11.03.1935
Efri deild: 22. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 747 í B-deild Alþingistíðinda. (1093)

35. mál, fasteignaveðslán landbúnaðarins

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Ég tel sjálfsagt, að landbn. athugi þetta mál nánar milli umr., og þar af leiðandi sé ég ekki ástæðu til að ræða það mikið hér í hv. d. við meðnm. mína nú að þessu sinni. Ég vil þó taka það fram, að ekki get ég verið hv. 2. þm. Rang. sammála um það, að flest ákvæði frv. séu þýðingarlaus eða þýðingarlítil. Það fyrsta, sem hann nefndi í því sambandi og vildi telja þýðingarlaus ákvæði, voru ákvæði 3. gr. frv., sem heimila stj. að taka allt að því 5 millj. kr. lán, innanlands eða utan, til kaupa á veðdeildarbréfum Búnaðarbankans. Það er rétt, að eins og nú horfir má búast við, eða er vitað, að ekki mun verða tekið lán erlendis til þessara framkvæmda. En bæði er það, að ástandið, sem nú er, getur skyndilega breytzt., og svo finnst mér ekki ástæða til að telja alveg útilokað, að hægt væri að fá fé innanlands til bréfakaupa. Ég geri að vísu ráð fyrir, að um 3 millj. væri ekki að ræða innanlands í þessu skyni, en mér finnst ég ekki geta verið fyrirfram vonlaus um, að um eitthvert fé gæti verið að ræða, sem að gagni mætti koma fyrir veðdeildina. Í því sambandi dettur mér í hug, að samkv. nýlegum upplýsingum er í landinu mikill fjöldi af allskonar sjóðum, sem stofnaðir hafa verið í hinu og þessu augnamiði, og suma má ekki skerða fyrr en eftir mjög langan tíma. Í þessum sjóðum er mikið fé. (JAJ: Ekki laust fyrir). Nei, en hreyfist þó til og frá. Mér finnst, að í mörgum tilfellum væri fé þessara sjóða vel varið einmitt til kaupa á veðdeildarbréfum.

Þá minntist hv. þm. á, að ræktunarsjóður Íslands hefði nokkurnveginn getað fullnægt eðlilegri eftirspurn eftir lánum. Ég veit, að þetta er rétt. En á það má benda, að þetta frv. leggur nokkrar nýjar kvaðir á ræktunarsjóð, og mun þá ekki veita af, að hann fengi eitthvað aukið fjármagn öðruvísi heldur en með bréfasölu. Nú má vel vera, að einhverju af þessu fé, sem ætlað er að renna úr viðlagasjóði til ræktunarsjóðs. væri betur varið til annara deilda bankans. Hygg ég, að því, sem ekki þykir ástæða til að taka til ræktunarsjóðs, væri betur varið til veðdeildarinnar heldur en til sparisjóðsdeildarinnar eða rekstrarlánadeildarinnar, þar sem það mætti verða til þess að óhagkvæm lán bænda gætu breytzt í veðdeildarlán til lengri tíma og orðið þeim þannig þægilegri en verið hefir.

Þá verð ég að segja það út af aths. hv. 2. þm. Rang. við 12. gr. frv., að formlega er það rétt, sem hann sagði, að í 12. gr. er ekki beinlínis sagt neitt um það, að vextir ræktunarsjóðs eigi að hækka, en í framkvæmdinni yrði það án éta svo. Ég veit ekki til, að það hafi nokkurntíma verið svo í ræktunarsjóðnum, að vextir og kostnaðargjald samanlagt hafi verið hærra heldur en til er tekið í lögunum eins og þau eru nú, þó heimild hafi verið til að hafa vextina hærri. Sama yrði auðvitað, þó þetta frv. væri samþ. Framkvæmdin yrði að sjálfsögðu þannig, að vextir og kostnaðargjald samanlagt yrði ekki hærra en þar er tiltekið, og það er vitanlega meiningin með ákvæði frv. Hitt má vel vera, að þetta þyrfti að taka skýrar fram, eins og hv. 4. landsk. minntist á.

Hv. 4. landsk. minntist á það fyrst og fremst, að með þessu frv. ætti að geta Búnaðarbankanum 2 millj. króna. Það kynni nú að vísu að fara svo, að þetta fé yrði ekki í reyndinni svo þá upphæð. (JBald: á pappírnum er það þetta). Ég er nú ekki viss um að allt, sem úti er hjá viðlagasjóði, innheimtist. En rétt er það, að með þessu móti á Búnaðarbankinn að eignast a. m. k. nokkurt fé, sem hann ekki á nú. Ég fyrir mitt leyti tel réttmætt að styðja þessa stofnun á þennan hátt. En það skaut nokkuð skökku við hjá hv. þm., þegar hann rétt á eftir sagði, að með þessu frv. væri ekkert aukið fé lagt til landbúnaðarins. Hann kann að hafa átt við það, að viðlagasjóður, sem á að renna í ræktunarsjóð samkv. frv., væri hundinn í landbúnaðarlánum hvort sem væri. En þá vil ég benda honum á 3. kafla frv., þar sem beinlínis er gert ráð fyrir, að ríkissjóður greiði vaxtatillag af landbúnaðarlánum. Þar er vitanlega um aukið fjármagn til landbúnaðarins að ræða.

Þá minntist bæði hv. 2. þm. Rang. og hv. landsk. á útdrátt bréfanna í sambandi við lengingu lánstímans í ræktunarsjóði, og talaði hv. 4. landsk. um, að eigendur bréfanna mundu ekki þurfa að þola það, að lánstíminn væri lengdur. Ég vil benda honum á e-lið 10. gr. Þar er beinlínis tekið fram, að eigendur bréfanna skuli einskis í missa. Útdráttur eldri bréfanna á að fara fram á nákvæmlega sama hátt og verið hefir, þó lánstíminn lengist. Auðvitað kostar það Búnaðarbankann nokkra fyrirhöfn að reikna þetta út, — ég skal játa það; en ekki hefi ég trú á, að það sé óframkvæmanlegt, eins og hv. 2. þm. Rang. gaf í skyn. E. t. v. er það rétt, að þetta sé allmiklum erfiðleikum bundið og því gæti verið æskilegra að finna eitthvert einfaldara fyrirkomulag. Það má að sjálfsögðu athuga nánar í n., hvort ekki er hægt að finna einfaldari leið, og skal ég því ekki eyða fleiri orðum um þetta nú. Ég vil aðeins endurtaka það, sem ég sagði í upphafi, að mér sýnist allir kaflar frv. hafa nokkra þýðingu fyrir afkomu landbúnaðarins og að þeir muni létta undir með bændum að standa undir skuldabyrðinni.