19.03.1935
Neðri deild: 32. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 809 í B-deild Alþingistíðinda. (1171)

76. mál, flutningur á kartöflum

Pétur Ottesen:

Áður en ég vík að ræðu hv. þm. Vestm. skal ég taka það fram, að ég tek aftur fyrri hl. af brtt. minni, þ. e. a. s. það af brtt., sem hv. n. hefir tekið upp. Hann þarf því ekki að koma undir atkv. Geri ég það af því, að ég hefi skilið n. þannig, að 1. gr. frv., eins og það nú er, eigi að breyta þannig, að á þeim tíma, þegar nóg er til af kartöflum í landinu, verði ekki leyfður innflutningur á kartöflum, sem komið geti í bága við það, að hægt sé að selja þær innlendar kartöflur, sem fyrir eru til í landinu, og að þannig eigi að keppa að því, að við getum sem fyrst orðið sjálfum okkur nógir um framleiðslu þessarar vöru.

Út af orðum hv. þm. Vestm. vil ég taka það fram, að niðursoðin mjólk erlend, sambærileg við innlenda niðursoðna mjólk, er alls ekki 6—7 kr. ódýrari kassinn, eins og þessi hv. þm. vildi vera láta bæði nú og fyrr. Þar er munurinn ekki nema 1—2 kr. samkv. upplýsingum frá kaupmönnum, sem ég nú alveg nýlega hefi aflað mér. En sú niðursoðna erlenda mjólk, sem fæst fyrir 6—7 kr. minna verð kassinn en sú íslenzka, er alls ekki sambærileg við þá íslenzku. Við vitum það frá þeim tíma, þegar flutt var inn mikið af niðursoðinni mjólk, að þá voru ódýrari tegundir hennar raunverulega alls ekki mjólk, heldur blöndun á vatni og mjölefnum, sem vitaskuld eru miklu ódýrari efni en mjólk og hafa miklu minna næringargildi.

Út af því, sem hv. þm. Vestm. sagði um það, að lélega hefði verið framkvæmt af hendi ráðh. eftirlit um, að ákvæðin um hámarksverð niðursoðnu mjólkurinnar væru haldin, ætla ég að segja það, að þessar upplýsingar mínar um verðmun á sambærilegri erlendri og innlendri niðursoðinní mjólk, sýna, að þessu ákvæði hefir verið fylgt nokkuð strangt eftir. Og þar við bætist, að ég get getið þær upplýsingar, að þeir, sem leggja mjólk inn í mjólkurbú þetta, hafa fengið 14—16 aura fyrir hvern mjólkurlítra, og þetta verð, ekki hærra en það er, byggist þó ekki eingöngu á niðursoðnu mjólkinni, heldur á því einnig, að framleiðendur geta notað rjómamarkað hér í Reykjavík, ella mundi útkoman verða enn lakari. Og ég vil benda hv. þm. á það, að þegar talað er um þennan verðmismun, þá verður líka að líta á það, að það eru íslenzku atvinnuvegirnir, sem okkar tilvera byggist á. Ef þeir eru reknir þannig, að þeir geti ekki borið sig, þá er okkar tilvera sem sjálfstæðrar þjóðar hreint og beint úr sögunni í framtíðinni.

Ég ætla, að þessar upplýsingar nægi til þess að sanna, að niðursoðin mjólk er ekki seld hér með óhæfilega háu verði.