14.03.1935
Neðri deild: 28. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 771 í B-deild Alþingistíðinda. (1141)

76. mál, flutningur á kartöflum

Jörundur Brynjólfsson [óyfirl.]:

Ég get fullkomlega tekið undir það, sem hv. þm. Mýr. sagði um það, hversu nauðsynlegt það væri að takmarka sem mest innflutning til landsins á erlendum kartöflum. við höfum ekki svo miklum gjaldeyri úr að spila, að við höfum ekki nóg brúk fyrir hann, þó að þessi vara sé þar undanskilin.

Að vissu leyti hagar svo til allvíða á landinu, að hægt er að auka kartöfluframleiðsluna að miklum mun. En eins og það er rétt hjá hv. frsm. landbn., að það megi takmarka innflutning til landsins á kartöflum, þá verður þess þó að gæta, að það leiði ekki til verðlækkunar eða skorts á þessari nauðsynlegu fæðutegund. En það er nauðsynlegt til þess að koma jarðeplaræktinni í betra horf hér á landi, að þá sé af hálfu hins opinbera girt fyrir það — en minna getur það ekki gert —, að erlendum kartöflum sé velt inn á markaðinn í stórum stíl á þeim tíma, þegar verst gegnir fyrir innlenda framleiðendur.

Það hefir sýnt sig, að ekki hefir verið tekið nægilegt tillit til þess, hversu nauðsynlegt það er fyrir þjóðina að búa sem mest að sinn, en þau afskipti, sem hið opinbera hefir haft af þessu máli, hafa frekar orðið til þess að tefja fyrir því, að menn hæfust handa um aukna kartöflurækt, og hefir það verið til mikils tjóns fyrir alþjóð manna.

Þess er getið í 4. gr. frv., að Skipaútgerð ríkisins er skylt að flytja kartöflur fyrir hálft farmgjald milli hafna. Sannarlega er með þessu dregið nokkuð úr þeim kostnaði, sem framleiðendur hafa af því að koma vörunni á markaðsstaðina. Ef linkind er sýnd í þessu efni, þá má hún ekki vera minni en í frv. En mér finnst, að þetta ákvæði nái allt of skammt. Þó að kostnaðurinn sé mikill við að koma kartöflunum með strandferðaskipunum á markaðsstaðina, þá er hann samt miklu meiri við að koma þeim langar leiðir á bílum. Það er nú svo, að beztu héruðin til kartöfluræktar eru Árnessýsla, Rangárvallasýsla og nokkur hluti Skaftafellssýslu, en flutningsgjaldið frá sumum stöðum þar nemur margfalt meiru en því, sem goldið er fyrir flutning með ströndum fram. Ég hygg, að gjaldið fyrir flutning með ströndum fram sé óvíða meira en 3 kr. fyrir tunnuna, en í næstu sveitum við Rvík eru greiddar 4–6 kr. á tunnu fyrir flutninginn til Rvíkur. Þetta er mjög tilfinnanlegur skattur á framleiðendurna, því að svo má heita, að þeim sé oft ókleift að hafa nokkur not af bílunum aðra leiðina. En það, sem bændur verða að borga hér í næstu sveitum til þess að fá bíl heim til sin, eru 50 kr., en þegar lengra frá dregur, 65 eða jafnvel upp í 75 kr.

Nú má það heita svo, að varla sé annars kostur en flytja alla þungavöru landleiðina, vegna stopulla gæfta á sjónum og sífelldra brima og ókyrrleika við ströndina. Ég mun því við 3. umr. flytja brtt. við frv., sem fer í þá átt, að það opinbera taki á einhvern hátt þátt í þessum mikla flutningskostnaði, sem fellur á vöruna við það að koma henni til Reykjavíkur, vona ég, að hv. þdm. og þá ekki síður hv. landbn. sýni það víðsýni að fallast á slíkar ráðstafanir í þessu efni. Svo hagar til hér, að tæplega munu önnur héruð betur fallin til framleiðslu á kartöflum í stórum stíl en sveitirnar hér fyrir austan Hellisheiði. En þeir, sem ráðast í slíka framleiðslu, eiga við marga byrjunarerfiðleika að stríða, þó létt væri undir á þessu sviði. Ég skal svo ekki fjölyrða frekar um þetta á þessu stigi, en tel sjálfsagt, að málið gangi fram, og vænti, að hv. þdm. og landbn. gangi inn á að létta undir með að koma vörunni á markaðinn.