18.03.1935
Neðri deild: 31. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 799 í B-deild Alþingistíðinda. (1160)

76. mál, flutningur á kartöflum

Sigurður Kristjánsson [óyfirl.]:

Ég skal ekki endurtaka neitt af því, sem ég sagði við 2. umr. þessa máls. Ég gerði þá grein fyrir því, hvers vegna ég væri á móti frv. En ég skal þó taka það fram, að ég gæti frekar fylgt frv. eins og það kom fram í fyrstu heldur en ef brtt. þær, sem fram eru komnar, yrðu samþ.

Hv. þm. hafa heyrt það, sem hv. um. V.-Húnv. sagði, að honum virtist enginn vafi á því, að þessar takmarkanir á innflutningi kartaflna í 1. gr. frv. myndu ekki ná lengra en takmarkanir þær, sem myndi leiða af gjaldeyrisvandræðunum. Ég skal nú ekki leggja neinn dóm á þetta, en það kemur heim við það, sem ég sagði, að gjaldeyrisvandræðin myndu vera nægilegar hömlur á innflutninginn.

Ég vil svo aftur snúa mér að málinu, sem hér liggur fyrir. Það er eðlileg leið að hlynna að þeim mönnum, sem kartöflur rækta, með því að létta á einhvern hátt undir með þeim, og þá allra helzt, hvað geymslustaði og flutninga snertir. Það væri a. m. k. miklu nær heldur en að hækka verðið, eins og þetta frv. mun gera. Það er vitanlegt, að það er ekki framleitt hér í landinu nándarnærri eins mikið af kartöflum og nauðsynlegt er vegna heilsu fólksins. Það er því bráð nauðsyn að flytja inn mikið af kartöflum. En þessar innflutningshömlur munu aðeins verða til þess, að varan hækkar í verði og að það verður neytt minna af kartöflum en nauðsynlegt er fyrir heilsu fólksins.

Það hafa áður komið fyrir Alþ. till. um að koma upp geymslustöðum í kaupstöðum, og myndi slíkt létta mjög fyrir innlendum kartöfluframleiðendum, og gæti það orðið mönnum aukin hvöt til kartöfluræktunar. En í þessu frv. er ekki á slíkt minnzt, og þykir mér þar vera farið aftan að siðunum. Hitt er auðvitað rétt, að reyna að létta flutninginn á sjónum, en ég skal taka það fram, að till. á þskj. 146 er mjög fjarri réttu viti.

Ég veit ekki betur en flutningar á landi úr nágrannasveitum Rvíkur, og það alla leið austur að Markarfljóti, kosti ekki meira en útskipun og uppskipun á kartöflum á höfnum víða um land. Þeir, sem á landi flytja, þurfa því ekki að borga meira en þeir, sem flytja á sjó, þó að hinir síðarnefndu fengju flutningsgjaldið endurgreitt. En þegar aðeins er um landflutning að ræða á útsölustaðinn, þá losna menn við að borga vörugjald, uppskipunar og útskipunargjald. Það er auðvitað ekki hægt að hneykslast á því, þó þm. úr nágrannakjördæmum Rvíkur beri fram till. eins og þá, sem er á þskj. 146, af umhyggju fyrir kjósendum sínum. En ég vil þó vekja eftirtekt á því, að þegar gerðar eru ráðstafanir, sem almenningur á að borga, þá verða þær að ganga jafnt yfir.

Ég þarf ekki að fara nákvæmlega út í einstök atriði, því eins og ég hefi tekið fram áður, er mín aðstaða þannig, að ég er á móti málinu í heild. Í stað þess að hlynna að kartöfluframleiðendum með því að létta undir með flutningum á sjónum og hjálpa mönnum til þess að selja í félögum, á hér að stofna til aukinnar kartöfluræktar með því að gera vöruna svo dýra, að það hljóti að vera arðvænlegt að rækta kartöflur, hversu illa sem það er gert. Þetta kemur auðvitað hart niður á vöru, sem fólkinu er eins nauðsynleg og kartöflur.

Ég sé að háttv. þm. V.-Húnv. hefir tekið upp till., sem ég sagði við 2. umr., að ég myndi geta fylgt, en það er að leggja ákveðinn verndartoll á vöruna, og er það ólíkt betra heldur en að koma á háspennuverði með því að banna innflutning á kartöflum, og koma þannig á nokkurskonar einokun, eða þá að gefa örfáum mönnum aðstöðu til þess að flytja inn kartöflur.