18.03.1935
Efri deild: 28. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 735 í B-deild Alþingistíðinda. (1066)

52. mál, Söfnunarsjóður Íslands

Jón Baldvinsson [óyfirl.]:

Ég get ekki fylgt till. hv.10. landsk. Mér skilst hún gera upp á milli þeirra lána, sem tekin eru út á húseignir annarsvegar, og þeirra lána, sem tekin eru út á jarðeignir hinsvegar. Ég tel ranglátt, að lánsvextir séu mismunandi, eftir því hvort þeir eru í kaupstöðum eða í sveitum.

Söfnunarsjóður mun að vísu síðastl. haust hafa tekið þá ákvörðun, áður en nokkuð hafði verið samþ. um þetta, að hætta við að lána út úr sjóðnum, en kaupa í þess stað veðdeildarbréf, svo að það er ekki von um mikið af nýjum lánum úr þessum sjóði, að óbreyttum ástæðum. En þótt í Söfnunarsjóði séu ýmsir merkir sjóðir, mannúðarsjóðir, svo sem ellistyrktarsjóðir o. fl., þá er það ekki mikið, sem þeir tapa, þótt nokkur lækkun væri gerð, og sjóðirnir hafa sæmilega sparisjóðsvexti, þrátt fyrir þessa lækkun, sem gerð er með frv. því, sem hér liggur fyrir. Ég mun því greiða atkv. með frv. óbreyttu, en á móti þessari till.

Hvað því viðvíkur, að hætta sé á, að stjórn sjóðsins segi upp lánum, vil ég benda á það, að eins og kunnugt er kýs hv. Alþ. í stjórn sjóðsins, og það er ekkert á móti því, að það komi fram á hv. Alþ., að það ætlist ekki til þess, að á þessum tímum sé mönnum íþyngt með því að segja þeim upp lánum, sem öll eru vel trygg. Sjóðurinn er ekki heldur í neinum vandræðum með fé, þar sem hann hefir ef til vill lokið við öll sín loforð um lán út á fasteignir og jarðeignir og tekið þá ákvörðun að lána ekki framvegis.