14.03.1935
Neðri deild: 28. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 782 í B-deild Alþingistíðinda. (1147)

76. mál, flutningur á kartöflum

Frsm. (Bjarni Ásgeirsson) [óyfirl.]:

Ég get ekki látið hjá líða að svara nokkrum orðum þeim hv. þm., sem komið hafa fram með andmæli gegn frv., enda þótt ég eigi örðugt með það, því að ég er með einskonar kartöflur í hálsinum.

Þegar landbn. gekk frá þessu frv., þá gerði hún það með tilliti til þess, að það yrði þannig úr garði gert, að sem almennast fylgi fengist með því, án þess að sá megintilgangur og það aðalatriði, sem fyrir n. vakti, að hlynna að kartöfluræktinni í landinu, yrði fyrir borð borið, því ef koma á þessum lögum eða öðrum í gegn á þessu þingi, þá verður að sigla milli skers og báru, og þess vegna hefir þetta mál verið sett fram í því formi, sem það kemur fram í í þessu frv., sem hér liggur fyrir. Umr. hér um þetta mál hafa sýnt, að okkur hefir tekizt þetta.

Fyrir utan nm. hafa talað hér þrír hv. þm. um málið og hafa helzt fundið þessu frv. það til foráttu, að það næði of skammt til þess að tryggja þennan tilgang frv., sem ég drap á áðan. Tveir hv. þm. hafa talað hér, sem fundizt hefir, að of langt væri gengið með frv. Þetta sýnir, að við höfum farið bil beggja, og vona ég, að einmitt það, að reynt hefir verið að fara meðalveginn í þessu efni, verði til þess að tryggja málinu framgang, og það sem allra fyrst.

Ég vil taka það fram við hv. þm., sem yfirleitt hafa talað um málið af skilningi og vinsemd, en óskað einhverra breyt. á því, að við nm. erum fúsir á að eiga viðtal við þá fyrir 3. umr. málsins, svo að brtt. og málið sjálft dreifist ekki þannig, að það renni út í sandinn.

Skal ég svo minnast dálítið á það, sem einstakir hv. þm. hafa haft við þetta frv. að athuga. — Fyrst vil ég þá víkja nokkrum orðum að hv. 1. þm. Árn., sem talaði með málinu í öllum höfuðatriðum, en fannst það á skorta, að ekki væri nógu vel séð fyrir því, að létt væri undir með flutningi á kartöflum hjá þeim mönnum, sem eingöngu verða að sætta sig við landflutninga. Fannst honum, að þeirra hagsmunir væru fyrir borð bornir móts við hina, sem flutt geta kartöflur með ströndum fram. Viðvíkjandi þessu vil ég taka það fram, að eftir þeim upplýsingum, sem fyrir n. lágu í þessu efni, virðist henni hér vera farið sem sanngjarnast í hlutina og að sá réttur, sem þeim er ætlaður, er kartöflur flytja með skipum, væri ekki meiri en það, að þeir stæðu á eftir nokkurn veginn jafnfætis þeim, sem flytja kartöflurnar landveg á aðalmarkaðsstaði landsins. Það má vera, að okkur hafi yfirsést að einhverju leyti í þessu efni, og erum við reiðubúnir til þess að ræða málið við hv. þm.

Þá talaði hv. þm. Borgf. einnig vingjarnlega um málið, en fannst of skammt gengið til stuðnings við framleiðendur. Hann vildi m. a., að heimildinni, sem 1. gr. frv. gerir ráð fyrir, væri breytt í skyldu til þess að banna innflutning á kartöflum á þeim tíma, sem þar um ræðir. Ég býst við, að í þessu tilfelli geti þetta komið nokkuð í sama stað niður. Ég ber það traust til innflutningsn. og hæstv. landbrh., sem eiga að hafa yfirstjórn þessara mála með höndum, að ekki skorti skilning á þýðingu þess, að ekki sé farið að eyða hinum litla gjaldeyri landsins um of, og um leið og reynt er að styrkja innlenda framleiðslu. eins og gert er ráð fyrir með frv. þessu, verði gerðar gyllingar til þess að flytja inn meira af kartöflum en þörf krefur. Vitanlega verður að stilla þessu svo í hóf, að hægt sé að leyfa innflutning á kartöflum, ef svo skyldi vilja til, að innlenda kartöfluframleiðslan brygðist eða önnur óhöpp kæmu fyrir, svo að hún væri ekki fær um að veita nógu miklu af þessari vöru til neytenda í landinu. Þótt þessari heimild væri breytt í skyldu, held ég ekki, að aðalatriði frv. mundi breytast nokkuð frá því, sem nú er. Hv. þm. fann að því, að ef í 1. gr. frv. skyldi vera gert ráð fyrir því, að með innflutningsleyfum skyldu vera settar innflutningshömlur á kartöflur, þá yrðu kartöflur ekki hækkaðar verulega í verði frá því sem nú er. Ef hv. þm. hefir lesið 1. gr. frv., þá skil ég ekki, að hann geti í einlægni komizt að þeirri niðurstöðu, að hér sé stefnt að verðlækkun á kartöflum. Hinsvegar vil ég taka það fram, að séð verður um, að verðlagið hækki ekki að verulegu leyti. Það er engum til góðs, að verðið hækki svo, að það dragi úr neyzlunni á þessari vöru.

Þá vil ég víkja nokkrum orðum að hv. þm. V.-Húnv., sem talaði vel um málið. Hann fann þessu frv. það þó til foráttu, að það væri ekki nógu róttækt, og get ég tekið undir það með hv. þm., að ég fyrir mitt leyti hefði einnig kosið, að frv. hefði verið róttækara en raun ber vitni um. En aðalatriðið er, að eitthvað verði gert, og þess vegna gekk ég inn á frv. eins og það er, og vona ég, að það geti orðið að góðu liði, ef það verður að lögum. Þá minntist hv. þm. á, að það væri skammt farið í áætlun n., þar sem gert er ráð fyrir því, að fluttar séu inn kartöflur fyrir 300 þús. kr. árlega. Það er rétt hjá hv. þm., að stundum hefir upphæðin verið hærri, en sum árin hefir hún aftur á móti farið niður fyrir 300 þús. kr. Þess vegna orðaði n. þetta þannig. Þetta er mikið fé, sem sjálfsagt er að reyna að losna við að greiða út úr landinu — ekki sízt þegar tekið er tillit til þeirra örðugu tíma, sem við lifum nú á —, en auk þess er hér um mikla vinnu að ræða, sem vel gæti verið atvinnubót. Þá drap hv. þm. á það, að vel gæti það komið til mála, að lagt yrði aðflutningsgjald á erlendar kartöflur, sem til landsins flytjast, til þess að greiða fyrir framleiðslu á innlendum kartöflum. Það er rétt, að það gæti komið til mála, en sá stuðningur gæti orðið endasleppur, og ætti helzt að vera það, því að vitanlega ber að stefna að því, að sem fyrst verði komið upp nauðsynlegri innlendri kartöfluframleiðslu.

Þá kem ég að hv. 6. þm. Reykv., sem fyrstur andmælti þessu máli. Hann vildi halda því fram, að það vantaði undirstöðuna undir þetta frv. Hv. þm. áleit, að engar sannanir væru fyrir því, að ekki væri unnt að selja nógu mikið af íslenzkum kartöflum á markaðinum. Þessi skoðun hv. þm. stafar aðeins af því, að hann hefir ekki fylgzt nóg með verzlun á þessari vöru undanfarið.

Ég hefi aflað mér talsverðrar reynslu í þessu efni, bæði frá sjálfum mér og öðrum, og eftir þeim upplýsingum að dæma, sem ég hefi fengið hjá ýmsum framleiðendum þessu viðvíkjandi, þá kemur það oft fyrir á haustin, að þótt nóg sé til af íslenzkum kartöflum á markaðinum, þá er ekki hægt að koma þeim út fyrir sama verð og útlendum kartöflum, einmitt vegna þess, að aðstaða þeirra, sem selja útlendar kartöflur, er miklu betri til að ná valdi á markaðinum heldur en innlendu framleiðendurnir eru fyrir um að gera. Innlendir framleiðendur þurfa að koma allri vöru sinni út á sama tíma, og það verður til þess, að kaupendurnir þurfa að hafa miklar geymslur, en þeir, sem flytja inn útlendar kartöflur, geta fengið þær sendar smátt og smátt með skipunum. Það er áhættuminna að verzla með útlendar kartöflur en innlendar, en það verður alltaf gert, ef dyrnar eru hafðar opnar fyrir útlendum kartöflum, því að það er ekki verðið eitt, sem úr sker, heldur aðstöðumunurinn og þægindin við að verzla með útlendar kartöflur. Við þessu verður að tryggja það, að innanlandsmarkaðurinn á hverjum tíma sé ætlaður innlendri framleiðslu.

Hv. þm. er hræddur um, að ef kartöflurnar hækkuðu í verði til muna, þá yrði það til þess að draga úr neyzlunni. Mér skildist hv. þm. óttast, að þetta frv. gæti orðið til þess, að kartöflurnar hækkuðu í verði. Eins og kunnugt er, þá er það tilgangur 1. gr. frv. að sjá um, að verðinn sé svo í hóf stillt, að það þurfi ekki að draga úr kartöfluneyzlunni. Þessvegna er ég sannfærður um, að það borgar sig víðast hvar á landinu að framleiða kartöflur með því gangverði, sem verið hefir á innlendum og erlendum kartöflum. Það þarf aðeins að tryggja það, að innlendar kartöflur hafi forréttindi fram yfir þær útlendu, jafnvel þótt verðið sé það sama.

Bæði þessi hv. þm. og hv. þm. Vestm. sögðu, að þeir teldu það vera aðalatriði þessa máls, að greitt yrði fyrir kartöfluflutningum innanlands. En það er ekki nóg, þótt hægt sé að flytja kartöflurnar um landið, ef ekki er hægt að selja þær á markaðinum. Ég hefi haust eftir haust átt tal við bændur um þetta atriði, og þeir segjast geta selt, vilja og þurfa að selja svo og svo margar tunnur, en þeir koma þeim ekki út, því að það er svo mikið af útlendum kartöflum á markaðinum, sem menn vilja heldur kaupa. Menn vilja aðeins kaupa nokkra poka, en bændurnir þurfa að selja allt saman. Svo verða þeir að sitja með mestallar kartöflurnar allan veturinn og verða loks að nota mikið af þeim fyrir skepnufóður, sem er vitanlega allt of dýrt, á sama tíma, sem við flytjum inn útlendar kartöflur á innlendan markað.

Hv. þm. fannst fjarstæða að tala um skrælingjahátt í sambandi við það, að við ættum að rækta nóg af kartöflum fyrir okkur sjálfa. Hann hélt því fram, að vitanlega væri það fjarstæða, að við gætum framleitt allt, sem við þyrftum með, og þessvegna væri það einnig fjarstæða að tala um skrælingjahátt, þótt við gætum ekki gert það. Þetta var ekki meiningin með orðum mínum. Aftur á móti, þegar hægt er, eins og hér, að framleiða vöruna í landinu sjálfu, jafngóða og þá, sem við flytjum inn fyrir hundruð þúsunda króna, en í landinn ríkir atvinnuleysi og gjaldeyrisvandræði, þá tel ég það vera skrælingjahátt af okkur að láta slíkt viðgangast lengur. Það er sami skrælingjahátturinn eins og væri, ef við hefðum ekki manndáð í okkur til þess að framleiða nóg kjöt og mjólk, þar sem reynslan sýnir og sannar, að hægt er að framleiða nóg í landinu af slíkri vöru fyrir landsmenn til þess að lifa af.

Þá kem ég að hv. þm. Vestm., sem nú eins og áður stóð upp til þess að vera á móti þessu. Um hann má með sanni segja, að hann hafi ekkert lært og engu gleymt. Hann hefir þó undanfarið verið í þeim skóla, að hann ætti eitthvað að geta gert. Hann hefir undanfarið verið með þeirri þjóð, sem ekki skirrist við að beita ofbeldi til þess að tryggja sjálfri sér markað fyrir allar þær vörur, sem hún getur framleitt. Þessi maður hefir verið gerður út sem sendimaður til þess að reyna að greiða fyrir verzlun með okkar aðalframleiðsluvörur og hefir rekið sig á, að þó hér sé hægt að framleiða þessa vöru fyrir milljónir króna, þá er ekki hægt að selja hana nærri alla. Og hvað á fólkið, sem enga vinnu hefir að gera, ef ekki er hægt að beina kröftum þess að moldinni, sem bíður eftir okkur. Þegar við hættum að geta selt okkar aðalframleiðsluvörur, þá er það það allra minnsta, sem hægt er að krefjast af okkur, að við framleiðum sjálfir þá vöru, sem við þurfum sjálfir á að halda.

Hv. þm. hafði ýmislegt við þetta frv. að athuga, og flest stefndi að því sama hjá honum, að mæla á móti málinu og reyna að koma því fyrir kattarnef, eins og hann reyndi áður, þegar málið var á ferðinni. Hann talaði aðallega frá hlið neytenda og tók það sérstaklega fram, að ráðstafanir þær, sem frv. gerir ráð fyrir, yrðu til þess að gera kartöflurnar dýrari, og þessi bönn, sem hér væru á ferðinni, yrðu til þess, að framleiðslan yrði dýrari fyrir neytendur. Ég vil aðeins minna þennan hv. þm. á það, að bæði þetta frv. og önnur svipuð eru gerð með það fyrir augum, að það væri tryggt, að þeir, sem framleiða neyzluvörur í landinu, gætu af því lifað, og þó varan hækki eitthvað í verði, þá er það betra en að horfa fram á, að við getum ekki keypt ódýrar vörur frá öðrum löndum, þótt við vildum. Það er óhjákvæmilegt, að þeim, sem ekki hafa efni á að afla sér lífsnauðsynja sinna, vegna atvinnuleysis, sé hjálpað með því að veita þeim atvinnu við framleiðslu slíkrar vöru.

Hv. þm. talaði um, að innflutningsnefndin ætti að vera sjálfráð um þessa hluti. Ég vil aðeins segja það, að ég ber fullt traust til þess, að innflutningsn. sé skipuð þeim mönnum, sem hafa fullan skilning á því, sem hér er um að ræða, og séu því fyllilega færir um að gera skyldu sína í þessu efni. Ég vona, að þetta verði til þess, að þeir framleiðendur, sem hingað til hafa rekið sig á það, að ekkert þýðir að framleiða og framleiða, þegar ekki er unnt að selja fyrir ágangi erlendrar framleiðslu, verði ekki fyrir slíku oftar, en að þeim sé með frv. þessu. ef að l. verður, tryggður markaður þegar þeir þurfa að selja.

Þá var hv. þm. að tala um það, viðvíkjandi ákv. frv. um, að þeir gengju fyrir með innflutningsleyfi, sem bezt hefðu gengið fram í því að verzla með innlenda framleiðslu, að ekki sé hægt að safna skýrslum um þetta, þar sem yfirleitt hafi framleiðendur selt beint til neytenda. En vitanlega er átt við það, að á hverju ári skuli taka tillit til þess eftir að farið er að hefja innflutning að nýju, hverjir hafi verzlað mest, og þeir látnir sitja fyrir um innflutningsleyfi, til þess að hvetja þá til að kaupa innlenda framleiðslu og gera mönnum því sem greiðast fyrir að losna við það, sem þeir þurfa að selja. Það er vitanlegt og skiljanlegt af greininni, að það er tilgangurinn, að þessum tölum að safnað ár hvert, og þegar haustið er liðið, á það að vera ljóst, hverjir þurfa að kaupa ísl. kartöflur.

Hv. þm. var að tala um það, að Búnaðarfélag Íslands hefði ekki leiðbeint mönnum eða hjálpað í því að koma út kartöflunum á þann hátt, að koma saman framleiðendum og neytendum. Ég vil upplýsa hv. þm. um það, að Búnaðarfél. er ekki verzlunarfélag. Það hefir allt annað með höndum. Það á að vera ráðunautur um allt það, er að framleiðslunni lýtur, en það eru aðrir aðilar, sem eiga að hafa verzlunina með höndum. Sá hefir aldrei verið tilgangur Búnaðarfél. Íslands.

Hv. þm. sagði, að það væri fengin vissa fyrir því, að menn vildu heldur innlendar kartöflur en erlendar, þótt hvorartveggja væru á boðstólunum. Þetta er ekki svo. Reynslan sýnir allt annað, og ég held, að reynslan sé jafnvel enn ólygnari en þessi hv. þm. (JJós: Ég sagði: að öðru jöfnu).

Ég held þá, að ég sé búinn að svara þessu í aðalatriðunum. Ég vænti, að hv. þm. séu vakandi yfir ástandinu og sjái, að ekkert er ofgert til þess að tryggja þeim mönnum, sem á framleiðslunni á þessari vörutegund lifa, viðunanlegan markað í landinu sjálfu. Og það þýðir ekkert að rísa eins og draugur upp úr 18. aldar gröf og tala um frjáls viðskipti, sem hvergi þekkjast nú í heiminum. Við Ísl. verðum að semja okkur að siðum annara í þeim efnum.