27.03.1935
Neðri deild: 39. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 764 í B-deild Alþingistíðinda. (1123)

35. mál, fasteignaveðslán landbúnaðarins

Frsm. (Bjarni Ásgeirsson):

Það er aðeins mjög lítið, sem ég þarf að svara. Ég hygg, að það sé rétt aths. hjá hv. þm. V.-Húnv. Ég hefi ekki athugað það nákvæmlega, en ég býst við, að það þurfi að gera breyt. á þessum lið 12. gr., af því að einu sinni hafi fallið niður 5% og á þann hátt raskazt meiningin, sem í því átti að liggja. Ég hefi samþ. að taka þetta til meðferðar á milli umr., og mun ég bera fram brtt. um þetta við 3. umr., ef ég tel ekki líkur til þess, að það stöðvi framgang frv.

Út af fyrirvara hv. þm. A.-Húnv. vil ég taka það fram, að ég get að mörgu leyti verið sammála þessum hv. þm. um það, sem í fyrirvaranum felst, að þrátt fyrir vaxtaívilnanir þær, sem gefnar eru, munn þær hrökkva fullskammt hjá mörgum bændum. En hinsvegar er það svo, að það vill fara saman, að þegar þörfin er mest knýjandi um styrk og ívilnanir til atvinnuveganna, þá er mest þörf fyrir ríkissjóð til sparnaðar. Þetta tvennt er mjög örðugt að samræma. Þetta er sama atriðið og um var rætt í dag í sambandi við útgerðina. Þegar aðstoðarinnar er mest þörf, þá er geta ríkissjóðs venjulega minnst, og þess vegna verður að fara skemmra en æskilegt væri og þörf er á.