16.03.1935
Efri deild: 27. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 721 í B-deild Alþingistíðinda. (1054)

52. mál, Söfnunarsjóður Íslands

Frsm. minni hl. (Magnús Jónsson) [óyfirl.]:

Ég hefi í raun og veru mjög fáu að svara, vegna þess meðfram, að aðrir hv. þm. hafa nú sagt ýmislegt af því, sem ég annars hefði farið út í. Hv. frsm. meiri hl. vildi ekki fallast á það, sem ég sagði, að með þessu væru þeir í raun og veru skattlagðir, sem vaxta eiga að njóta af því fé, sem í Söfnunarsjóði er. Það er náttúrlega hreinn orðaleikur að tala um það, hvort hér sé um skattlagningu eða ekki að ræða. En það er vitanlega óbein skattlagning, þegar í þágu einhvers alþjóðamálefnis, eins og t. d. að létta undir með atvinnuvegunum, er farin sú leið að draga af þeim vöxtum, sem goldnir eru af fé. Mér er sama, þó þetta sé ekki borið fram sem bein skattlagning, því þessu má vitanlega ná með því að leggja á skatt einhversstaðar og greiða svo þeim, sem lánað hafa úr þessum sjóði. Það mætti líka skattleggja vaxtatekjur, eins og frv. hefir komið fram á þingi um. Það er skattlagning, þegar vextir eru lækkaðir, ekki af eðlilegum ástæðum, heldur í ákveðnum tilgangi, til þess að veita öðrum styrk. Þetta fé er nú þannig, að ef hægt væri að taka það út, mætti ávaxta það utan Söfnunarsjóðs með því að kaupa t. d. veðdeildarbréf yfir 6%. Söfnunarsjóður hefir gert sér að skyldu að kaupa veðdeildarbréf með nokkru hærra verði heldur en þau annars eru og fær þó 6%. Þetta sýnir, að þetta fé má ávaxta með nokkru meira en 6%. Hv. frsm. sagði, að í fyrstu mundi aðeins hafa verið greiddir 4%. Það er þessu máli alveg óviðkomandi, því eins og við vitum, eru vextir alltaf að hækka og lækka í landinu. Annars hafði Söfnunarsjóður þá reglu að hafa sömu útlánsvexti og Landsbankinn, og eftir að veðdeildin var sett á stofn að jafnaði eitthvað lægri heldur en raunverulegir vextir hennar. Og þessari reglu hefir verið fylgt. Það má náttúrlega segja, eins og hv. frsm. meiri hl. kom inn á, að þar sem vextir eru nú að lækka, beri Söfnunarsjóði að færa niður sína vexti. Hann er nú að byrja á því. Annars má gera of mikið úr þeirri almennu vaxtalækkun í landinu, því hún er nokkuð sitt á hvað. En stjórn Söfnunarsjóðsins hefir viljað fara hægt í þetta, því hún vili ekki útiloka, að menn eins og áður setji sjóði í Söfnunarsjóð, en það er sama sem að taka fyrir það, að sjóðir séu lagðir þangað af frjálsum vilja, ef auðvelt er að ávaxta þá með tryggustu verðbréfum. Stjórn sjóðsins hefir einmitt þess vegna verið að reyna að þræða meðalveginn og vera ekki ósanngjörn í vaxtatöku, en reyna þó að útiloka það ekki, að Söfnunarsjóði verði faldir sjóðir til geymslu. En þessi ástaeða fer náttúrlega að hverfa hvað af hverju, eftir því sem meira og meira í sjóðnum er ávaxtað í verðbréfum. Og það er alveg auðséð, að sjóðsstjórnin stefnir nú að því að ná þessum lánum inn. Það sýna þau tilboð, sem gerð hafa verið um það, að lánin skuli greiðast upp á tæpri hálfri öld. Það er alveg eðlilegt, af því að sjóðurinn á að ávaxta féð í verðbréfum. Það er svo fjarri því, að löggjafarvaldið ætti að grípa inn í, eins og hv. frsm. meiri hl. hélt fram, ef sjóðsstjórnin yrði svo ósvífin að hugsa eingöngu um fé sjóðsins. Sjóðsstjórnin er skyldug til þess, þar sem það er sagt í 2. gr. l. um Söfnunarsjóð, að tilgangur hans sé að geyma og ávaxta fé á tryggan hátt, en ekki að vera lánsstofnun og taka tillit til atvinnuveganna og annars slíks. Það er skylda sjóðsstjórnarinnar að vinna hægt og hægt að því að ná þessum lánum inn og ávaxta féð í tryggum verðbréfum. Það er ekki eins og þessi sjóður hverfi þá frá öllum stuðningi við atvinnuvegina. Það getur vitanlega komið að eins miklu gagni fyrir atvinnuvegina, að Söfnunarsjóður kaupi verðbréf, jarðræktarbréf og önnur slík bréf, og hefði aldrei verið gert annað í upphafi, ef þess hefði verið kostur.

Mér virtist hv. frsm. meiri hl. vilja taka undir grínsögu mína um manninn, sem fannst hann vera búinn að borga upp lán sitt, af því hann var búinn að borga sömu krónutölu í vexti. Ég trúi því náttúrlega ekki, að hv. þm. taki undir þessa fjarstæðu. Ég gat aðeins um þetta til þess að sýna, hvað menn geta verið glámskyggnir á svona hluti. Ég veit ekki hvers lags það væri, ef ég t. d. byggi í húsi við eðlilega leigu og þættist svo eftir svona að ár eiga rétt á að eiga húsið. Nei, það er ómögulegt að komast í kringum það, að eðlilegir vextir af peningum er bara gjald fyrir það að nota peninga, sem annar maður á. Annars nefndi ég þetta bara í sambandi við þessar einlægu kröfur um vaxtalækkun. Það má ekki fara of mikið eftir þeim, því það er dálítið til af þeim hugsunarhætti, að menn eigi enga vexti að borga. — Ég hefi því miður ekki skrá yfir það, hvað mikið af þessum lánum hefir farið til sveita og hvað mikið til kaupstaða. Ég þykist vita, að þó nokkuð hafi farið til húsabygginga í Rvík, svo ég ætti ekki sem fulltrúi Rvíkinga að amast við því, þó lækkaðir væru vextir, en ég geri það aðeins vegna þess, að ég tel það ekki sanngjarnt. Mér finnst, að menn hafi fengið þarna mjög óhagfelld lán og að þeir vextir, sem eru greiddir af þessu fé, fari til svo mikilla guðsþakkaverka, að það sé hvorki sæmilegt né réttlátt að nota einmitt þessa styrkþega sem gjaldendur til þess að styðja jafnvel atvinnuvegina. Þar verður að leita annara ráða.