26.03.1935
Efri deild: 35. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 815 í B-deild Alþingistíðinda. (1181)

76. mál, flutningur á kartöflum

Sigurjón Á. Ólafsson:

Það, sem kemur mér til að segja hér nokkur orð, er meðfram þau ummæli, sem hér hafa fallið, og frv. líka eins og það liggur fyrir. Ég hefi tekið eftir því, að tveir hv. nm. hafa skrifað undir nál. með fyrirvara, og bjóst ég sannarlega við brtt. frá öðrumhvorum þeirra eða báðum, og aðalatriðið er það, að ég vil gjarnan óska, að n. taki málið til athugunar milli umr., því að það er vissulega ýmislegt athugavert við þetta frv. Að vísu verður þetta mikið undir framkvæmdinni komið, en verði þar farið mjög hart í sakirnar, þá getur farið svo, að mörgum finnist þetta frv. hafa fremur gert óleik en gagn.

Það, sem hér vakir fyrir mér, er það, og ég býst við, að þar geti margir orðið mér sammála, að kartöfluverzlun sé einhver sú vafasamasta verzlun, sem hægt er að reka, ekki frekar með íslenzkar en erlendar.

Um það hefir verið talað, að menn væru hræddir við íslenzku kartöflurnar. Þetta er að sumu leyti ekki rétt. Það er svo með kartöflur úr a. m. k. einum stað hér nærlendis, að þær eru í svo miklu áliti bjá öllum almenningi, að þær eru eftirsótt vara, og það er engin hætta á því, að þær verði ekki keyptar svo lengi sem eru á boðstólum, og eftir því, sem ég veit bezt, þá er alltaf eftirspurn eftir kartöflum frá þessum stað. En þetta er ef til vill hrein undantekning.

Þá má benda á það, að þótt framleiðslan væri hér það mikil, að hún gæti fullnægt þörfum landsmanna, þá er alls ekki til geymsla fyrir kartöflurnar, en frv. tryggir ekkert í því efni. Ég hefi þá sögu að segja, að hingað hafa verið fluttar kartöflur frá Hornafirði, sem fyrst í stað sýndust mjög góðar, en meðfram af slæmum flutningi á þeim, voru þær orðnar hreinn og beinn grautur, þegar átti að fara að selja þær.

Ég hefi alltaf verið því fylgjandi, að landsmenn væru sínir eigin búmenn um kartöflur. En meðan svo er ekki, verðum við að flytja inn útlendar kartöflur. Ég vil einnig taka undir það, sem hv. 4. landsk. sagði, að ég tel ekki rétt að leggja sérstakar fyrirskipanir fyrir innflutningsn. að því er snertir innflutning á kartöflum. Hæstv. ráðh. lagði líka nokkuð mikla áherzlu á það, að ueir, sem hefðu verzlað með innlendar kartöflur, ættu að fá að verzla með þær útlendu. Ég skal ekki um þetta dæma, en ég býst við, að þeir, sem hafa reynsluna í þessu efni, áliti, að það verði miklu notadrýgra að hafa góða geymslu fyrir kartöflurnar. Mér er vel kunnugt um það, að sumir þeirra, sem við þessa verzlun hafa fengizt, hafa strandað með hana á vanþekkingu sinni, af því að þeir hafa ekki vitað, hvað við átti í þessum efnum. Ég vil því beina því til hv. n., hvort hún sjái ekki ástæðu til að breyta 1. gr. og rýmka þar eitthvað til.

Hæstv. forsrh. hefir lagt mikið upp úr þeim ótta, sem væri hér meðal manna út af því, að innlendar kartöflur kynnu að vera skemmdar, og það er ekki heldur ástæðulaust, því að sýkin í kartöflunum hefir verið meiri en svo, að hægt sé að lækna á einni svipstundu. Auk þess get ég haft það eftir fróðum mönnum, að sumar þær tegundir, sem ræktaðar eru hér á landi, séu erlendis ekki ræktaðar til manneldis, heldur sem skepnufóður. Það er því engin von, að slíkar kartöflur séu útgengileg vara.

Um matið á kartöflunum skal ég engan dóm fella, en mig uggir, að það geti í mörgum tilfellum orðið til falls. Það fer kannske fram þar, sem kartöflurnar eru seldar, og svo líður langur tími þar til þær koma til neytenda, og þá hafa þeir enga tryggingu fyrir því, að þær hafi ekki skemmzt frá því að matið fór fram.

Það hefir verið minnzt hér á ýms kartöflupláss; ég hefi minnzt á Akranes, og það hefir einnig verið minnzt á Eyrarbakka og Stokkseyri. Það er satt, þar er mikil kartöfluræktun, en því miður hefir það oft reynzt svo, þegar menn hafa fyrir sakir kunningsskapar keypt þaðan poka og poka, að kartöflurnar hafa eftir stuttan tíma reynzt stórskemmdar, eða jafnvel með öllu ónýtar. Hvernig á svo að fara að? Það er ekki í annað hús að venda en búðirnar, sem hafa erlendar kartöflur til sölu. Og þá er illt og óráðlegt að stemma stigu fyrir sölu á jafngóðri og algengri fæðu og kartöflurnar eru.

Um hámarksverðsákvæðið vil ég segja það, að mér finnst sjálfsagt, að það sé sett, og þá alveg eins á útlendar sem innlendar, því að það þekkir maður af reynslunni, að þegar er kartöfluekla, þá er verðið á útlendum kartöflum óeðlilega hátt. Þá eru dæmi til, að menn hafa keypt 100 kg. fyrir 40 og jafnvel 50 kr. (ÞÞ: Þær eru útlendar, og þá þykir það gott). Það þykir ekki gott, þó að menn neyðist til að sæta því. Verði á íslenzkum kartöflum hefir aftur á móti verið stillt í hóf, þó að eftirspurn hafi oft verið mikil, sérstaklega þeim, sem öðrum fremur hafa fallið neytendum vel í geð. Verðið hefir oftast verið 10—12 kr. pokinn, og það þykir mönnum ekkert athugavert við, ef um góða vöru er að ræða.

Ég mun greiða atkv. með þessu frv. til 3. umr., en vil vona, að n. beri þá fram brtt., sem tryggja neytendum nægar og góðar kartöflur, en það álit ég, að sé ekki gert eins og frv. er nú.