14.03.1935
Neðri deild: 28. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 773 í B-deild Alþingistíðinda. (1143)

76. mál, flutningur á kartöflum

Hannes Jónsson [óyfirl.]:

Milliþinganefndin í afurðasölumálunum hafði þetta mál til meðferðar og lagði fyrir ríkisstj. ákveðnar till. í því. Ég hefi svo verið að grennslast eftir, hvað málinu liði, bæði á þinginu í vetur og nú. Hefi ég átt tal við ýmsa menn um málið og fundið góðan vilja fyrir því að leggja fram frv., sem að gagni kæmi. Hv. frsm. tók svo djúpt í árinni að segja, að það væri skrælingjaháttur að stuðla ekki að því að auka innlendu framleiðsluna og framleiða ekki það, sem hægt er. Þar erum við alveg sammála. En er það gert með frv.? Ég veit, að það er við ýmsa erfiðleika að stríða, og þó fyrst og fremst, að fá þá menn, sem andvígir eru öllum hömlum á innflutningi, til þess að fallast á slíkar ráðstafanir. En því miður eru einmitt aðalerfiðleikarnir þeir, að sannfæra menn um, að það sé skrælingjaháttur að flytja inn vörur, sem við getum framleitt sjálfir. Ég hefði haft mikla tilhneigingu til þess að flytja hér róttækari till. en hér eru bornar fram, en e. t. v. hefðu þær ekki gengið fram, og því betra að færa þetta frv. í það form, að það nái betur tilgangi sínum, en að fitja upp á öðru nýju. Það mun hafa verið föst regla síðustu ár, að gjaldeyrisnefnd veitti ekki innflutnings- eða gjaldeyrisleyfi yfir haustmánuðina og fram að nýjári. Ákvæði 1. gr. um þetta atriði eru því sennilega ekki þýðingarmikil, því ég hygg, að hver ráðh. sem væri gæti haft áhrif í þessu efni án sérstakra l. En ég treysti gjaldeyrisn. til þess að stöðva innflutning, þegar nóg er af innlendum kartöflum á markaðnum, því það er ekki svo lítill gjaldeyrir, sem árlega þarf fyrir kartöflum. Í grg. frv. er sagt, að síðustu árin hafi það verið um 300 þús. kr., en fyrir 2 árum var það 375 þús. kr. árlega. Þetta mun því vera varlega reiknað. Því meiri er þörfin að minnka innflutninginn, en auka framleiðsluna, enda ýms ákvæði frv., sem miða að því, en ég óttast, að það gangi of skammt til þess að auka framleiðsluna nóg.

Í 4. gr. frv. er gert ráð fyrir, að Skipaútgerð ríkisins flytji kartöflurnar fyrir hálft gjald, sem nú mun vera 3 kr. pr. tn. Er þetta að vísu nokkur styrkur, þó það komi ekki að fullum notum eins og hv. 1. þm. Árn. benti á, þyrfti því að gera sérstök ákvæði gagnvart þeim aðilum.

Mér hefir því dottið í hug að benda á, hvort ekki væri tiltækilegt að leggja 1 kr. gjald á hverja kartöflutunnu, sem flutt yrði inn í landið, og styrkja með því innlenda framleiðslu, á hvern hátt sem það svo yrði notað, hvort heldur til aðstoðar við geymslu, flutning eða annað. Einnig gæti komið til mála að úthluta aukastyrk til þess að auka ræktun á þessu sviði. Þetta getur vitanlega orðið nokkurt álitamál.

Ég hefði óskað, að hv. landbn. tæki þetta til athugunar, og vildi ég gjarnan eiga tal við hana um þetta efni. Og þó ég sé yfirleitt ekki neinn aðdáandi einkasölu, hefi ég áður látið í ljós þá skoðun, að þegar um þær vörur er að ræða, sem hægt er að framleiða í landinu, sé þó helzt forsvaranlegt að gripa til einkasölu til þess að efla framleiðsluna. Þó hefði ég óskað, að þeir, sem úthluta innflutningsleyfum, kynntu sér rækilega, hvað til er í landinu sjálfu, og jafnvel að leyfin væru veitt í einhverjum hlutföllum við það, sem leyfisbeiðandi selur af innlendum vörum. Mér hefir fundizt eftir því sem ég hefi kynnzt þessum málum, að kaupmenn ekki kynna sér eins og skyldi, hvað til er af íslenzkri framleiðslu. En ef innflutningsleyfin væru í ákveðnu hlutfalli við það, sem selt væri af innlendri framleiðslu, mundu allir reyna að selja sem mest af henni, og þannig auka eftirspurnina. Ég hygg, að það gæti orðið til mikilla bóta að herða á þessu ákvæði, því þá mundi einnig lagast annað vandamál, sem sé geymslan á kartöflunum. Ef innflutningur á kartöflum hyrfi, mundi losna húsrúm, sem nægði til þess að taka alla framleiðslu ársins á markaðinn. Mér finnst hv. landbn. óþarflega óttaslegin yfir því, að verðið fari upp úr öllu valdi, þó innflutningurinn sé takmarkaður, því á slíku virðist alls ekki hafa borið. Finnst mér því, að síðari málsl. í fyrri málsgr. 1. gr. mætti falla niður.

Ég vildi óska, að hv. landbn. athugaði þetta vandlega. En þó þetta frv. sé ekki nema byrjun, ætti að mega endurbæta það síðar, svo að það takmark náist, sem stefna verður að, að ekki þurfi að flytja inn kartöflur eða aðra garðávexti.

Ég hefi hugsað mér að flytja við 3. umr. breyt. í samræmi við það, sem ég nú hefi sagt, en æskilegast væri, að hv. landbn. flytti þær sjálf.