26.03.1935
Efri deild: 35. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 812 í B-deild Alþingistíðinda. (1179)

76. mál, flutningur á kartöflum

Jón Baldvinsson [óyfirl.]:

Mér finnst mikil nauðsyn á, að gerðar séu ráðstafanir til, að hægt verði að selja innlendar kartöflur svo snemma, að skemmdir nái ekki að grafa um sig í birgðunum, því það er vitanlegt, að innlendu kartöflurnar hafa ekki verið afsettar nægilega fljótt. Þess vegna tel ég nauðsynlegt, að gerðar séu ráðstafanir til að skipuleggja sölu þeirra á þann hátt, að tryggt verði, að þær séu boðnar og keyptar óskemmdar og í góðu ásigkomulagi. Hitt er vitanlegt, að margar innlendar kartöflutegundir eru ekki góðar og skemmast eftir stuttan tíma. Þarf því, meðan ekki tekst að vanda meira til kartöfluframleiðslunnar, að að setja löggjöf sem þessa.

En þess ber vel að gæta, að það má ekki íþyngja kaupstöðunum með því að takmarka svo innflutning á kartöflum, að verðið hækki óeðlilega eða skortur verði á þeim. Á þetta þó sérstaklega við um þá staði, þar sem lítil kartöflurækt er og erfitt er að rækta kartöflur, eins og t. d. Siglufjörð. Að vísu eru samgöngur þangað ekki ótíðar, en það má ekki hafa þessi ákvæði of þröng. Álít ég , að 1. gr. frv. mætti missa sig, og vildi ég fá að vita hjá hæstv. landbrh., ef hún á að standa, hvernig hann hugsar sér framkvæmdír, því varlega verður að fara í innflutningsbann, sem bæði getur þýtt óeðlilega hátt verð á vörunni eða skort.

Það ætti ekki að líða langt um þar til Íslendingar rækta sjálfir nægilegt af kartöflum, en það er ekki enn, og framleiðslan er sérstaklega óviss, og sérstaklega þó vegna skemmda. Líður skammur tími frá því kartöflurnar eru teknar upp og þar til þær eru eyðilagðar af skemmdum, eða svo hefir a. m. k. mörgum kaupendum reynzt hér í Rvík. Því er það alveg rétt, að kartöflur séu merktar svo rekja megi upphaf skemmdanna, og að sjálfsögðu ætti að fara fram á mat á þeim.

Ég var að segja, að 1. gr. væri óþörf, sérstaklega þegar þess er gætt, að ríkisstj. getur lagt fyrir gjaldeyrisn. að takmarka innflutning vissra vörutegunda um lengri eða skemmri tíma, og er óþarft að herða á því valdi. Vildi ég beina því til hæstv. landbrh., að framkvæmd þessa ákvæðis verður að vera varleg, ef vel á að fara.

Þá er annað atriði í 1. gr. frv., 2. málsgr., sem er dálítið varhugavert, þ. e. að veita þeim kaupmönnum, sem verzlað hafa með íslenzkar kartöflur áður, sérstaklega leyfi til innflutnings á kartöflum. Þeir eru sjálfsagt margir, sem verzlað hafa með innlendar kartöflur, en aldrei með útlendar, en eftir reglum þeim, sem ríkisstj. hefir látið fylgja l. um gjaldeyrisverzlun, njóta þeir hlunninda um innflutning vörunnar, sem áður hafa flutt hana inn. Þetta ákvæði getur því valdið ruglingi eða þýtt dálitla truflun á áður settum reglum stj. Það þarf enginn að halda, að kaupmenn hafi verzlað með íslenzkar kartöflur í guðsþakkarskyni, heldur af því, að það hefir verið þeim hagkvæmt; þeir hafa haft vöruskipti við framleiðendur þeirra o. s. frv., og þeir gætu haldið þeim viðskiptum áfram án þess að fá sérstök hlunnindi um innflutning erlendra kartaflna, sem hæglega getur valdið truflun, eins og ég hefi áður sagt.

Ég hefði því helzt kosið, að 1. gr. frv. væri felld burt, því aðalefni frv. er í 2. og 3. gr. Hitt hefir ríkisstj. í hendi sér án sérstakra laga. Nú er aðhaldið mjög sterkt, og ég álít frekari lagaákvæði alls ekki þurfa, af því að af þeim gætu hlotizt vandræði, ef þeim yrði beitt stranglega.