30.03.1935
Neðri deild: 41. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 766 í B-deild Alþingistíðinda. (1128)

35. mál, fasteignaveðslán landbúnaðarins

Gísli Guðmundsson:

Ég verð að segja, að það eru mér nokkur vonbrigði, að hv. landbn. hefir ekki séð sér fært að fallast á brtt. mína. Og ég get ekki, eftir að hafa hlustað á ræðu hv. form. n., fallizt á það, sem hann færði fram því til stuðnings, að ekki væri rétt að samþ. till. Hv. þm. lét svo um mælt og skýrði réttilega frá því, að lánstími til rafstöðva í sveitum væri ákveðinn í reglugerð ræktunarsjóðs 10 ár, og hann vildi halda því fram, að ef sett yrði í lögin eða samþ.brtt., sem ég hefi borið fram, væri lánstíminn alveg bundinn við 20 ár. Ég skil þetta ekki þannig, og ég held, að ákvæðin um lánstímann séu miðuð við hámark, því að svo er tekið fram, að lánstíminn megi vera „allt að“ tilteknu árabili. Ég sé því ekki, að sjóðstjórnin sé endilega bundin við að veita öll lánin til 20 ára.

Ég get tekið það fram, að ég hafði minnzt á það við hv. flm. þessa máls í Ed. og hv. form. landbn. að ég hefði hugsað mér að bera fram till. um, að lánstími til rafveitu í sveitum yrði jafnlangur og til húsabygginga, en eftir samtali við þá féllst ég á að miða við 20 ár. En síðan virðist hv. landbn. hafa fengið upplýsingar um, að rafstöðvar entust ekki nema 15 ár að meðaltali. Ég veit ekki, hvaðan n. hefir fengið þær upplýsingar, en ég skal ekki deila við sérfræðinga um þetta. (BÁ: við fengum þær hjá Jakob Gíslasyni rafmagnsfræðingi ríkisins). En ég veit dæmi þess, að rafstöðvar hafa enzt miklu lengur. Sem milliveg mun ég þó geta sætt mig við, að í stað 20 ár kæmi 15 ár, þó það sé fullseint að gera brtt. við frv. nú. virðist mér hugulsemi landbn. hafa verið heldur takmörkuð, ef hún hefir ætlað sér að breyta þessu ákvæði, en hefir ekki lagt fram neina brtt. í þá átt. Annars verð ég að segja það út af aths. hv. þm. Mýr. um lánstímann, að ekki væri venja að veita lán til lengri tíma en framkvæmdirnar entust, að ég held, að miðað sé við fleiri sjónarmið, og þau ráði e. t. v. eins miklu, og ég hygg, að það sé mjög hæpið, að allar framkvæmdir endist allan lánstímann. En ég hygg, að þetta frv. sé miðað við að vera kreppuhjálp til landbúnaðarins, og séð út frá því, á mín brtt. sama rétt og aðrar aðgerðir í þá átt. Að rafveitur séu óarðbærastar allra framkvæmda, verð ég að draga mjög í efa. Íbúðarhúsin er t. d. varla hægt að telja mjög arðbær, þó að þau séu lífsskilyrði fyrir fólkið, og sama máli gegnir um rafveiturnar.