27.03.1935
Neðri deild: 39. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 763 í B-deild Alþingistíðinda. (1121)

35. mál, fasteignaveðslán landbúnaðarins

Hannes Jónsson [óyfirl.]:

Ég hefi ekki borið fram brtt. við þetta frv., þó að ég hefði viljað koma með svipaða brtt. við III. kafla eins og kom fram í Ed. En það er sýnilegt, að slíkt næði ekki fram að ganga. Ég vil því ekki tefja málið á þinginu, þar eð það er þó til nokkurra bóta.

Ég hefi þó rekið mig á við yfirlestur frv., að varla verður komizt hjá því að gera dálitla breyt. á 12. gr., í sambandi við niðurfærslu á vöxtum og vaxtakostnaði. í gr. er komizt svo að orði: Í stað „6%“ „5%“ og „6%“ komi: 5%, 41/2 og 5%. En í lögunum er þetta orðað svo: „Árlegt tillag, til að borga kostnað við sjóðinn og til varasjóðs, er 1/2% á ári af upphæð lánsins eins og það var fyrir hvern gjalddaga. Gjald þetta fellur burt, ef vextir þess flokks, sem lánið er veitt úr, eru 6% eða hærri; og ef vextirnir eru milli 51/2 og 6%, færist gjaldið niður hlutfallslega, svo að vextirnir að viðbættu gjaldinu fari ekki fram úr 6%“.

En eftir till. n., ef samþ. verður, hljóðar þessi kafli þannig: „Árlegt tillag, til að borga kostnað við sjóðinn og til varasjóðs, er 1/2% á ári af upphæð lánsins eins og það var fyrir hvern gjalddaga. Gjald þetta fellur burtu, ef vextir þess flokks, sem lánið er veitt úr, eru 5% eða hærri; og ef vextirnir eru milli 41/2% og 5%, færist gjaldið niður hlutfallslega, svo að vextirnir að viðbættu gjaldinu fari ekki fram úr 6%“.

Nú býst ég við, að n. hafi ætlazt til, að þar, sem nefnt er 51/2% og 6%, færist gjaldið niður í 41/2% og 5%. En af því upplagið er tvisvar tekið, þá orðið tæmandi, svo að síðustu 6% standa óhreyfðir. Þetta getur orðið þess valdandi, að þeir, sem hafa vexti með t. d. 4,8 %. verði að borga svo mikið, að vextirnir nemi 5,2–5,3% . En þá verða þeir verr settir en þeir, sem hafa 5% lán. Þetta er engin sök n., en á rót sína í orðalaginu sjálfu, sem er ekkert annað en vitleysa og felst í orðunum „og ef vextirnir eru á milli 51/2%, og 6%, færist gjaldið niður, svo að vextirnir að viðbættu gjaldinu fari ekki fram úr 6%“. Þessi hemill á vitleysuna þurfti því að vera áfram. Ég hefði viljað haga orðum þannig, að í stað 6 % komi 5% og í stað 51/2% komi 41/2%. En hér er tvisvar nefnd 6%, og sýnist eins og það ætti að vera tæmandi, en það er ekki tæmandi.

Ég hefi lítillega talað um þetta við hv. form. landbn., og hefir hann fallizt á þessa skoðun mína, og fannst mér því ekki nauðsynlegt að koma með brtt., en mætti nægja að fá yfirlýsingu um þetta.

Að lokum vildi ég beina þeirri fyrirspurn til hæstv. fjmrh. — vegna þeirrar heimildar, sem frv. veitir um að taka allt að 5 millj. króna lán innanlands eða utan —, hvort það er ekki stefna hæstv. ríkisstj. að forðast að taka utanlands lán, hvort sem er í þessu skyni eða öðru, og hvort ekki sé hæpið, að slíkt lán fáist innanlands. Á þessu vildi ég fá frekari skýringu hjá hæstv. fjmrh. og vænti ég þess fastlega, að hún komi fram annaðhvort nú eða við 3. umr.