breyt. í samvinnulögunum, er í fólst að draga úr samábyrgðinni. Eins og séð verður á þingmálafundargerð úr einu traustasta samvinnuhéraði landsins, þá er álit manna á þá leið, að þetta sé mesta nauðsynjamál. Ég vildi því mælast til, að frv. þetta fái skjóta og góða afgreiðslu hjá nefnd þeirri, er um það á að fjalla.

Ég hafði búizt við því, að hæstv. ríkisstj. hefði notað það tækifæri, sem bauðst við þingfrestunina, til að moða í gegnum þau málefni, sem lágu fyrir þinginu, og velja úr a. m. k. einhver þau helztu, sem hún teldi eiga rétt á að fá þinglega lausn. Nú vona ég, að hæstv. stj. hafi ekki dæmt þessi mál, sem ég hefi nefnt, óalandi og óferjandi. En mér kemur það kynlega fyrir, sjónir, að hún skuli ekki hafa gert ráðstafanir til þess að fá afgreiðslu þessara mála flýtt hér í þinginu. Það ætti að vera skylda ríkisstj. að nota þingfrestun til þess að vinna þeim málum gagn, sem fyrir þinginu liggja og miklu varða. Ég vil því skora á hæstv. stj. að láta það koma fram hér á þingi, hvaða afstöðu hún vill taka til þessara mála og hvort hún telur þau ekki þess verð, að þau geti fengið afgreiðslu hér á þingi. Vil ég svo endurtaka ósk mína til hæstv. forseta um það, að hann geri það, sem í hans valdi stendur, til þess að þingið fái tækifæri til að taka þessi mái til athugunar og meðferðar og að nefndum leyfist ekki að gera málin óvirk með því að sitja á þeim í óhæfilega langan tíma. En það verður að teljast nógu langur tími, að mál hafi verið borið fram fyrir ári síðan og séu búin að liggja í nefnd á þriðja mánuð. Það er óforsvaranlegur dráttur á áliti n. á málunum.