14.03.1935
Neðri deild: 28. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 776 í B-deild Alþingistíðinda. (1145)

76. mál, flutningur á kartöflum

Jóhann Jósefsson [óyfirl.]:

Þetta mál er nú flutt með allt öðru fyrirkomulagi ég það áður hefir verið flutt hér af hinum sömu aðiljum, sem ég hygg, að muni standa að flutningi þessa frv. Það er ekki lengra síðan en eitt eða tvö ár, að frv., sem gekk í þá átt að banna innflutning á kartöflum — með vissum skilyrðum þó —, var flutt í hv. Ed. með þeim rökstuðningi, að það væri engan veginn tímabært, á meðan hagskýrslur sýndu, að innflutningur á kartöflum væri svo mikill eins og hann hefir undanfarið verið, að banna innflutning á þessari mjög svo hollu fæðutegund.

Nú hefir hv. 6. þm. Reykv. að vísu tekið fram margt af því, sem ég hefi við þetta frv. að athuga í principinu, sem sé skrefið, sem með því er ætlað að stíga í áttina til þess að torvelda almenningi í landinu að geta ávallt haft nægilega mikið af þessari mjög svo hollu og nauðsynlegu fæðutegund, ef til vill þeirri allra nauðsynlegustu, sem borin er á borð. Ég vil þess vegna ekki fara að endurtaka það, sem hv. 6. þm. Reykv. sagði. Mér virtust andmæli hans gegn þessu frv. vera mjög frá mínu brjósti töluð. En ég vil bæta því við, að þetta frv., sem hér er á ferð, sem ræðir um einlægar heimildir handa landbrh., það felur í sér sáralitla tryggingu fyrir því, að þær ráðstafanir, sem hæstv. landbrh. kynni að gera, yrðu ekki neytendum til óhagræðis í þessu efni. Þess verður að gæta, að fólkið, sem lifir við sjóinn, þarf meiri hl. ársins. þ. e. aðra tíma en að haustinu og fyrri hl. vetrar, á innfluttum kartöflum að halda. Ef innflutningur er þá ekki leyfður á þeim, þegar íslenzkar kartöflur eru ekki fáanlegar, þá verður fólkið alveg að vera án þessarar nauðsynjavöru. Og að gera ráðstafanir, sem miða að því, álít ég hið mesta óráð.

Hv. þm. V.-Húnv. lét í ljós, að þetta frv., sem fyrir liggur, væri mjög veigalítið, og taldi hann þörf á miklu sterkari ákvæðum um þetta efni. Ég get sérlega vel skilið það, að þessi hv. þm. verði ekki uppnæmur fyrir frv., sem hefir það inni að halda að heimila landbrh. að gera það, sem hann, hv. þm. V.-Húnv., og aðrir í innflutningsn. hafa leyft sér að gera, án þess að hafa neinar sérstakar heimildir til þess frá ríkisstj. eða þingi, sem sé að takmarka innflutning á kartöflum fyrri part vetrar, á meðan þær eru nægar til í landinu. Það er ósköp eðlilegt, að hann áliti, að ekki sé beinlínis þörf á að setja Alþ. í hreyfingu til þess að koma með svona heimildir. Ég er sem neytandi líka samþykkur þeim ráðstofunum, sem hv. þm. V.-Húnv. lýsti yfir, að innflutningsn. hefði gert, að leyfa ekki innflutning á kartöflum um uppskerutíma þeirra hér og á þeim tíma, þegar vitað er, að nægilegt af innlendum kartöflum er til í landinu, og ég álít, að innflutningsn. eigi að vera alveg óátalin af slíkum ráðstöfunum. Út frá þessu sjónarmiði er það alveg eðlilegt, að hv. þm. V.-Húnv. léti sér fátt um finnast þessa 1. gr. frv., sem að vísu af hálfu flm. er skoðuð aðalgrein þess.

Á útmánuðum og að vorinu og sumrinu og jafnvel fram á haust er varla um að raða íslenzkar kartöflur til neyzlu, þær er ætar séu, og verður því á þeim tíma að leyfa innflutning á kartöflum.

Þeim, sem þekkja forsögu þessa máls hér á þingi og hversu geyst sumir, sem standa að þessu máli, hafa stefnt að því að koma hér á hreinu og beinu banni á innflutningi kartaflna eða a. m. k. að leggja allt úrskurðarvald í þeim efnum í hendur annara aðilja, þ. e. a. s. framleiðenda á kartöflum og fulltrúa Búnaðarfél. Íslands — þeim, sem þekkja þessa forsögu málsins, dylst vitanlega ekki, hvert stefnt er með þessu frekar loðna orðalagi frv. Þess verður mjög vel að gæta, ef takmarkaður eða hannaður er innflutningur á kartöflum, að neytendur geti fengið innlendar kartöflur með bærilegu móti.

Í 2. mgr. 1. gr. frv. er talað um að verðlauna þá menn, sem undanfarin ár hafa verzlað með innlendar kartöflur. Ég veit ekki, hvar á að finna þá menn í verzlunarstétt, því að venjulega kaupa neytendur beint af kartöfluframleiðendum. Og það er ekki vitanlegt, að Búnaðarfélag Íslands og þess vitru ráðunautar hafi gert nokkurn skapaðan hlut til þess að benda mönnum úti um land á að kaupa þær kartöflur, sem þeir hafa þurft að kaupa, beint frá bændum eða góðum kartöfluræktunarstöðum, t. d. Akranesi, eða að greiða fyrir slíkum viðskiptum. Það mætti óefað teljast heppilegt, að Búnaðarfél. Ísl. og búnaðarforkólfar gerðu eitthvað verulegt til þess að koma þessum samböndum á með ráðstöfunum, sem tryggðu, að innlendar kartöflur væru ávallt fyrirliggjandi á góðum höfnum, þar sem grípa mætti til þeirra þegar þörf gerðist. En slíkar ráðstafanir hefir til þessa algerlega vantað. En svo er horfið að hinum kostinum, að láta þingið gera þvingunarráðstafanir til þess að reyna að kippa þessu í lag. Ég hygg, að hin leiðin hefði verið heppilegri, að skapa skilyrði fyrir því, að þessi innlenda framleiðsla hefði sömu eða betri aðstöðu í innlendum markaði en hin útlenda, enda þótt þetta frv. stefni ekki eins opinskátt í þvingunarátt eins og fyrri frv. um þetta efni.

Í frv. þessu er ekkert ákvæði, sem tryggir hag neytenda. Það er að vísu talað um það hér, að innflutningshöftunum skuli ekki beita svo, að verðið hækki verulega á kartöflum til neyzlu í landinu. En hver á að meta það, hvenær slík hækkun er veruleg eða óveruleg?

Ég get í þessu sambandi bent á, að Alþ. hefir með sérstökum ráðstöfunum bannað innflutning á niðursoðinni mjólk og beint allri verzlun með niðursoðna mjólk í hendur eins framleiðslufyrirtækis, eins og nú standa sakir. Við því væri í sjálfu sér ekkert að segja, ef um leið hefðu verið gerðar þær ráðstafanir, sem sanngjarnar verða að teljast, að mjólkin yrði ekki fyrir það óhæfilega dýr, samanborið við þá mjólk, sem hægt hefði verið að hafa á markaðinum, ef innflutningur á vörunni hefði verið frjáls. En annaðhvort hefir þinginu láðst, þegar það innleiddi innflutningsbannið á niðursoðinni mjólk, að setja verðlagsákvæði í l., eða þá, sem sízt er betra, að ef slík ákvæði eru í l., þá hefir alveg verið vanrækt að framkvæma þau. Nú ætla ég, að heildsöluverð á innlendri niðursoðinni mjólk muni vera sem næst 24,50 kr. kassinn, ef keyptir eru 5–6 kassar í einu, en verðið geti farið niður í 22,80 kr. kassinn, ef keyptir eru 25 kassar í einu. Ég held, að óhætt megi fullyrða, að það sé mikill verðmunur í hvoru fyrrnefnda tilfellinu, sem er, á innlendu niðursoðnu mjólkinni og hinni útlendu, sem sú síðartalda er ódýrari, þótt sambærileg sé við þá innlendu. (PO: Nei, hún er lakari vara). Hv. þm. Borgf. segir, að útlenda mjólkin sé lakari vara, en ég vil þrátt fyrir það ekki taka það sem sannreynt, að öll útlend niðursoðin mjólk sé lakari en hin innlenda. Og ef hægt er að fá útlenda mjólk fyrir 7–8 kr. minna verð kassann. þá er þessi innlenda framleiðsla sannarlega of dýru verði keypt. Ég bendi á þetta í sambandi við þá vörutegund, sem um er að ræða í þessu frv., því að með innflutningshömlum þeim, sem frv. gerir ráð fyrir, getur stefnt alveg í sömu átt og ég hefi lýst, að gengið hefir um niðursoðnu mjólkina.

Þær aths., sem ég hefi fært hér fram, vil ég þó ekki, að verði teknar þannig, að ég vilji ekki, að framleiðsla á innlendum kartöflum aukist og að neyzla á kartöflum aukist, heldur er ég aðeins ósammála flm. þessa frv. um leiðirnar til þess að auka neyzlu innlendra kartaflna. Ég álít miklu réttara að hverfa að öðrum hjálparmeðulum í þessu efni, sem að sumu leyti eru nefnd í frv. og hv. 1. þm. Árn. og hv. 6. þm. Reykv. viku að. Það er vitanlegt, að flutningur kartaflna á landi er ákaflega dýr, sennilega dýrari en á sjó. Því vil ég greiða fyrir, að innlenda kartöfluframleiðslan geti keppt við þá útlendu um íslenzka markaðinn. Það þarf að skapa skilyrði fyrir því, að hægt sé að flytja vöruna milli landshluta gegn nokkurn veginn sanngjörnu gjaldi. Næst því, að varan sé góð, þá er þetta tryggasta undirstaða undir því, að þessi framleiðsluvara landsmanna nái fótfestu á innlenda markaðinum, og á að geta, alveg á eðlilegan hátt, útrýmt innflutningi og neyzlu á útlendum kartöflum. Þetta mundi þá koma smátt og smátt, öllum landsmönnum til geðs og öllum til þæginda. En ekkert má í þessu efni gera, sem bersýnilega stefnir að því að gera þessa mjög nauðsynlegu fæðutegund dýrari á borðum manna en hún þarf að vera. En eins og ég þegar hefi sýnt fram á, er í frv. þessu engin trygging fyrir því, að svo geti ekki farið, ef það verður samþ. Og ég vil fyrir mitt leyti geyma mér rétt til þess, þó að ég greiði þessu máli atkv. til 3. umr., að koma fram með brtt. við frv. við þá umr., sem miði til þess að tryggja rétt neytenda að einhverju leyti, um leið og hagur framleiðenda á að vera hér með tryggður. Mér virðist, að þeirri hlið þessa máls, sem að neytendum snýr, hafi verið minni gaumur gefinn af hv. flm. þessa frv. En hér er um svo mjög nauðsynlega fæðutegund að ræða, að hæstv. Alþ. verður að sjá til þess, að þegar slíkar ráðstafanir eru gerðar, sem hér er um að ræða, þá sé það einnig tryggt, að varan geti ekki orðið óeðlilega dýr.