07.03.1935
Neðri deild: 22. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 712 í B-deild Alþingistíðinda. (1030)

44. mál, gæðamerki

Flm. (Finnur Jónsson):

Frv. þetta fer fram á, að einstaklingar eða félög geti fengið lögfest almenn gæðamerki fyrir vörur sínar, og einnig að sett verði almennt íslenzkt ríkisgæðamerki, sem nota megi á vörur útfluttar frá Íslandi, er öruggt sé að telja gæðavörur samkv. gildandi ákvæðum um eftirlit með útflutningsvörum. Við flytjum þetta frv. sérstaklega í því skyni, að lögfest verði gæðamerki fyrir Ísland á vörutegund eins og t. d. íslenzkri síld. Það er leitt til þess að vita, að íslenzk síld skuli vera seld á erlendum mörkuðum af útlendingum, sem veiða hana hér við land, með sama merki og síld, sem Íslendingar veiða sjálfir og vanda verkun á. Það er þó almennt viðurkenndur stórfelldur munur á gæðum þeirrar síldar, sem veidd er og flutt hér á land til verkunar, eða síldar, sem verkuð er á skipum úti, þó að hún sé einnig veidd hér við strendur landsins.

Ríkisstjórnin hefir ekki nú rétt til þess að ganga inn í alþjóðasamninga, sem tíðkast víða um gæðamerki á framleiðsluvörum þjóðanna. Slíkan rétt myndi hún öðlast með samþykkt þessa frv. Eins og kunnugt er, þá er mikið selt af síld, sem veidd er hér við land, í viðskiptalöndum okkar af útlendingum, og þá sérstaklega Norðmönnum. undir nafninu íslenzk síld, enda þótt hún sé alls ekki verkuð hér á landi. Hún er að vísu veidd hér við land, en söltuð um borð í skipum. Síðan er hún flutt til Noregs. Saltsíld er tekin og útvötnuð þar og seld sem íslenzk Matjessíld á mörkuðum í Þýzkalandi og Póllandi.

Með samþykkt þessa frv. eru ríkisstj. gefnir möguleikar til að útiloka slíka óheiðarlega samkeppni.

Þetta frv. er samið af sendiráðsskrifstofu Íslands í Kaupmannahöfn, og er það shlj. löggjöf, sem um þetta tíðkast á Norðurlöndum. Ég hefi talið rétt að flytja frv. eins og það kom, þó mér líki ekki allskostar á því orðalagið á nokkrum stöðum.

Þar sem gera má ráð fyrir, að þessi merki, sem farið er fram á í frv., verði einkum notuð fyrir sjávarafurðir, þá vil ég leyfa mér að mælast til þess, að frv. sé vísað til sjútvn.