26.03.1935
Efri deild: 35. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 817 í B-deild Alþingistíðinda. (1183)

76. mál, flutningur á kartöflum

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Ég verð að segja, að ég get ekki séð, hverju á að ná með þessu frv. mér finnst það vera eitt af þessum alveg einstöku hegómamálum. Það, sem talað er um hér, er það, að það sé óhæfa, að við skulum ekki vera sjálfum okkur nógir um kartöflurækt, en þurfa að kaupa kartöflur fyrir hundruð þúsunda. En ég sé bara ekki, á hvaða hátt þessu frv. er ætlað að hjálpa þessu við. Ég hlustaði hér á allýtarlega ræðu, sem hæstv. forsrh. flutti, og ég heyrði hann þar ekki minnast á neitt slíkt, nema að neytendur óttuðust skemmdir í íslenzkum kartöflum, og þess vegna gengi sala á þeim ekki eins greiðlega og annars mundi. Nú er mér sagt, að meðan íslenzkar markaðshæfar kartöflur eru á markaðnum, þá séu þær alltaf seljanlegar og engin vandræði að koma þeim út. Hverju á þetta þá að breyta? hér er ekki gert ráð fyrir neinu, sem örvi þessa framleiðslu. Það eitt, að fluttar eru inn kartöflur, sýnir, að hér er meiri markaður fyrir þessa vöru en sú íslenzka framleiðsla getur fullnægt. Það sýnir, að menn telja það á einhvern hátt ekki borga sig að framleiða þessa vöru. Þetta er því óþarft ákvæði. Ég veit ekki betur en innflutningnefndin sé búin öllu því valdi, sem til þess þarf að takmarka innflutning á kartöflum, eins og hverri annari vöru. Ráðh. getur með einu orði látið n. banna innflutning á kartöflum, enda hefir sá innflutningur verið hindraður, að því er ég bezt veit, þegar nóg var af innlendum kartöflum í landinn. Svo hefir verið felldur niður í hv. Nd. síðari hluti fyrri málsgr. 1. gr. frv. eins og það kom frá landbn. Ég veit ekki, hvers vegna þetta er fellt niður, en ég verð að segja það, að mér finnst það hreinn og beinn glæpur, ef svo langt yrði gengið í því að takmarka innflutning á kartöflum, að það hækkaði verð á þeim eða hindraði það, að almenningur gæti notað þessa ódýru og þörfu vöru.

Þá kem ég að síðari málsgr. 1. gr. Hún er nú svo undarleg, að ég get alls ekki samþ. hana. Þar er sagt, að þegar veitt séu innflutningsleyfi, þá eigi að taka tillit til þess, hvort umsækjandi hafi verzlað með innlendar kartöflur Hér er um gersamlega nýuppfundna reglu að ræða, og enginn veit, hversu langt þetta tillit á að ná. Hingað til hefir nú verið fylgt þeirri reglu um veitingu innflutningsleyfa, að þau hafa verið veitt í hlutfalli við það, hve hver umsækjandi hefir haft mikla verzlun með þá vöru. Og þetta hefir verið gert til þess að trufla sem minnst verzlunina með hverja vörutegund. Ég sé ekki betur en að þessa nýju reglu geti innflutningsnefnd „praktiserað“ eins og henni sýnist, t. d. þannig, að láta þann mann hafa stærst innflutningsleyfi á vefnaðarvörum, sem unnið hefði eitthvert mikið þjóðþrifastarf, þó hann aldrei fyrr hafi fengizt við verzlun með þá vöru. Með þessu leyfi ætti að veita honum einskonar „dekoration“ fyrir vel unnið starf.

Það getur vel verið, að sá, sem hefir mikið verzlað með innfluttar kartöflur, hafi ekki aðstöðu til þess að ná í innlendar kartöflur til þess að verzla með, og það þarf ekki að vera af því, að sá hinn sami sé óvinveittur innlendri framleiðslu, heldur af allt öðrum ástæðum. Það er athugandi, að margar verzlanir hafa sín ákveðnu sambönd og safna að sér vissum vörutegundum frá vissum stöðum. Þannig getur margar verzlanir skort aðstöðu til þess að grípa inn í verzlun með innlendar kartöflur, þó þær hafi verzlað með innfluttar kartöflur. En spaugilegast af öllu er þó orðalagið síðast í gr., þar sem talað er um, að tekið sé tillit til þess, hvort umsækjandi „hefir lagt sig fram um sölu á innlendum kartöflum“. Á hér að rannsaka hjörtun og nýrun og dæma svo eftir þeim? þá ekki einu sinni að fara eftir því, hvað umsækjandi hefir selt mikið af innlendum kartöflum, heldur hvernig hann hefir „lagt sig fram“ við söluna? — Nei, hér er komið út í ógöngur, og mér sýnist mjög óhagkvæmt, ef farið verður eftir öðru en því, hve mikla verzlun hver og einn hefir haft með þessa vöru, því ef vikið er út frá þeirri reglu og innflutningsnefnd tæki upp á því að nota leyfin sem einskonar verðlaun, þá gæti hún alveg eins látið sér detta í hug að veita þeim manni stærstan innflutning á skótaui, sem mestan dugnað hefði sýnt í því að selja hangikjöt fyrir bændur.

Þá er 3. gr. frv. ákaflega undarleg. Þar er talað um, að ráðh. geti sett reglugerð um það, hvernig kartöflur þurfi að vera svo þær séu markaðshæfar, en hvar er svo eftirlitið? Þegar ég kaupi kartöflur, er mér ekki nóg að vita um einhverja reglugerð; ég þarf að vita, hvaða kartöflur mér er óhætt að kaupa og hvort þær hafa verið skoðaðar eða metnar. Og svo þegar farið er að tala um merkingu á kartöflunum, þá er ekki á það minnzt, að setja eigi á þær merki um það, hvort þær séu markaðsvara eða ekki. Nei, það er nóg að setja á þar upprunamerki, svo kaupandi geti séð, hvort þær eru úr Borgarfirði, Skagafirði eða einhversstaðar annarsstaðar að. Auðvitað tryggir slík merking ekki neitt; hún er nánast eitthvert forvitnisatriði. Þetta upprunamerki er alveg þýðingarlaust. Það, sem þýðingu hefir, er, að kaupendur geti vitað, hvort varan er ósvikin eða ekki.

Síðari málsgr. 3. gr., um heimild ráðh. til þess að setja hámarksverð á kartöflur, tel ég til bóta, þó ég þykist hafa reynt það, að þetta hámarksverð verði venjulega tómt pappírsgagn. Það, sem hér er um að ræða, er held ég það, að enn er ekki fundið púðrið í þessu kartöflumáli, einmitt þetta, að framleiðsla á kartöflum getur ekki aukizt verulega, nema með því að verðið hækki, en slíkt er óhæfa, vegna þess að hækkað verð mundi leiða af sér minnkandi neylu. Eina leiðin til þess að auka framleiðsluna væri sú, að verðlauna hana, en ég er ekki viss um, hvort það væri samt sem áður rétt að gera það, þar sem hér er svo örðugt að stunda þessa framleiðslu. Það þarf ekki annað en að hafa séð, hvernig þessi framleiðsla tekur sig út í öðrum löndum. Sjá bændurna t. d. í Ameríku herfa kartöflurnar niður í jörðina á vorin með tveimur hestum og heljarstórum verkfærum, skipta sér svo ekkert af þessu yfir sumarið, fara svo á haustin með sína hesta og plóga og plægja slík ógrynni af auðæfum upp úr moldinni, að það sýnist næstum takmarkalaust. Ef arfi kemur í garðana yfir sumarið, þá er farið með heljarstór verkfæri yfir kartöfluakrana. Það er ekki verið að hirða um það, þó að ein og ein planta farist, þetta sýnist næstum því verðlaust. Og bændurnir þurfa ekki að binda sig við vissar tegundir af kartöflum; þeir geta valið þá tegund, sem þeim sýnist. Tíðarfarið leyfir allt þar, í stað þess, sem einn hv. samþm. minn sagði mér, að í sínu héraði þyrftu bændur að velja hinar verri tegundir til ræktunar, af því þær næðu beztum þroska. Ég er af þessum ástæðum alls ekki viss um, að rétt sé að gera ráðstafanir til þess að auka kartöfluframleiðsluna í landinu til þess að gera hana að verzlunarvöru á annan hátt en í beinum skiptum milli framleiðenda og neytenda. En sérstaklega stóð ég á fætur til þess að benda á þann mikla mismun á ræktunarskilyrðum hér og í öðrum löndum, og óska ég að hv. landbn. athugi það. Hitt er annað mál, að ég mun flytja brtt. um það, að síðari málsgr. 1. gr. falli niður. Ég sé ekki annan tilgang í þeirri málsgr. en ef vera skyldi þann, að beina viðskiptunum í vissar áttir, án þess séð verði, að nokkuð mæli með slíkum breytingum.