30.03.1935
Efri deild: 38. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 710 í B-deild Alþingistíðinda. (1027)

30. mál, útrýming fjárkláða

Páll Hermannsson:

Hv. frsm. landbn. og ég erum að miklu leyti sammála í þessu efni. Hann hefir lýst yfir því, að báðar þessar brtt. væru málinu til bóta. Hann hefir sérstaklega borið það fyrir sig, að hætta væri á, að málið dagaði uppi á þessum þingparti, ef gerðar yrðu á því breytingar. Ég get ekki komið auga á þá hættu. Reyndar verð ég að játa, að ég veit ekki, hvenær þingi verður frestað, en ég veit þó, að það er hægt að samþ. þetta mál í þessari hv. deild í dag, og þá skilst mér, að málið þurfi ekki að koma nema einu sinni til umr. í hv. Nd. Ég veit ekki betur en að það megi ganga út frá því sem gefnu, að þinginu verði ekki frestað fyrr en um miðja næstu viku og að næsta þriðjudagskvöld eigi að fara fram útvarpsumr. Þessi ótti hv. frsm. er því ástæðulaus. Ef þessar brtt. eru til bóta, eins og við erum sammála um, þá álít ég rétt að samþ. þær. Ég álít, að þetta sé breyt., sem hv. frsm. vill samþ. á frv., því að hann lét á sér skilja, að hann væri ekki frá því að samþ. nauðsynlegar breyt. á frv. Hv. frsm. vildi telja, að því sama mætti ná með framkvæmd þessara laga Og því, sem felst í fyrri brtt. minni. Mér er ómögulegt að sjá það, að hægt sé að finna þessa samlíkingu í 1. gr. frv. Hún hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Ríkisstjórninni veitist heimild til að láta fara fram böðun á öllu sauðfé í landinn til útrýmingar fjárkláðanum. Þó skulu undanskilin þau svæði, þar sem kláða hefir ekki orðið vart í sauðfé síðustu fimm árin.“

Í fyrri hluta gr. er aðeins farið fram á heimild, en í þeim síðari er það beinlínis tekið fram, að það sé skylt að undanskilja þau svæði, sem fjárkláðinn hefir ekki heimsótt síðustu fimm árin. Hinsvegar er ógreinilega gengið frá því, hvað meint er með „svæðum“. Þetta er teygjanlegt hugtak, en ég ætla, að það verði a. m. k. óvinsælt fyrir hæstv. ríkisstj. að leggja þann skilning í gr., sem hv. frsm. virðist halda fram og hv. þm. Dal. vill nú sérstaklega bera fyrir sig. Mér finnst það alveg, skýrt tekið fram í frv., að ekki sé heimilt að láta fram fara útrýmingarböðun á þeim svæðum, þar sem ekki hefir orðið vart við kláða síðustu fimm árin. En þó talið sé, að kláða hafi ekki orðið vart síðustu fimm ár, þá er samt engin trygging fyrir því, að hættulaust sé að undanskilja þessi svæði.

Hv. frsm. telur, að baðáhöld séu á hverju heimili, en ekki alstaðar sundker. Þetta er alveg öfugt á þeim svæðum, þar sem ég þekki til. Þar er hver kind böðuð í sundþró. Ég hefi ekki heyrt getið um það, að kindur hafi verið baðaðar öðruvísi en í sundkerum í síðustu 10–20 ár þar, sem ég þekki til. En þessi sundker eru aðeins á 3–6 heimilum, og svo er féð rekið þangað. Að fara að baða margföldum útrýmingarböðunum öðruvísi en í sundþróm, tel ég óforsvaranlega meðferð á skepnunum.

Ég vona að hv. frsm. landbn. geti fallizt á þessar breyt., því að hann hlýtur að viðurkenna, að þar eru til bóta, og ég get ekki séð, að það þurfi að stafa hætta af því fyrir málið, þótt það verði sent til hv. Nd., sem hefir þegar samþ. það.

Hv. þm. Dal. var eiginlega óvenjulega mælskur og langorður í síðustu ræðu sinni, því að hann er venjulega stuttorður í ræðum sínum, en þetta segi ég honum ekki til lasts. Hann lagði sérstaka áherzlu á það, að honum kæmi það kynlega fyrir sjónir, að ég skyldi vera að bera fram þessa fyrri brtt. mína, og hann taldi jafnvel mögulegt, að ég mundi sjálfur jafnvel hallast að öðru fyrirkomulagi í sambandi við kláða í sauðfé heldur en því, sem hér er gert ráð fyrir. Hv. þm. sá jafnvel einhver eyru hér í hv. deild — ég veit ekki, hvort það eru asnaeyru —, en ég vona að hv. þm. sé ekki farinn að sjá ofsjónir.

Ég skal nú gera grein fyrir því, hvers vegna ég bar fram þessar brtt. Hvað sem líður minni persónulegu skoðun á því, hvora leiðina eigi að fara til útrýmingar kláðanum, þá er það víst, að ef fara á útrýmingarleiðina, þá á að stíga sporið til fulls. Það á ekki að gera með sömu aðferðum og hann kallar kák, þegar hann talar um það, að halda kláðanum niðri með þrifaböðunum, en það er einmitt gert með þessu frv., ef fyrirskipa á útrýmingarböðun á stórum svæðum, en undanskilja hinsvegar stór svæði, sem ekki er hægt að láta útrýmingarböðun fara fram á samkv. lögunum. Þetta viðurkenndi hv. þm., því að hann sagði síðast í ræðu sinni, að eina ráðið vari allsherjarböðun. Þess vegna á hann að stíga sporið til fulls og ganga inn á mína brtt., því að hún er í samræmi við hans skoðun. Hann taldi, að ég hefði komið upp um mig með því að nefna annað frv., sem gerði ráð fyrir annari aðferð. Það var ekki annað en hlutlaus frásögn á skoðun manna á málinu. Þetta er ekkert leyndarmál. Það er sýnt, að menn eru ekki sammála um það, hvernig tökum eigi að taka á kláðanum, enda hafa menn alltaf verið ósammála um það hér á landi. Ég er hissa á því, að þeir, sem trúa á útrýmingarleiðina, skuli sætta sig við það, að það sé fyrirfram sjáanlegt, að slík útrýmingarböð hljóti að verða kák eitt í framkvæmdinni. Mér er það vitanlega vel ljóst, að þar, sem kláðinn er útbreiddastur, er hann hin mesta plága, og mér dettur auðvitað ekki í hug að stuðla að því, að hann þurfi að vera meiri plága en hægt er að komast hjá, en ég vil hinsvegar ekki láta leggja þungar álögur fjáreigendur með útrýmingarböðunaraðferðinni sem ég tel fyrirfram sjáanlegt, að muni ekki ná tilgangi sínum.

Ég býst ekki við, að löng ræðuhöld um þetta mál gagni, en ég tel, að hv. þm. Dal. sé alveg óhætt að greiða þessum till. atkvæði.