18.03.1935
Efri deild: 28. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 733 í B-deild Alþingistíðinda. (1065)

52. mál, Söfnunarsjóður Íslands

Jón Auðunn Jónsson [óyfirl.]:

Ég er hræddur um, að þetta frv. verði ekki til neinna bóta fyrir lántakendur, sízt fyrir þá, sem hafa fast eignaveð í boði. Eins og hv. þdm. er kunnugt um, hefir stjórn Söfnunarsjóðsins tekið þá ákvörðun að veita ekki fasteignaveðslán yfirleitt, heldur að kaupa fasteignalánsbréf, t. d. veðdeildarbréf Landsbankans, og ég er viss um, að það er til meiri hagsbóta fyrir lántakendur yfirleitt, að það sé reynt að halda uppi verði fasteignabréfa, og það hefir Söfnunarsjóður gert. Hann hefir keypt og kaupir nú, eftir því sem hann hefir fé til, veðdeildarbréf Landsbankans fyrir 80%, en áður en Söfnunarsjóður fór að kaupa þessi bréf, voru þau ekki keypt hærra verði en 75% og í mörgum tilfellum fyrir enn lægra verð. Það eru dæmi til þess, að þau hafa verið seld á 66–68%, en við það, að Söfnunarsjóður ákvað að kaupa bréfin fyrir 80%, hafa þau ekki farið fyrir eins lágt verð eins og áður. Nú eru þau líklega ekki seld fyrir minna en 75%, og flest á 76–78%. Með því að halda uppi verðmæti fasteignalánsbréfanna, enda þótt Söfnunarsjóðurinn geti ekki keypt nema lítinn hluta af því, sem selja þarf, hafa bréfin samt sem áður hækkað almennt, einnig hjá öðrum, sem kaupa bréfin, og þannig fá lántakendur betri kjör í veðdeild heldur en annars. Söfnunarsjóður hefir svo afarlítið fé laust, að það mundi varla mikið muna í allri þeirri súpu fasteignalána, sem nú eru úti hér á landi, þótt hann keypti fyrir nokkra tugi þúsunda, eða 100 þús. kr. í hæsta lagi á ári. Með því að halda uppi verðlagi á fasteignaveðlánsbréfum veðdeildarinnar getur það orðið óbeint gagn fyrir þá menn, sem taka lán, svo mörgum milljónum skiptir á ári. Ég verð að segja það, að fyrir fasteignaeigendur í kaupstöðum er 51/2 % lán eða jafnvel 6% lán langhagkvæmustu lánin, sem þeir geta fengið. Það er vitað, að bankarnir lána ekkert út á fasteignir. Þeir hafa ekki fé, sem þeir geta bundið til margra ára eða áratuga, og þess vegna er ekki eðlilegt, an þeir geti, eins og nú standa sakir, lánað fasteignaveðslán, og þá er eina lánsstofnunin, sem veitir nokkur fasteignaveðslán að mun, veðdeild Landsbankans. Nú er það svo, að menn neyðast til þess að taka þessi lán, þótt kjörin séu óhagstæð, einkum ef bankavaxtabréf eða veðdeildarbréf eru í lágu verði, þá verða þessi lán oftast hjá veðdeildinni með 7% vöxtum, þegar tekið er tillit til affalla á bréfunum. En það munar miklu, hvort þessi bréf seljast fyrir 5–10% hærra verð en annars, eða það gæti orðið fyrir tilverknað Söfnunarsjóðs, að þau hækkuðu, eins og vitanlegt er, að orðið hefir tvo síðustu ár, og sérstaklega á næstl. ári, eftir að Söfnunarsjóður hafði tekið þá ákvörðun að lána ekki fé út á fasteignir heldur kaupa bréfin. Ég er því sannfærður um, að með þeim ráðstöfunum er þeim mönnum, sem taka vilja fasteignalán, miklu meiri greiði gerður heldur en með þeirri litlu úrlausn, sem Söfnunarsjóður gæti gert með beinum lánum. Óneitanlega miðar það, að færa vextina meira niður heldur en sjóðsstjórnin telur hæfilegt — með lagaboði — að því að hætta öllum útlánum. Það er sjálfsögð skylda sjóðsstj. að reyna að hafa sem mest upp úr eignum sjóða Söfnunarsjóðs, ekki sízt þar sem mjög mikið af þessum sjóðum eru, eins og drepið hefir verið á, sjóðir til styrktar þeim, sem erfiðasta eiga afkomu, t. d. ellistyrktarsjóðir og einnig fjöldamargir líknar- og hjálparsjóðir til fátækra, veikra og örvasa manna. Þess vegna hvílir enn meiri kvöð á herðum þessa sjóðs en annara, að hafa sem mest upp úr þessu fé — vitanlega með fullri skynsemi — og ávaxta það á tryggilegan hátt, enda er það tilgangur Söfnunarsjóðsins frá öndverðu að ávaxta þetta fé með sem tryggilegustu móti, þannig að eigendur fjárins hafi sem mest upp úr fé sínu. Við þetta miðast skipulagning sjóðsins meðal annars. Framkvæmd ýmiskonar starfsemi við fyrirtækið er svo kostnaðarsöm, að ef það ætti að verða regluleg lánsstofnun, þá yrði ógerningur að vinna öll nauðsynleg störf fyrir það litla fé, sem til þessarar starfsemi er veitt. Þess vegna varð að gera skipulagninguna á sjóðnum sem einfaldasta, og einfaldasta leiðin er ávöxtun fjárins með því að kaupa trygg veðdeildarbréf eða eins trygg fasteignaveðsbréf.

Ég er hræddur um, að það gæti tafið fyrir því, að menn, sem stofna til sjóða í almenningsþarfir, legðu fé sitt í Söfnunarsjóð, ef löggjafinn færi að hafa bein áhrif á stjórn sjóðsins á það, hversu háa vexti mætti taka eða hvernig hann ávaxtaði fé sitt. En það yrði áreiðanlega til hins lakara, því að ekki verður annað sagt en að fé sjóðsins sé vel varið og honum sé vel stjórnað og tryggilega um allt hans fé búið, þannig að ekki er hætt við töpum. En það hefir viljað brenna við um ýmsa aðra sjóði, þó almannaeign sé, t. d. sveitar- eða sýslusjóði, að þeim hefir ekki verið svo vel stjórnað eða svo tryggilega um fé þeirra búið, að ekki hafi oft komið fyrir, að eitthvað hafi tapazt af þessu fé.

Af þeim ástæðum, sem ég hefi minnzt á, get ég ekki fylgt þessu frv., sem hér liggur fyrir. Ég get heldur ekki verið með þeirri breyt., sem hér er lagt til, að gerð verði á þskj. 173, því að mér virðist hún beinlínis koma í veg fyrir, að sjóðurinn taki fasteignaveð í jörðum. En sjóðsstjórnin mun að sjálfsögðu við fyrsta gefið tækifæri reyna að losna við þau lán, sem hann hefir, þegar það er vitað, að jafnvel þótt hann um leið haldi uppi verði á fasteignabréfum til stórhagsmuna fyrir fasteignalántakendur í landinu, þá getur hann samt fengið mun meira fyrir fé sitt með því að kaupa fasteignalánabréf heldur en að lána beint. Auk þess er þetta þægilegra fyrir sjóðsstjórnina, og svo er það betri trygging og engin hætta á, að hann þurfi að tapa neinu eða vera í vandræðum með að fá fé sitt til baka.