19.03.1935
Efri deild: 29. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 760 í B-deild Alþingistíðinda. (1114)

35. mál, fasteignaveðslán landbúnaðarins

Páll Hermannsson:

Ég vil leiðrétta þann misskilning hjá hv. 10. landsk., að ég hafi gefið það loforð, að verð á landbúnaðarafurðum yrði svo hátt, að lífvænlegt yrði fyrir bændur. Slíkt loforð hefi ég ekki gefið og get ekki gefið, en ég viðurkenndi, að þörfin væri meiri en getan til að bæta úr þörfinni. Ég sagði ennfremur, að útlitið væri þannig, að framtíðin mundi hafa nóg með að bæta úr brýnustu þörfum, en bráðasta þörfin er auðvitað sú, að geta þó lifað.

Um jarðræktarstyrkinn sagði ég, að ég byggist við, að hann væri nálægt 3/4 millj. Það er rétt, að hann er ekki svo hár, en á árinu 1934 mun hann hafa orðið 30 þús. kr. hærri en áætlað var, eða um 600 þús. kr. alls, eftir því sem mér er sagt.

Hv. 10. landsk. benti mér á, að ég hefði fylgt till um, að raflýst yrði á Eiðum, og það er satt. Við hv. 10. landsk. höfum fram að þessu staðið í þeirri trú, að það ætti að láta fólkið hafa fleira en að borða. Annars tek ég þessa bendingu hv. þm. ekki illa upp, hún er réttmæt eins og útlitið er. Það lítur út fyrir, að maður megi nú ekki veita sér nema það, sem þarf til næsta máls.

En í sambandi við rafveituna á Eiðum vil ég segja það, að þótt nú hafi verið samþ. 5000 kr. fjárveiting til þess fyrirtækis, þá get ég sagt honum, að ég er ákaflega hræddur um, að ekkert verði úr því fyrirtæki, en það verður ekki af því, að ég reyni ekki að ýta undir framkvæmd þess fyrirtækis eins og ég get, af því að ég álít, að hún sé nauðsynleg til frambúðar fyrir það fólk, sem þar býr.

Að öðru leyti mun ég ekki eyða tímanum í umr. Ég þarf engar sakir að gera upp við hv. 10. landsk.