18.03.1935
Efri deild: 28. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 736 í B-deild Alþingistíðinda. (1067)

52. mál, Söfnunarsjóður Íslands

Þorsteinn Briem [óyfir.]:

Viðvíkjandi því, sem hv. þm. N.-Ísf. sagði, að ef brtt. mín við frv. það, sem hér liggur fyrir, yrði samþ., þá yrði það til þess, að stjórn Söfnunarsjóðs mundi segja upp öllum lánum, sem lánuð hafa verið af sjóðnum gegn veði í jarðeignum, vil ég taka það fram, að ég hygg, að það sé ástæðulaus ótti hjá hv. þm. í þessu efni. Ég hygg, að stjórn sjóðsins sé þannig skipuð, og ég ætla að hv. Alþ. muni framvegis skipa hana þannig, að ekki sé hætta á því, að þeim mönnum, sem nú hafa lán úr Söfnunarsjóði gegn jarðarveði, verði sagt upp lánum, nema því aðeins að um bein vanskil sé að ræða. Enda hefir verið bent á það af öðrum hv. þm., að á slíkum tímum, sem nú standa yfir, muni það geta verið mjög varhugavert að segja mönnum upp þessum lánum. Slíkar ráðstafanir brytu líka algerlega í bága við þær reglur, sem sjóðstjórnin hefir jafnan fylgt, að taka tillit til lánþega og ástæðna þeirra og vera jafnan með heldur lægri vexti en aðrar lánsstofnanir.

Viðvíkjandi því, sem hv. 4. landsk. sagði, vil ég taka það fram, að það er sjónarmið fyrir sig, að halda því fram, að það eigi ekki að vera mismunur á lánum þeirra manna, sem taka lán út á húseignir sínar úr þessum sjóði annarsvegar, og á lánum þeirra manna hinsvegar, sem lán taka gegn veði í jarðeignum, en það eru a. m. k. oftast bændur, sem taka lán til atvinnurekstrar síns eða til þess að festa kaup á ábýlisjörðum sínum. Ég hygg, að þarna sé rétt að gera nokkurn mun, og það ætla ég, að fyrir flm. þessa frv. hafi vakað að létta sérstaklega undir með fasteignalánum landbúnaðarins.

Ég benti á það við 2. umr. málsins, að yfirleitt mætti líta svo á, að jarðarveð væru tryggari en veð í húseignum, enda þótt það geti að vísu verið áraskipti að því, eftir því hvernig aðstaða atvinnuveganna er á þessum og þessum tíma. Ég hygg, að yfirleitt sé jarðarveð tryggasta veð, sem hægt er að fá, og ég benti á það við 2. umr., að meðan ekki væri búið að koma á tryggingu gegn eyðileggingu jarðskjálfta á húsum — og er skammt slíkra dæma að minnast —. Þá yrði maður að líta svo á, að veð í húseignum sé ótryggara en veð í jarðeignum. Ég get því fyrir mitt leyti ekki fallið frá þessari brtt., tel að vísu, að það hefði verið eðlilegra, að ríkissjóður hefði veitt vaxtauppbót á þessi lán og notað til þess tekjur sínar, en ekki lagt sérstaklega á hlut þeirra, sem eiga innistæður í sjóðnum, en þeir eru vissulega þeir menn, sem sízt mega af sínu missa. En þar sem ég tel loku fyrir það skotið, að slíkt fé fáist, þá tel ég það þó minni skaða fyrir sjóðinn, ef þetta ákvæði nær aðeins til þeirra lána, sem tryggð eru með veði í jarðeign, heldur en ef það næði til þeirra allra. Mér er að vísu ókunnugt um, hve mikið af sjóðnum hefir verið lánað gegn veði í húseignum, og hve mikið gegn veði í jarðeignum, en samt held ég, að jafnvel þó jarðeigendur hafi verið látnir sitja fyrir um lán, þá sé það samt allveruleg upphæð, sem lánuð hefir verið gegn veði í húseignum. Og ef ekki er um vaxtalækkun að ræða á þeim lánum, þá er sjóðurinn betur staddur heldur en ef lánin hefðu öll lækkað að vöxtum.

Það hefir verið réttilega bent á af mörgum hér í hv. deild, að jafnvel þótt vextir séu 51/2–6%, þá verði þetta þó hagkvæmustu lán, sem húseigendur eiga kost á að fá, því að eins og stendur eru lán í veðdeild a. m. k. 7% „effektivir“ vextir. Ég hygg því, að þeir, sem hafa fengið lán í Söfnunarsjóði gegn veði í húseign, þurfi ekki að kvarta, þótt þessi brtt. mín yrði samþykkt.