16.03.1935
Efri deild: 27. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 724 í B-deild Alþingistíðinda. (1056)

52. mál, Söfnunarsjóður Íslands

Einar Árnason:

Ég vil aðeins selja örfá orð út af þessu frv., sem ég er meðflm. að, þar sem svo margir hv. dm. hafa risið upp til að andmæla því. Og það, sem mér virðist hafa verið aðalástæðan hjá þeim, er það, að hér sé verið að ganga á rétt volaðra, vanaðra, haltra og blindra. Ég held það sé gert of mikið úr þessu og það sé yfirleitt allt of mikið kjökurshljóð haft í frammi út af þessu frv. Hv. frsm. tekur það fram í sínu nál. með breyttu letri, að þessi sjóður sé ekki lánssjóður, heldur sé hann aðeins til þess að ávaxta fé manna. Ég vil spyrja hv. frsm. minni hl., hvernig eigi að ávaxta fé öðruvísi en að lána það. Og mér finnst það skipta miklu máli, hvort þessi sjóður breytir nú til frá þeirri reglu, sem hann áður hafði, og fari að gerast milliliður um lánastarfsemi, því það, að sjóður tekur upp þá reglu að kaupa verðbréf, er ekkert annað en að gerast milliliður í lánastarfsemi, til þess að lántakendur fái verri kjör heldur en þeir annars hefðu getað fengið. — Hv. frsm. minni hl. segir, að sjóðurinn geti haft meira upp úr því að ávaxta peningana í tryggum verðbréfum. Þetta getur vel verið, en við megum ekki gleyma því, að það er eitthvað, sem stendur á bak við öll verðbréf, og ef það, sem á bak við þau stendur, hrynur, — hvers virði eru þau þá? — Hv. frsm. minni hl. talaði mikið um það, hvað þessi lán, sem Söfnunarsjóður hefir veitt, hafi verið framúrskarandi hagstæð, og til sönnunar því sagði hann, að mikið hefði verið sótt um þessi lán og margir verið á biðlista. Það er rétt, að mikið hefir verið sótt um þessi lán og margir verið á biðlista, en það er engin sönnun fyrir því, að þessi lán hafi verið svo framúrskarandi hagstæð, þó þau kunni að hafa verið hagstæðari en önnur þau lán, sem sömu mennirnir hafa átt kost á í öðrum lánsstofnunum. Mér er ekki kunnugt um það, að bændur hafi yfirleitt haft aðgang að hagstæðum lánum, áður en Búnaðarbankinn tók til starfa. Þess vegna má segja, að það skársta, sem í boði var, hafi verið hagstætt, en að það hafi verið framúrskarandi hagstætt, get ég ekki fallizt á.

Hv. frsm. minni hl. segir, að þessar kröfur um lækkun vaxta séu ósanngjarnar. Ég get alls ekki fallizt á það, og ég býst við, að við höfum sína skoðunina á þessu hvor, af því mér skilst af því, sem hann segir, að við höfum mjög ólíka skoðun á eðli vaxta. Þegar hv. frsm. minni hl. er að tala um eðli vaxta, þá talar hann um það eitt, að þeir, sem eigi peninga, eigi að fá vexti, og það sem hæsta vexti. En ég vil segja, að það eigi að vera nokkuð mikið samræmi í því, sem nægt er að hafa upp úr peningunum með því að fá þá lánaða, og því, sem greitt er í vexti af peningunum. Og það er einmitt þess vegna ákaflega eðlilegur hlutur, að þegar ekki er hægt að láta peningana bera neina raunverulega vexti í þeim fyrirtækjum, sem þeir eru lagðir í, að þá eigi vextirnir að lækka. Það hefir verið talað um það í þessum umr., að Söfnunarsjóður hafi boðizt til þess að bæta ráð sitt með því að breyta vaxtalánum úr 6% niður í 51/2%, með 1/2 % afborgunum. Og ástæðan til þess er sú, að samskonar frv. og þetta kom fram á síðasta þingi. En ég vil bæta því við, þar sem hv. frsm. minni hl. var að tala um þessi framúrskarandi hagstæðu lán, að það eru alls ekki hagstæð lán að lána gegn 6% og engri afborgun. Það eru alls ekki hagstæð eða hyggileg lán, og ég álít, að sjóðsstjórnin hafi alls ekki farið hyggilega að ráði sínu. Ef nú svo fer, að þeir bændur, sem hafa fengið þessi lán með þessum ákaflega hagstæðu kjörum, geta ekki staðið í skilum, hvað verður þá? Ég sé ekki annað en að Söfnunarsjóður, sem undir öllum kringumstæðum hefir fyrsta veðrétt í jörðunum, verði að ganga að þeim. Eins og nú er ástatt í landinu um landbúnaðinn, þá er ég alls ekki viss um, að það verði sérstaklega arðvænlegt fyrir Söfnunarsjóð að ganga að jörðunum. Ég gæti trúað, að það væri heldur hyggilegra fyrir hann að fá lægri vexti og eiga það tryggt, að jörðin, sem hann hefir að tryggingu, fari ekki í eyði. Hv. frsm. minni hl. segir í nál. sínu, að ekki geti komið til mála að skerða ávöxtu þessa fjár í þágu þeirra, sem notið hafa þeirra hlunninda að fá lán úr sjóðnum. En ég vil segja, að þetta geti komið til mála, og það án þess að sjóðsstjórnin vilji það, og einnig án þess að lánþegar vilji það. Það kemur af þessu, sem ég benti á áðan, að þó Söfnunarsjóður hafi lánað með háum vöxtum, — ég segi, að þeir séu háir —, þá hefir hann í rauninni lánað svo lítið út á fasteignir, að þetta hefir ekki komið að fullum notum enn.

Þá talaði hv. 1. þm. Skagf. í öðru orðinu með vaxtalækkuninni, en vildi þó láta koma fram, að hann teldi hættu á því, að Söfnunarsjóður myndi þá segja upp lánunum. En stjórnendur Söfnunarsjóðs eru það skynsamir menn, að þeim dytti slíkt ekki í hug, því að þá sætu þeir e. t. v. uppi með verðlausar jarðir og húsaskrokka, sem sjóðurinn yrði þá að taka að sér. Það er mikill vafi, hvernig það gengi, og ákaflega mikill vafi, hvort þeim mönnum, sem eiga fé í Söfnunarsjóði og svo mikið hefir verið um rætt, að væru aðallega gamalmenni og sjúklingar, væri það til svo mikilla heilla, að gengið væri nú að þessum lántakendum. — Mér finnst það hyggilegast að lækka vextina til muna og fara nú að hugsa meira um afborganir af lánunum. Þá mætti fara að losa um féð og koma því í verðbréf með hærri vöxtum.

Hv. 1. þm. Skagf. og fleiri hafa haldið því fram, að stjórnendur sjóðsins hlytu fyrst og fremst að líta á hag eigenda sjóðsins. Það er ekki nema sanngjarnt og sjálfsagt, að svo sé gert. En ekki er þó víst, að hyggilegt sé að gera það í öllum tilfellum. Ég held, að þjóðinni sé það fyrir beztu, að vextir af fé séu hafðir sem mest í samræmi við það, sem féð gefur af sér. Á það verður að líta fyrst og fremst, ef hugsa á um þjóðarheildina, en ekki eingöngu þá, sem peninga eiga.

Ég skal svo ekki vera langorðari um þetta. Frsm. meiri hl. hefir skýrt frv. fullvel. Ég hefi þar ekki frekar við að bæta, nema lenda þá út í endurtekningum. Ég hygg, að afdrif þessa frv. verði þau sömu, hvort sem rætt verður um málið lengur eða skemur.