19.03.1935
Efri deild: 29. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 752 í B-deild Alþingistíðinda. (1104)

35. mál, fasteignaveðslán landbúnaðarins

Pétur Magnússon:

Ég hefi flutt tvær brtt. við frv., á þskj. 154 og þskj. 157. Brtt. á þskj. 157 er við brtt. hv. 10. landsk. á þskj. 123. Í stað þess, að hann leggur til, að vaxtatillag verði greitt á vexti yfir 4%, legg ég til, að vaxtatillagið sé greitt á vexti fram yfir 41/2%.

Það er ekki þannig, að ég álíti, að landbúnaðurinn geti greitt hærri vexti en 4%, heldur af því, að ég held, að brtt. hv. 10. landsk. nái ekki fram að ganga. Meirihlutaflokkar þingsins munu standa óskiptir á móti henni. Hinsvegar geri ég mér von um, ef farinn er meðalvegurinn, 41/2%, þá telji stjórnarflokkarnir sér fært að fylgja till. Þetta yrðu þá sömu vextir og nú eru greiddir af fasteignaveðslánunum. Það hefir verið greitt vaxtatillag fyrir það, sem farið hefir fram úr 41/2%. Og eins og hv. 10. landsk. hefir vikið að, þá er síður en svo, að hagur bænda hafi batnað, eða sé betri nú en tvö undanfarin ár, svo að þessi brtt. styst við fyllstu nauðsyn.

Þá vil ég víkja örfáum orðum að brtt. á þskj. 154. Í frv. því, sem hér ræðir um, í 6. gr. þess. er gert ráð fyrir fé úr viðlagasjóði, er skuli renna til ræktunarsjóðs. Er þetta gert til þess, að ræktunarsjóður geti lækkað vexti niður í 5% á að gera honum kleift að koma fram þessari vaxtalækkun með því að leggja honum það fé, sem 6. gr. fer fram á. við þetta ákvæði hefi ég gert þá brtt., að féð renni í sérstaka deild innan ræktunarsjóðs, og veiti hún lán einvörðungu leiguliðum á jörðum, sem eru í eign einstakra manna, til kaupa á ábýlisjörðum sínum. Og þessi lán skulu veitt með sömu kjörum og leiguliðar á þjóðjörðum og kirkjujörðum hafa fengið til jarðarkaupa.

Ég ætla ekki að fara út í almennar umr. um það, hvort heppilegri muni sjálfsábúð eða leiguábúð. Allir þeir menn, sem farið hafa um landið með opin augu, hafa rekið sig á, að jarðir í sjálfseignarábúð eru betur setnar en leigujarðirnar. Löggjafarvaldið hefir líka skilið þetta, því að leiguliðar á þjóðjörðum og kirkjujörðum hafa fengið hagstað kjör á lánum til kaupa á býlunum. Hafa þau lán verið gegn 4% vöxtum til 28 ára, og vextir og afborganir til samans verið 6%. Og reynslan hefir sýnt, að það er undantekning, ef þeir menn, sem keypt hafa jarðirnar, hafa ekki komizt klakklaust frá kaupunum.

Nú er ekki síður ástæða til að styrkja þá menn, sem búa á leigujörðum í eign einstakra manna, til þess að geta keypt jarðirnar, heldur en leiguliða á jörðum í eign hins opinbera. Það mætti gera ráð fyrir, að það opinbera væri ekki verri landsdrottinn heldur en einstakir menn. En þessir leiguliðar hafa ekki fram að þessu haft aðstæður til að kaupa ábýlisjarðir sínar, nema þeir hafi sjálfir átt fé til þess. Þau lán, sem fasteignalánsstofnanirnar hafa veitt, hafa verið svo lág, að menn hafa ekki getað keypt fyrir þau.

Ég hefi viljað með brtt. minni bæta úr þessu misrétti. Það er augljóst mál, að þetta fé, sem 6. gr. gerir ráð fyrir, hrekkur skammt í lánaþörfinni. Þó ættu það að vera 7–800 þús. krónur, sem renna til ræktunarsjóðs í þessu skyni, og ef meðalvextir eru 5%, þá ættu vextirnir að vera um 35 þús. kr. á ári. Það hefir ekki verið rannsakað, á hvað mörgum árum lánin eiga að greiðast, en ég geri ráð fyrir, að lánstíminn sé ekki meira að meðaltali en 20–30 ár. Af þessu má það verða ljóst, að það er þó nokkur fjárfúlga, sem kæmi til með að renna í þennan sjóð. Þó að smátt sé af stað farið, gæti hann komið að nokkru haldi, er fram liðu stundir. Ef úr rættist fyrir ríkissjóði, þætti mér ekki ólíklegt, að hann reyndi að styrkja þessa starfsemi frekar. Þó að mér sé fullkomlega ljóst, að hér verður ekki um stórvirki að ræða fyrst í stað, gæti þetta þó orðið nokkur hjálp fyrir menn til að eignast býli sín og á þann hátt orðið lyftistöng fyrir landbúnaðinn. Vildi ég mega vænta þess, að svo framarlega sem hv. þdm. meta það einhvers, að jarðir séu í sjálfsábúð, þá fylgi þeir till. mínum. Ég lít svo á, að ræktunarsjóði væri vel kleift að veita lán með þeim kjörum, sem ég hefi hér lagt til. Nú um áramótin nam sjálfseign hans um 3 millj. króna, að miklu leyti með 6% vöxtum, sem fer niður í 5% vexti samkv. áðurnefndu frv. Eru nú um 600 þús. kr. ávaxtaðar með 5%, en 2,4 millj. með 6%, svo að vaxtahalli ræktunarsjóðs mundi nema 25–30 þús. kr., sem hann er vel fær um að taka á sig, þó því skuli ekki gleyma, að vaxtamöguleikar sjóðsins minnka við þessa vaxtalækkun. Ræktunarsjóður hefir eins og ég hefi áður tekið fram, haft yfir nægilegu fé að ráða til að geta fullnægi eðlilegri eftirspurn, og et það getur haldizt, sem maður vonar, er ekki sérstök ástæða til að bæta við þeirri fjárfúlgu, sem um ræðir í 6. gr. frv., til hinnar venjulegu lánastarfsemi sjóðsins.

Ég vil taka það fram um brtt. hv. 10. landsk. á þskj. 132, að ég tel þær ekki ná tilgangi þeim, sem til er ætlazt og hann hefir lýst, að fyrir sér hafi vakað með flutningi þeirra.