26.03.1935
Efri deild: 35. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 819 í B-deild Alþingistíðinda. (1184)

76. mál, flutningur á kartöflum

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Hv. 4. landsk. skrifaði undir nál. landbn. með fyrirvara, og mátti því gera ráð fyrir, að hann hefði eitthvað að athuga við frv., en mér kemur það á óvart, að það sé svo mikið, að hann vilji alveg fella niður 1. gr. frv. Mér finnst sú gr. eiginlega fela í sér aðalefni þess því það er auðvitað mál, að tilgangurinn með þessu frv. er ekki sízt sá, að greiða fyrir því, að innlendar kartöflur njóti þess markaðar, sem til er í landinu, og jafnframt að girða fyrir það, að útlendar kartöflur keppi við þær innlendu meðan þær eru að seljast. Um þetta fjallar 1. gr., og þar af leiðandi finnst mér alls ekki mega fella hana niður. Hvað það snertir, sem bæði hann o. fl. hv. þm. voru að tala um, að innflutnings- og gjaldeyrisnefnd gæti gert þær ráðstafanir, sem 1. gr. ræðir um, þá er það rétt, að n. getur þetta, en sú n. miðar ráðstafanir sínar eðlilega við þær almennu gjaldeyrisástæður landsins. Hinsvegar lít ég svo á, að jafnvel þó engin gjaldeyrisvandræði væru, þá ætti samt með löggjöf að stuðla að því að auka innlenda kartöfluframleiðslu og draga úr innflutningi kartaflna. Og komi þeir tímar, að gjaldeyrismálin komist í lag, þá finnst mér vera niður fallin hvort gjaldeyris- og innflutningsn. til þess að takmarka innflutninginn. Af þessum ástæðum er nauðsynlegt að halda ákvæðum 1. gr.

Ég sé ekki ástæðu til, enda ekki tími til þess, að fara mikið út í einstök atriði í ræðum hv. þdm. Hv. 4. um. Reykv. gerði t. d. allmikið úr því orðalagi í frv., að eftirspurninni væri fullnægt með innlendum markaðshæfum kartöflum. Hann gerði mikið úr vöntun á geymslustöðum fyrir kartöflur og skemmdum á innlendum kartöflum og jafnvel eyðileggingu af þeim sökum. Ég get ekki tekið undir þetta með honum. Það getur vel verið, að þessi sé reynslan hér sunnanlands, en þar, sem ég þekki til, veit ég, að fólk sækist mikið eftir ínnlendum kartöflum. Bæði þessi hv. þm. o. fl. hafa beint til n. tilmælum um, að frv. verði breytt í ýmsum atriðum. Hv. þm. vildi rýmka ákvæði 1. gr., en hann gekk þó ekki eins langt í því og hv. flokksbróðir hans, 4. landsk., er fella vildi 1. gr. niður.

Það er í sjálfu sér ekki fráleitt, að komið gæti til mála að breyta frv., en að öðru leyti er þó nú svo ástatt, að mér finnst, að til þess þyrfti þá æðimikla ástæðu, því ef farið verður að breyta því nú í þessari hv. d., og svo þyrfti það síðan að fara fyrir hv. Nd., þá er mikill vafi á, hvort það yrði að l. áður þingi yrði frestað, og gæti þá svo farið, að málið kæmi að engu gagni á þessu ári. Á hinn bóginn mætti breyta l. strax eftir árið, ef ástæða sýndist til.

Í sambandi við það, sem hv. þm. Dal. var að tala um markaðshæfar kartöflur og verulega góðar kartöflur, vil ég benda honum á það, sem stendur í 3. gr. Þar er talað um skoðun, sem eigi að fara fram á innlendum kartöflum, og að þær þurfi að fullnægja vissum skilyrðum til þess að teljast markaðshæfar. Mér finnst, að hægt væri að koma ákvæðum um það, sem fyrir honum vakir, inn í reglugerð. (ÞÞ: Flokkunina?). Já, mér finnst jafnvel það mundi takast.

Hvað snertir ræðu hv. 1. þm. Reykv., þá sá hann ekki, hvað það er, sem ná á með frv. Ég hefi nú vikið að því nokkuð í svari mínu til hv. 4. landsk. Tilgangurinn er auðvitað sá, að auka notkun á innlendum kartöflum, en minnka hana á erlendum. Ákvæði 1. gr. fela í sér möguleikann til þessa, að hindra innflutning þegar nægar birgðir eru til í landinu, og ennfremur eru í frv. ráðstafanir gerðar til þess, að innlendar kartöflur komist á markaðinn. (MJ: Þær seljast allar án þess nokkrar ráðstafanir séu gerðar). Það getur verið, en menn senda þær síður frá sér vegna óvissunnar. Hvað snertir hugleiðingar þessa hv. þm. og efasemdir út af því, hvort rétt sé að stunda kartöflurækt hér á landi, þar sem það muni ekki borga sig vegna mikilla erfiðleika, þá býst ég við, að frá hans sjónarmiði geti alveg eins verið efi um það, hvort yfirleitt sé rétt að stunda landbúnað hér á landi. Þetta land hefir óneitanlega fremur rýr skilyrði að bjóða fyrir ýmsar framleiðslugreinir, a. m. k. að hans dómi, en það þykir samt, sem áður rétt að framleiða þó þær vörutegundir, sem landsmenn sjálfir þarfnast og hægt er að framleiða. Það hafa meira að segja verið gerðar hér tilraunir með kornrækt, sem hafa gefizt nokkuð vel, og þó eru talin hér mikið betri skilyrði fyrir kartöflurækt, heldur en kornrækt. Og ég býst við, að það séu fleiri, sem álíta, að réttara sé að rækta þær tegundir, sem hér eru ræktanlegar, heldur en að flytja þær frá útlöndum, a. m. k. ef það er ekki mjög miklum erfiðleikum háð. Ég veit ekki, hvort umr. þessari verður lokið á þessum fundi, en ég þykist hafa gert mitt til, að svo mætti verða.