04.03.1935
Efri deild: 16. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 741 í B-deild Alþingistíðinda. (1087)

35. mál, fasteignaveðslán landbúnaðarins

Magnús Jónsson:

Ég ætla að leyfa mér að tala um sama efni og aðrir í sambandi við þetta mál. því verður ekki neitað, að hvað lánsheimildina snertir í þessu frv., þá skiptir það vissulega máli, hvaða skilyrði hafa verið sett fyrir enska láninu. Hitt skal ég játa, að það, sem hv. þm. S.-Þ. var að tala um, getum við gjarnan geymt. Viðvíkjandi því, sem hann sagði, að ég ætti að vera nákvæmari með heimildir en ég hefði verið, þá skal ég aðeins taka það fram, að ég hefi sagt, að hann hafi talað um þetta á menntamálaráðsfundi. (JJ: Þetta hefir ekki komið til orða í menntamálaráðinu). Einhver hefir svo sagt það eftir hv. þm. S.-Þ. frá þeim fundi annar en ég, því ég er ekki í menntamálaráðinu. (Fjmrh.: Ég man ekki betur en hv. 1. þm. Reykv. hvíslaði því að mér hérna í ráðherraherberginu, að Árni Pálsson hefði sagt sér þetta eftir hv. þm. S.-Þ.). Það var Morgunblaðið, sem hafði þetta eftir Árna Pálssyni. Annars held ég, að það sé ekki vert fyrir þessa hv. þm. að flækja sig meira í þessum söguflutningi, því hv. þm. S.-Þ. er a. m. k. ekki alltaf svo gætinn við það að nota heimildir.

Þá var hæstv. fjmrh. að tala um það, að Sjálfstfl. hefði ráðið fjármálunum á undanförnum árum. Það er nú alkunnugt, að undanfarin tvö ár hefir setið að völdum samsteypustjórn hér á landi, stjórn, sem mynduð var í ákveðnum tilgangi í sambandi við önnur mál en fjármálin. Og þó Sjálfstfl. hafi átt einn mann í þeirri stj., þá er ekki hægt að segja, að flokkurinn fyrir það beri ábyrgð á fjármálastjórninni. En það er ekki þar fyrir, að ég tel, að sú stj. hafi haldið betur á fjármálum þjóðarinnar heldur en sú stj., sem nú situr, og hefði verið betur ástatt í þeim efnum, ef ekki hefði skipt um stjórn. Hitt nær vitanlega engri átt, að segja, að Sjálfstfl. beri ábyrgð á þeirri stj., þó hann ætti þar einn mann. Þar fyrir utan er á það að líta, að núv. stj. sat að völdum nær því helming síðasta árs. Nei, það er alveg skotið fram hjá marki að segja, að Sjálfstfl. beri ábyrgð á fjármálaóreiðu síðustu ára. Fjármálaóreiðan er frá tíð fyrri framsóknarstj.

Ég spurði hæstv. fjmrh. að því í fyrri ræðu minni, hve lengi hann hefði lofað, að ekki yrði tekið lán í útlöndum. Hann hefir svarað á þá leið, að það mætti hann þegar hann vildi. Mér sýnist ekki vel gott að samrýma þetta. Það er sett að skilyrði fyrir enska láninu, að ekki séu tekin lán í útlöndum á ábyrgð ríkisins, en samt felur hæstv. ráðh. sig geta tekið slík lán þegar honum sýnist. Hann ætlar þó líklega ekki að fara að innleiða þá aðferð í milliríkjaviðskiptum að gefa loforð og hlaupa síðan frá þeim í sömu svipan.