11.03.1935
Efri deild: 22. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 743 í B-deild Alþingistíðinda. (1090)

35. mál, fasteignaveðslán landbúnaðarins

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Landbn. hefir athugað þetta frv. allrækilega, og mælir hún eindregið með því, að það verði samþ. Hún ber ekki fram neinar brtt. við það við þessa umr. En einstakir nm. áskilja sér rétt til þess að flytja brtt. við 3. umr., eða vera með brtt., sem þá kunna að koma fram frá öðrum þdm.

N. er sammála um, að full þörf sé á löggjöf í þessa átt, sem frv. fer fram á. En um það var rætt í n., að miklir örðugleikar mundu á því að framkvæma ýms ákvæði frv., sérstaklega þau atriði, er snerta lengingu lánstímans á lánum úr ræktunarsjóði annarsvegar, en láta hinsvegar standa óbreytt ákvæði gildandi laga um útdrátt vaxtabréfanna.

Þetta mundi m.a. leiða af sér tvennskonar útreikning á árgjöldum af lánum og ýmisl. fleira. Ég býst við, að n. taki þetta og fleiri atriði málsins til nánari athugunar á milli umr., og þó að n. flytji ekki brtt. við frv. nú við þessa umr., þá tel ég víst, að brtt. komi frá einstökum nm. við 3. umr.

Ég sé svo ekki ástæðu til að ræða frekar um málið að sinni, þar sem engar brtt. liggja fyrir.