18.03.1935
Efri deild: 28. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 738 í B-deild Alþingistíðinda. (1069)

52. mál, Söfnunarsjóður Íslands

Jón Auðunn Jónsson:

Hv. 1. þm. Eyf. vill ekki viðurkenna, að frv. muni draga úr því, að aðrir sjóðir ávaxti fé sitt í Söfnunarsjóði. En allir vita, að flestir opinberir sjóðir eru nú ávaxtaðir í fasteignaveðlánum með 6% vöxtum, en misjafnri tryggingu. Eru það undantekningar, ef slíkir sjóðir eru ávaxtaðir í bönkum eða sparisjóðum. Þessum sjóðum hlýtur að vera stjórnað eftir því sjónarmiði, að sem mest hafist upp úr þeim, án þess þó að rýra öryggi þess. Söfnunarsjóður hefir gefið 6% vexti til innistæðueigenda, og féð er þar algerlega tryggt. Ef vextirnir verða ekki nema 5% framvegis, munu menn heldur kjósa að ávaxta þetta fé í fasteignveðslánum, sem gefa 1% hærri vexti. Hér væri þá aðeins verið að taka úr öðrum vasanum og láta í hinn. Ríkissjóður sleppur með lægra vaxtatillag fyrir landbúnaðarlán, ef frv. verður samþ., en sjóðurinn missir 1/2%.

Það er óhætt að fullyrða, að frv. þau, sem áður hafa komið fram hér á þingi í því skyni að setja Söfnunarsjóði skorður um útlánsvexti, hafa leitt til þess, að sjóðsstjórnin hefir tekið þá ákvörðun að hætta útlánum, en kaupa í þess stað fasteignaveðbréf.

Yfirleitt er viðsjárvert að fara að setja skorður við vaxtahæð stofnana eins og Söfnunarsjóðs, sem er aðeins geymslufjárhirzla fyrir þá sjóði, sem þar eru, og kemur þeim helzt að haldi, sem erfiðast eiga.