16.03.1935
Efri deild: 27. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 732 í B-deild Alþingistíðinda. (1061)

52. mál, Söfnunarsjóður Íslands

Frsm. meiri hl. (Bernharð Stefánsson):

Hv. 2. þm. Rang. hóf ræðu sína með því, að þetta væru einhverjar einkennilegustu umr., sem hann hefði heyrt á Alþingi. Ég verð að segja það, að einkennilegasta ræðan, sem ég hefi heyrt í þessu máli, var ræða hans, og þó einkum fyrri hluti hennar. Ég má ekki gera nema stutta aths., svo ég skal ekki fara langt inn á að svara því. Hann byrjaði á því, að háir vextir væru í veðdeildinni o. fl. lánsstofnunum, sem bændur skiptu við og þm. Eyf. hefðu ekkert við það að athuga. En í næstu andrá fór hann að tala um annað mál, sem hér er á dagskrá, frv., sem er flutt af okkur þm. Eyf., þar sem gert er ráð fyrir því, að allir vextir af fasteignaveðslánum bænda, sem eru hærri en 5%, lækki ofan í 5%. (PM: Er þar um vaxtalækkun að ræða?). Að vísu er það ekki, heldur um tillag frá ríkissjóði, en það verkar alveg eins og vaxtalækkun fyrir bændurna. Hv. þm. vek sjálfur að því í ræðu sinni, að ekki væri hægt að ráða við almenna vaxtalækkun af því við notuðum erlent lánsfé eins og t. d. í veðdeild Landsbankans og víðar. En það fé, sem stendur í Söfnunarsjóði, er innlent fé, og við höfum vald yfir því. Þegar þjóðarhættir eru svo, að hag má telja að slíkum ráðstöfunum, þá hefir Alþ. vald til þess. Þjóðin á sjálf þessa sjóði, eins og t. d. ellistyrktarsjóðina, sem er mikið af því fé, er Söfnunarsjóður hefir til umráða. Ég veit, að fyrir lántakendur væri það sama, þó þetta frv. yrði ekki samþ., en ríkissjóður látinn bera vaxtalækkun með tillagi. En ég álít, að auðvelt sé fyrir stofnunina sjálfa að bera þessa vaxtalækkun án þess að mjög sé tilfinnanlegt, og tel ég því rétt, að hún geri það án þess að ríkissjóði blæði. Mér finnst, að sæmilegir vextir séu goldnir af innstæðufé í Söfnunarsjóði, jafnvel þó hann fái ekki nema 5%. Er það að vísu satt, að lítilsháttar er dregið úr vaxtarmöguleikum sjóðsins með ráðstöfunum þessum, en það er vitanlega fjarstæða, að þeir séu gerðir að engu.

Hv. þm. hafði svo sterk orð um hugmynd, sem fram kom frá hv. 1. þm. Skagf., að það gæti komið til mála að banna að segja upp lánum í Söfnunarsjóði, að hann sagði, að það væri fásinna ein og fjarstæða, og kann það vel að vera; ég er ekki að halda þeirri skoðun fram, en ég hefi sagt, að sjálfsagt væri að taka málið til athugunar. Og þó að eitthvert ákvæði væri sett í frv. um það, að ekki mætti segja lánunum upp, þá væri það ákaflega skylt l. frá 1933 um greiðslufrest, þó auðvitað sé það ekki það sama, og þeim l. var hv. 2. þm. Rang. samþykkur. (PM: Það voru aðeins heimildarlög). Já, en þau voru framkvæmd, og það var hv. 2. þm. Rang., sem framkvæmdi þau.