16.03.1935
Efri deild: 27. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 720 í B-deild Alþingistíðinda. (1053)

52. mál, Söfnunarsjóður Íslands

Þorsteinn Briem [óyfirl.]:

Tilgangur þessa frv. er góður, þar sem hann miðar að því að lækka vexti hjá atvinnuvegunum. Ég man, að ég skrifaði undir nál., er mál þetta var hér á ferðinni í haust, en lét jafnframt í ljós, að ég hefði margt við það að athuga.

Það er alveg augljóst, að með frv. er gengið á rétt þeirra mörgu, sem sjóðurinn ávaxtar fé fyrir, gamalmenna, sjúkra fátæklinga, námsmanna og búnaðar- og framfarasjóða. Þessir aðiljar eiga að langmestu leyti innstæður í Söfnunarsjóði. Það þyrfti því að finna aðra leið en þessa til vaxtalækkunar.

Það má að vísu segja, að vaxtalækkun þessi sé ekki skattur á því fólki, sem hér á hlut að máli, en hlutur þess er engu að síður skertur með henni, með því að ákvæði frv. draga úr vaxtarmöguleikunum. Það er ennfremur líklegt, að þeir, sem stofna sjóði hér eftir, fráfælist að leggja þá í Söfnunarsjóðinn, heldur verði þeir lánaðir út gegn misjafnlega góðum tryggingum eða keypt fyrir þá verðbréf. En slíkt er vitanlega mun ótryggara en að ávaxta þá í Söfnunarsjóði. Þetta gæti jafnvel orðið til þess, að sjóðirnir rýrðust eða týndust á ýmsan hátt. t. d. hjá ógætnum gjaldkera. Ýmsir sjóðir hafa beðið beint tap á því að vera ekki í Söfnunarsjóði. Ákvæði frv. um Söfnunarsjóð eru því mjög varhugaverð.

Hv. frsm. sagði, að lánin væru ekki allskostar hagkvæm, t. d. þegar skuld stæði óbreytt árum saman. Mér er óhætt að fullyrða, að afborganir hafi verið heimtaðar á síðari árum, ef jarðarveð hefir ekki verið fyrir hendi. Vextir hafa nú verið lækkaðir í 51/2%, en menn eiga að greiða 6% í vexti og afborganir. Á þann hátt stendur lánið ekki í 200 ár eins og hv. frsm. sagði, heldur í 46 ár. Og það geta varla talizt okurgjör, að greiða 6% í vexti og afborganir í 46 ár. — Hve mikið hefir verið lánað út gegn veði í húseignum, get ég ekki sagt um að svo stöddu.

Söfnunarsjóður hefir enn gætt þeirrar reglu að vera þó fyrir neðan almenna vexti. En hinsvegar má líta á það, að höfuðtilgangur þessa frv. er sá, að ég ætla, að létta undir með þeim atvinnuvegi, sem stendur nú alveg sérstaklega höllum fæti, þ. e. a. s. landbúnaðinum. Þess vegna flutti ég á síðasta þingi brtt., sem fór í þá átt, að þessi ákvæði frv. væru aðeins bundin við jarðarveð, að vextir af lánum gegn jarðarveði mættu ekki vera hærri en 5%, en Söfnunarsjóður mun lána gegn öllum veðum. Ég mun við 3. umr. flytja brtt., sem fer í sömu átt og sú, sem ég flutti á síðasta þingi. Það er að vísu rétt, sem hv. frsm. benti á, að það getur verið dálítið óþægilegt að hafa mismunandi vexti hjá sömu stofnuninni. Ég hygg þó, að slíkt sé ekki einsdæmi, að miðað sé við það, hvaða tryggingar eru fyrir lánunum, og að vextir séu hærri eða lægri eftir því, hvað veðin eru trygg. Svo bjartsýn verðum við að vera að álíta jarðarveðin tryggari heldur en veð í húseignum, jafnvel þó ekki sé litið á nema það eitt, að á meðan ekki eru jarðskjálftatryggingar hér á landi, þá kemur sú hætta minna við þar sem um jarðarveð er að ræða heldur en þar, sem um húseign eina er að ræða. Ég mun þess vegna greiða þessu frv. atkv. til 3. umr. og bera þá fram brtt., sem fer í þessa átt.