14.03.1935
Neðri deild: 28. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 779 í B-deild Alþingistíðinda. (1146)

76. mál, flutningur á kartöflum

Guðbrandur Ísberg [óyfirl.]:

Það hefir verið drepið á það nú í umr. og einnig tekið fram í grg. frv., að nú er þannig ástatt, að við flytjum árlega inn kartöflur fyrir um 300 þús. kr. Jafnframt er það vitað, að afarauðvelt er, ef kapp er á það lagt, að framleiða þetta kartöflumagn í landinu sjálfu, fram yfir það, sem nú er hér ræktað af kartöflum, og þar með að spara þann gjaldeyri, sem fer til þessara kartöflukaupa.

Frv. þetta, sem flutt er af hv. landbn. og sú n. var alveg sammála um að flytja, ber að skoða sem spor í þá átt að ýta undir með kartöfluframleiðslu í landinu, og beint með það fyrir augum, að til þess geti komið sem fyrst, að við framleiðum nóg af þessari vöru til neyzlu handa öllum landsmönnum. Til þess að ná þessu takmarki eru aðallega 4 ákvæði sett í frv., sem ég vil benda á.

Hið fyrsta er heimildarákvæðið um að takmarka eða banna innflutning á erlendum kartöflum á þeim tíma, þegar nægilegt er til af innlendum kartöflum í landinu. Enn sem komið er hefir það ekki verið nema um uppskerutímann og fyrri hl. vetrar. Með tilliti til ræðu hv. þm. Vestm. vil ég benda á það, að það er aðeins um þennan tíma, sem komið getur til mála, að núv. ástæðum óbreyttum í þessu efni, að banna innflutning á kartöflum. En að gerð sé till. um að banna innflutning þessarar vöru síðari hl. vetrar eða að vorinu og sumrinu, á meðan kartöflurækt okkar er á því stigi sem hún er, það er algerður misskilningur.

Í öðru lagi er í 2. lið 1. gr. frv. ákvæði, sem á að vera tilraun til þess að ýta undir það, að þeir, sem verzla með kartöflur hér á landi, leggi sig fram til þess að koma út íslenzkum kartöflum.

Í þriðja lagi gerir frv. ráð fyrir, að gefin verði út reglugerð um það, hvaða skilyrðum íslenzkar kartöflur skuli fullnægja til þess að geta talizt markaðshæfar, og í annan stað, að allar kartöflur, sem afgr. eru til sölu, nema beint til neytenda, skuli merktar upprunamerki. Það er vitanlega engin þörf á slíku merki, ef kartöflur eru seldar beint frá framleiðanda til neytanda.

Í fjórða lagi er í frv. till. um það, að Skipaútgerð ríkisins flytji kartöflur hafna á milli innanlands fyrir hálft það gjald, sem þær eru fluttar fyrir nú samkv. taxta Skipaútgerðarinnar. Ég hygg, að þetta gjald sé nú, eða a. m. k. var það til skamms tíma, 3 kr. fyrir tunnu. Mér er nú sagt, að það sé 2,50 kr. á tunnu; veit ég ekki, hvort réttara er, enda skiptir það ekki miklu máli. En það, sem máli skiptir hér, er, að till. er um, að þetta gjald lækki um helming. Mér er kunnugt um, að ríkisskip hefir flutt talsvert stórt partí af kartöflum frá einni höfn fyrir eina kr. tunnuna. Það virðist ekki nema sanngjarnt að setja slíkt ákvæði um lækkun þessa flutningsgjalds, þegar með því eru gerðar ráðstafanir til þess, að ríkisskipin sitji fyrir svona þægilegum flutningi að haustinu, því að þá verður flutningur íslenzkra kartaflna að fara fram, en getur ekki farið fram að vetrinum. Og fáir framleiðendur munu geta geymt kartöfluuppskeru sína til vors, sem þeir ætla að selja.

Út af flutningskostnaði á kartöflum var hér á það minnzt af hv. 1. þm. Árn., að sanngjarnt vari, að héruðin austan Hellisheiðar fengju einhvern styrk til slíkra flutninga. Ég vil í þessu sambandi benda á það, að þó að flutningsgjald þessarar vöru með skipum lækki eins og hér er ráð fyrir gert, niður í 1,25 eða 1,50 kr. á tunnu, þá er flutningskostnaðurinn ekki allur þar, hér við bætist bæði framskipun og uppskipun. Framskipunarkostnaður getur orðið býsna mikill. T. d. kostar framskipun á Blönduósi 1,80 kr. á tunnuna. En Húnavatnssýsla er vel fallin til kartöfluræktunar. Þó að ekki sé gengið út frá svona háum aukagjöldum, sem bætast við flutningsgjaldið á sjó, þá er þó alltaf óhætt að gera ráð fyrir svo mikilli viðbót við það gjald, að flutningsgjaldið á sjó og annar flutningskostnaður verði ekki minni en 2,50 kr. alls fyrir hverja tunnu.

Nú vil ég, áður en ég tek afstöðu til þess, hvort rétt sé að styrkja flutninga á kartöflum austan úr Árnessýslu og Rangárvallasýslu, fá upplýsingar um, hvort það þarf að kosta meira en þetta, 2,50 kr. á tunnu, að flytja kartöflur þaðan. Ég veit, að nú er farið að nota bíla, sem flytja 3 tonn. Og ef flutt er mikið í akkorði austan úr Árnessýslu eða austan frá Markarfljóti og hingað, 100–130 km. vegalengd, þá er ég ekki viss um, að flutningskostnaðurinn þurfi að vera meiri en 25 kr. — gæti ef til vill orðið minni — á hvert tonn. Það má náttúrlega segja, að bændur þurfi að flytja kartöflurnar að veginum, en svo er það og um bændur, sem senda með skipum, að þeir verða að flytja kartöflurnar til hafnar.

Landbn. var sammála um, að æskilegt væri, að við Íslendingar gætum sem fyrst náð því takmarki að framleiða allar þær kartöflur, sem við þurfum að nota. Hinsvegar kemur það greinilega fram í frv., að ekki er ætlazt til þess, að þær ráðstafanir, sem þar eru annars gerðar til þess að ýta undir þetta, verði til þess að hækka kartöflurnar verulega í verði. Við vitum það vel, að kartöflur á erlendum markaði eru miklu ódýrari en innlendar kartöflur, sem seldar eru hér. Enda hafa erlendar kartöflur venjulega verið ódýrari á innlendum markaði heldur en íslenzkar kartöflur, en mörgum þykja þær íslenzku betri, svo að því leyti, sem um betri vöru er að ræða, væri hækkun á þessum kartöflum að vísu ekki ósanngjörn, en hinsvegar er ekki hægt að sætta sig við, frá sjónarmiði neytendanna, að þær ráðstafanir verði gerðar, sem yrðu til þess að hækka verð íslenzkra kartaflna að verulegum mun. Það hefir verið fundið að því, að þetta orð „verulega“ væri nokkuð teygjanlegt, en það er vitanlega nokkurt aðhald fyrir neytendur að hafa tækifæri til þess að gera sínar kröfur gildandi og láta til sín heyra, m. a. á hv. Alþ. Íslendinga. Mér fannst þess gæta nokkuð, a. m. k. hjá einum af ræðumönnum, sem um þetta mál hafa talað, að hann væri ekki allskostar ánægður með sum ákvæði þessa frv., sérstaklega þetta ákvæði, sem ég er nýbúinn að drepa á, og fannst honum ekkert við það að athuga. Þótt kartöflurnar hækkuðu í verði til muna. Ég er þessu mótfallinn. Þessi hv. þm. sló því föstu, að fyrir kartöflurnar yrði a. m. k. að fást framleiðsluverð. Hér kemur enn mjög teygjanlegt hugtak. Hvað er framleiðsluverð, og hvað þarf að vera framleiðsluverð? í þessu sambandi vil ég benda á það, að í Danmörku mun ekki fást meira fyrir kartöflurnar en 5–6 kr. og jafnvel 4 kr. Þetta er það verð, sem þar er framleitt fyrir. Með þeim hjálparmeðulum, sem við höfum í þessu efni, einkum útlendum áburði, mun í beztu kartöfluhéruðum landsins vera hægt að ná fram undir það sama árangri og sumstaðar í Danmörku. (PO: Nei!). Það þarf ef til vill að nota meiru af útlendum áburði, en við fengjum svipaða uppskeru.

Nú er það kunnara en frá þurfi að segja, að víðast hvar hér á landi eru kartöflur ræktaðar með mjög seinfærum og dýrum aðferðum, svo að það nær vitanlega engri átt að miða verð kartaflnanna við þær aðferðir. Til þess að hægt yrði að miða við framleiðsluaðferðir á ræktun kartaflna hér á landi, þyrftu þær að verða langtum ódýrari og stórtækari. Þetta framleiðsluverð er því mjög teygjanlegt, og að sjálfsögðu má ekki miða við hæsta framleiðsluverð á kartöflum hér á landi, því að það má kaupa innlenda framleiðslu of dýru verði, og vera má, að kartöfluverðið sé miðað við framleiðsluverðið þar, sem það er mest.

Hv. 6. þm. Reykv. vildi slá því föstu, að aldrei hefði borið á örðugleikum við sölu á innlendum kartöflum. Þetta er alls ekki rétt.

Bændur, sem flytja kartöflur á Reykjavíkurmarkaðinn, hafa sagt mér, að það gangi oft illa að selja vöruna, og það er skiljanlegt, þegar tekið er tillit til þess, hve mikill verðmunur er á erlendum og innlendum kartöflum; jafnvel þótt innlenda framleiðslan sé boðin fram með venjulegu markaðsverði á staðnum, geta þeir, sem flytja inn kartöflur, lækkað verðið á erlendum kartöflum, því að þær eru svo ódýrar í innkaupum. Þetta getur að vísu komið bændum að dálitlum notum í bili, en vitanlega ekki nema rétt á meðan þetta framboð stendur yfir, og svo hefir reynslan venjulega orðið sú, að erlenda framleiðslan hefir hækkað aftur.

Frv. það, sem hér liggur fyrir, á fyrst og fremst að hamla á móti því, að inn séu fluttar erlendar kartöflur meðan innlendar kartöflur eru á boðstólum, framan af hausti.

Það hefir verið fundið að því af ýmsum hv. ræðumönnum, sem talað hafa um þetta mál, að hér væri ekki greitt hagsmuna framleiðenda eins og þyrfti, og í því sambandi var bent á annað frv., sem var hér áður á ferðinni, þar sem miklu lengra var gengið í þessa átt.

Ég er hér á þingi aðallega sem umboðsmaður neytenda, og þess vegna hefi ég séð mér fært að ganga svona langt sem hér er gert, en heldur ekki lengra, verði sú breyt. gerð á þessu frv., að meir verði gengið á hlut neytenda en hér er gert, þá mun ég greiða atkvæði á móti þeirri breyt. Mín afstaða markast með þessu frv. Ég get gengið svona langt, en alls ekki lengra. Ég treysti mér til þess að standa fyrir máli mínu gagnvart umbjóðendum mínum, og með hliðsjón af sparnaði í gjaldeyri fyrir landsmenn get ég gengið inn á þessa leið, sem ég tel fullkomlega heilbrigða, en þar með er ekki sagt, að ég geti gengið lengra í þessu efni.