11.03.1935
Neðri deild: 25. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 703 í B-deild Alþingistíðinda. (1012)

30. mál, útrýming fjárkláða

Gísli Sveinsson [óyfirl.]:

Ég skal svara þessari fyrirspurn hv. þm. Ak. Það, sem ég gat um, kemur fram í skýringum þeirra landbn.-manna á ákvæðum frv., sérstaklega þó því ákvæði, sem komst inn í 1. gr. við 2. umr., þar sem bersýnilega er ætlazt til þess, að ekkert gangi undan, því að vitanlega er ekki sú sveit til, þar sem ekki geti verið um smitunarhættu að ræða hvenær sem er. (BÁ: Það er átt við líkur til smitunarhættu). Já, einmitt. Líkurnar eru alltaf miklar fyrir hendi. En ég vil ekkert slíkt hafa í frv. Það á að fara eftir fenginni reynslu. Eftir mínu áliti þyrfti ekki neina nýja rannsókn á þessu. N. ætlar ráðh. að dæma um þessi atriði. Það á að fara eftir þeim niðurstöðum, sem rannsóknin leiddi í ljós. Sú rannsókn, sem þegar hefir fram farið, sýnir okkur glöggt, hvaða svæði eru kláðalaus. En ef á að fara fram ný rannsókn, þá á að láta niðurstöður hennar gilda, en ekki ímyndanir — e. t. v. ekki kláðasjúkra, en kláðaáfjáðra — manna um, að þarna skuli baða, þarna geti verið um smitunarhættu að ræða, ef ekki í október, þá geti hún vel verið fyrir hendi í nóvember, o. s. frv. Þarna er komið á svo hálan ís gagnvart héruðunum, að við viljum fá skýrt og ákveðið að vita, hvað ætlazt er til, að gert verði.

Ég taldi sennilegt, að till. landbn. yrðu felldar. Í því felst ekki annað en von mín til skynsemi og réttsýni mannanna, en ef þetta mál yrði samþ., taldi ég sjálfsagt, að hv. Ed. myndi taka þetta mál alvarlegar en þessi d. hefir þá gert. — Ég vona hins bezta, en læt svo skeika að sköpuðu.